Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða 
4. Grunnskólinn

Í þessum kafla verður gerð grein fyrir hverjum þroskaþætti fyrir sig og hann tengdur við markmiðin. Einnig verður fjallað um útfærslu þeirra, komið inn á kennslufræðilega nálgun og dæmi nefnd úr kennsluinni. Þannig mun lesandinn geta betur áttað sig á inntaki kaflans. Hverjum kaflahluta lýkur með umfjöllun um námsmat og dæmi eru tekin um framsetningu.

Erfitt getur verið að vinna með þroskaþættina á afmarkaðan hátt í kennslunni, þó svo að gerð sé sérstök grein fyrir þeim á þann hátt hér í skýrslunni. Á nær öllum sviðum skarast þessir þættir. Einn þroskaþáttur er ekki einungis óaðskiljanlega tengdur öðrum, heldur þroskast hann með öðrum og í gegnum annan (Pestalozzi, Skólaíþróttir 1991).

4.1 Skyn- og hreyfiþroski

Með skyn- og hreyfiþroski er átt við skynjun á mismunandi áreitum, úrvinnslu þeirra og hreyfisvörun. Áreiti geta verið fjölþætt og er svörun þeirra fyrst og fremst háð þroska taugakerfis og þroskun viðkomandi hreyfinga.

4.1.1 Markmið

Í skólaíþróttum skal stefnt að alhliða örvun skynfæra, örvun grunnhreyfinga nemenda og þroskun taugakerfis. Þannig verði lagður grunnur að flóknara hreyfinámi.

4.1.2 Skynþroski

Skynþroski er háður örvun mismunandi skynfæra. Vitað er að lítil örvun skynfæra hægir á þroska þeirra. Skynþroski eflist í gegnum mismunandi áreiti sem berast til skynfæra líkamans, en þau eru:

- Jafnvægisskyn.
- Snertiskyn.
- Vöðva- og liðamótaskyn.
- Sjónskyn.
- Heyrnarskyn.
- Samspil skynfæra, samhæfing.
 

Í hverjum undirkafla um skynstöðvarnar verða til viðbótar við útskýringar nefnd dæmi um kennslufræðilega nálgun.

 

4.1.3 Nánari útfærsla og dæmi um kennslufræðilega nálgun

Jafnvægisskyn

Jafnvægisskyn skiptist í stöðu- og hreyfijafnvægi. Jafnvægisskyn er örvað með fjölbreyttum jafnvægisstöðum og jafnvægisgöngu. Skynið er t.d. eflt, með því að ganga á minnkuðum stuðningsfleti, s.s. að ganga á tám eða mjórri slá, göngu úr hæð, sem hækkar með aukinni getu og með því að standa á eða ganga á óstöðugu undirlagi, t.d. þykkum kaðli eða vaggandi slá. Einnig er hægt að erta jafnvægisskynið áður en jafnvægisæfingar eru gerðar með því að snúa líkamanum í hringi, sem leiðir til þess að jafnvægisæfingin sjálf verður erfiðari.

 

Snertiskyn

Snertiskyn skynjar áreiti á húðina, staðsetur snertinguna, skynjar áferð mismunandi hluta og greinir á milli hita og kulda. Skynið örvast með snertingu hluta við líkamann.Tvímenningsæfingar af ýmsum toga eru hentugar í þessu samhengi. Snertiskynið eflist t.d. með því að ganga á grófu, sléttu eða mjúku undirlagi og með snertingu við mjúka og harða knetti.

 

Vöðva- og liðamótaskyn

Vöðva- og liðamótakyn skynjar stöður og hreyfingar vöðva og liðamóta. Líkamsvitund, rúmskyn, jafnvægi og sjónskyn eru þættir sem hafa áhrif á vöðva- og liðamótaskyn. Hægt er að örva það með ýmsum hreyfingum og líkamsstöðum þar sem virkni líkamans er höfð til hliðsjónar. Sem dæmi um eflingu þess má nefna stöðu á öðrum fæti með armsveiflum fram og aftur á víxl, veltur og að hanga. Ennfremur eru fjölbreytt hindrunarhlaup góð.

 

Sjónskyn

Með sjónskyni er átt við skynjun sjónáreita. Það getur m.a. verið skynjun hluta í umhverfinu, skynjun á hraða hreyfinga og skynjun á fjarlægð. Sjónskyn er örvað með kyrrstæðum sjónáreitum og sjónáreitum á hreyfingu. Til eru margvísleg áreiti bæði hvað varðar liti og lögun. Hraði þeirra getur einnig haft áhrif. Erfiðara er að nema áreitin þegar nemandinn er sjálfur á hreyfingu. Knattleikir eins og t.d. skotbolti, brennibolti og veiðibolti geta eflt sjónskyn nemenda.

