Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða 

3. Meginmarkmið skólaíþrótta

 

Frá því um miðja 19. öld og til dagsins í dag hefur mikil breyting átt sér stað á markmiðum, skipulagi og inntaki íþróttakennslu, þó svo að heilræði Grikkja til forna um ³heilbrigða sál í hraustum líkama," sé enn í fullu gildi.

Á síðustu áratugum hafa atvinnuhættir hér á landi breyst, skólaskyldan lengst og viðvera barna í skóla orðin lengri. Rannsóknir á gildi íþrótta og almennrar hreyfingar hafa aukist hér á landi sem erlendis. Áhyggjur vísindamanna hafa beinst að auknu hreyfingarleysi þessu samfara. Hvorki fyrr né síðar á lífsleiðinni gefst eins gott tækifæri og í skólum til að hafa áhrif á mótun þroskaþátta barna og unglinga, sér í lagi með þá staðreynd í huga að grunn- og framhaldsskólaárin ná yfir helsta vaxtarskeið mannsins. Skólaíþróttir gegna hér ákveðnu lykilhlutverki og það er skoðun forvinnuhóps að skólaíþróttir séu einn af hornsteinum heilbrigðiskerfis íslenskrar þjóðar, en gildi skólaíþrótta í þessu samhengi hefur verið vanmetið.

Eins og að framan greinir ná skólaárin yfir helsta mótunarskeið einstaklings. Með hliðsjón af því ætti að leggja enn meiri rækt en gert hefur verið við markvisst líkamsuppeldi skólafólks, daglegar skólaíþróttir að markmiði og aðstaða sköpuð til íþrótta og líkamsræktar við alla skóla. Hér vantar því miður enn nokkuð á að þessum kröfum sé framfylgt. Sérstaklega eru nokkrir framhaldsskólar illa settir.

Um mikilvægi námsgreinarinnar segir svissneski uppeldisfræðingurinn Heinrich Pestalozzi í bókinni ³Skólaíþróttir, 2. til 5. bekkur":

³Frá náttúrunnar hendi er barn ein óaðskiljanleg heild með margslungnum hæfileikum hjartans, andans og líkamans. Náttúran vill að enginn þessara hæfileika verði eftir á þroskabrautinni. Þroski eins hæfileika er ekki einungis óaðskiljanlega tengdur þroska annars hæfileika, heldur þroskast einn hæfileiki með öðrum og í gegnum annan."

 

3.1 Markmið og þroskaþættir

Í þessari námskrá er m.a. sú grundvallarbreyting frá fyrri námskrám að markmið kennslunnar munu taka mið af þroskaþáttum einstaklingsins.

 

Skyn- og hreyfiþroski

Markmið: Í grunnskóla skal stuðla að örvun grunnhreyfinga nemenda og þroskun taugakerfis. Þannig verði lagður grunnur að flóknara hreyfinámi. Í framhaldsskóla skal viðhalda áður lærðum hreyfingum og bæta þær eins og kostur er.

 

Líkamsþroski

Markmið: Stuðla að alhliða líkamsþroska nemenda, s.s. þols, krafts, hraða og liðleika. Stefnt er að því að bæta almennt líkamsástand barna og unglinga meðan á grunn- og framhaldsskólanámi stendur.

 

Félags- og siðgæðisþroski

Markmið: Efla nemandann sem félagsveru, kenna honum að taka tillit til félaga sinna, vera sveigjanlegur í samskiptum og virða einstaklinginn. Ennfremur er stefnt að því að auka skilning og hæfni nemenda til þess að fara eftir reglum og fyrirmælum.

 

Tilfinningaþroski

Markmið: Stefnt skal að því að auka innsæi nemenda í tilfinningar sínar og tilfinningar annarra. Einnig skal efla hæfileika nemenda til þess að bregðast við tilfinningalegum áreitum á eðlilegan hátt. Jafnframt skal stuðla að ánægjulegri upplifun skólaíþrótta, sem mótað getur viðhorf nemenda til þessara þátta í framtíðinni.

 

Vitsmunaþroski

Markmið: Stefnt skal að því að auka þekkingu og skilning nemenda á starfsemi líkamans, helstu leiðum til þjálfunar líkamans og heilbrigðum lífsstíl. Vinna skal að því að nemendur finni sér leiðir við hæfi til heilsuræktar, bæði meðan á námi stendur og að því loknu. Þetta markmið á sérstaklega við um nemendur á efstu stigum grunnskóla og framhaldsskóla.

Fagurþroski

Markmið: Stefnt skal að því að efla hugmyndaflug nemenda, sköpunarmátt þeirra og tjáningu með fjölbreyttu hreyfinámi. Hvetja skal nemendur til þess að veita tilfinningum sínum útrás með því að nota líkama sinn, rými, blæbrigði, afstöðu og tengsl við aðra.

Markmið skólaíþrótta taka mið af áðurnefndum rökum og í kafla 3.1 verður þeim gerð betri skil. Á myndinni hér að neðan má sjá nálgun á afstöðu og tengslum þroskaþátta við markmið, námsþætti, námsleiðir og námsmat greinarinnar.

Mynd: Námsgreinakubburinn

Á myndinni kemur fram afstaða og tengsl þroskaþátta við markmið, námsþætti, námsleiðir og námsmat.

Í 4. og 5. kafla verður fjallað nánar um markmið á grunn- og framhaldsskólastigi og skýringar á þeim.

Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða 

Höfundarréttur 1998 Menntamálaráðuneytið.