 

Heyrnarskyn

Heyrnarskynið skynjar heyrnaráreiti. Heyrnarskynið er örvað með fjölbreyttum hljóðum s.s. klöppuðum eða slegnum takti, tónlist og talmáli. Efling heyrnarskynsins getur farið fram með því að ganga, hlaupa, hoppa eða stökkva eftir ákveðnum takti með eða án sjónskyns t.d. með bundið fyrir augu. Jafnframt getur takturinn verið mishraður. Margs konar viðbragðsleikir geta einnig stuðlað að eflingu heyrnarskynsins.

 

Samspil skynfæra

Samspil skynfæra eða samhæfing, er notkun ólíkra skynfæra samtímis við sömu hreyfinguna. Hægt er að örva jafnvægis-, snerti- og heyrnarskyn samtímis t.d. með jafnvægisgöngu á þykkum kaðli með heyrnarráreiti s.s. talmáli eða takti. Nemandinn gengur áfram við taktinn eða talmálið en þegar það stöðvast stendur hann kyrr. Einnig er hægt að herma eftir hreyfingum kennarans og á þann hátt örvast sjón-, vöðva- og liðamótaskyn. Möguleikar á samspili skynfæra eru ótalmargir og huga þarf vel að kennslufræðilegum stíganda og fjölbreytni í æfingavali.

 

4.1.4 Hreyfiþroski

Hreyfiþroski er þroskaferli hreyfinga, allt frá frumhreyfingum til samsettra og flókinna hreyfinga. Markmið hreyfináms er að gera sem flestar hreyfingar sjálfvirkar. Helstu námsstig hreyfiþroskans eru fjögur. Fyrsta námsstigið eru ósjálfráð viðbrögð (reflexar), sem hverfa á bilinu 9 - 14 mánaða. Samhliða hreyfingar er annað námsstig sem lýsir sér þannig að báðir útlimir framkvæma sams konar hreyfingu samtímis. Þriðja námsstigið eru viljastýrðar og margbreytilegar hreyfingar, þar sem útlimir hafa öðlast þá eiginleika að útfæra ólíkar hreyfingar samtímis. Á efsta hreyfinámsstiginu verða hreyfingar sjálfvirkar, hraðar, markvissar og fallegar, ákveðinni fullkomnun er náð. Þannig sjálfvirkni næst eingöngu með margendurteknum hreyfingum yfir lengri tíma. Hreyfinámsstigin gefa upplýsingar um gæði hreyfiþroskans.

 

4.1.5 Nánari útfærsla og dæmi um kennslufræðilega nálgun

Hreyfingar hafa verið flokkaðar í gróf- og fínhreyfingar eftir þáttttöku vöðvahópa í þeim. Grófhreyfingar eru umfangsmiklar og reyna yfirleitt á allan líkamann. Sem dæmi má nefna, stökk, jafnvægisæfingar, skrið, hlaup, hopp, snúningar, klifur, veltur og sveiflur. Fínhreyfingar reyna hins vegar á afmarkaðri svæði líkamans og geta tengst vinnu með ýmsum smááhöldum, má þar nefna köst, grip, knattrak og spyrnur. Samhæfing hreyfinga er tenging hreyfinga í eina heild, s.s. sporhopp með knattraki, takthreyfingar með hægri og vinstri fæti til skiptis, hreyfing og söngur og boltakast með atrennu. Regluleg fjölbreytt hreyfing er forsenda eðlilegs hreyfiþroska.

 

4.1.6 Námsmat í tengslum við skyn- og hreyfiþroska

Námsmat fyrir skyn- og hreyfiþroksa er þýðingarmikið á fyrstu árum grunnskólans. Stefnt skal að því að öll börn sem hefja nám í grunnskóla verði hreyfiþroskaprófuð. Slíkt hefur færst í vöxt á undanförnum árum og nauðsynlegt að festa þennan þátt í sessi í íþróttakennslunni. Til þess að geta unnið markvissa áætlun um hreyfinámið er greining á stöðu barna við upphaf grunnskólanáms mikilvæg. Þá er nauðsynlegt er að meta stöðu nemenda út frá eigin framförum og getu hverju sinni. Námsmat í tengslum við skyn- og hreyfiþroska tengist sérstaklega færniþáttum. Þá skal einnig stefnt að því að meta ákveðna færniþætti meðan á grunnskólanáminu stendur. Þessir færniþættir tengjast að mestu leikfimiæfingum og öðrum undirstöðuatriðum í áhalda- og gólffimleikum.

 
Þroskaþáttur  Dæmi um námsmat í grunnskóla 
 
Skyn og hreyfiþroski

Í grunnskóla skal stuðla að örvun grunnhreyfinga nemenda og þroskun taugakerfis. Þannig verði lagður grunnur að flóknara hreyfinámi. 

 • Hreyfiþroskapróf. 
 • Færnipróf í 
 • undirstöðuatriðum 
 • áhalda- og gólffimleika. 
 • Færnipróf í sundi. 
Hér að neðan er dæmi um námsmatsútfærslu í 1. til 4. bekk grunnskóla sem tengt er færnimarkmiðum úr leikfimiæfingum og undirstöðuatriðum í áhalda- og gólffimleikum.

Bekkir í grunnskóla: 1. - 4. bekkur

Þroskaþáttur : Líkamsþroski, skyn- og hreyfiþroski
Viðfangsefni: Leikfimiæfingar
Áhalda- og gólffimleikar
[ S ] Settu marki náð
[ F ] Framvinda góð
[ Þ ] Þarfnast frekari þjálfunar
 [   ] Kollhnís áfram
 [   ] Kollhnís aftur á bak
 [   ] Krabbastaða
 [   ] Froskastaða
 [   ] Höfuðstaða
 [   ] Handstaða 
 [   ] Handahlaup 
 [   ] Handstöðuvelta, armar bognir
 [   ] Handstöðuvelta, armar beinir
 [   ] Arabastökk
 
4.2 Líkamsþroski

Með líkamsþroska er átt við starfræna möguleika líkamans svo sem þol, hraða, kraft og liðleika. Á grunnskólaaldri eiga miklar líffræðilegar breytingar sér stað hjá nemendum. Á þessu aldursskeiði leggja nemendur grunninn að líkamlegu atgervi sínu. Framvinda eðlilegs líkamsþroska er að miklu leyti háð hæfilegri áreynslu og fjölbreyttu hreyfinámi.

4.2.1 Markmið

Stuðla ber að alhliða líkamsþroska nemenda, s.s. þols, krafts, hraða og liðleika. Stefnt er að því að bæta almennt líkamsástand grunnskólabarna meðan þau stunda nám.

4.2.2 Nánari útfærsla og dæmi um kennslufræðilega nálgun

Þol

Þol er sú geta líkamans að framkvæma hreyfingar í langan tíma með sömu afköstum. Þá má einnig skilgreina þol sem viðnámsþrótt líkamans gegn þreytu. Þol ákvarðast einkum af starfshæfni hjarta og blóðrásar, taugakerfis og efnaskiptum svo og samhæfingu líffæra og líffærakerfa. Þoli er skipt í loftháð og loftfirrt þol. Loftháð þol er hæfni líkamans til þess að vinna með nokkurri ákefð í lengri tíma, með loftháðum orkuferlum vöðva þ.e súrefni, O2. Loftfirrt þol er aftur hæfni líkamans til þess að vinna með mikilli ákefð í frekar stuttan tíma með hjálp frá loftfirrtum orkuferlum vöðvanna, án súrefnis, O2.

Rannsóknir (Ingjer 1991, Sjödin 1982, Eriksson 1972, o.fl.) hafa sýnt að þolþjálfun hjá börnum frá átta ára aldri hefur mjög góð áhrif á hámarkssúrefnisupptöku og getur aukið hana um allt að 60%. Á unglingsárunum er þolþjálfunin sérlega hentug og árangursrík þar sem hjarta- og æðakerfi tekur út endanlegan þroska og öll líffræðileg aðlögun verður meira eða minna varanleg.

Loftfirrt þjálfun ætti ekki að eiga sér stað hjá börnum undir kynþroskaaldri nema í mjög litlu mæli. Ein af ástæðunum er sú að í þjálfun með svo miklu álagi þykkna veggir hjartans án þess þó að innri stærð hjartans aukist. Þetta leiðir af sér minna slagrými, en slagmagn er það magn blóðs sem hjartað dælir í einu slagi. Þetta hefur svo aftur neikvæð áhrif á loftháða þolið. Önnur ástæða er að of erfiðar æfingar geta hæglega svipt ungan íþróttamann ánægjunni af að stunda íþróttir.

Börn hafa lægri loftfirrtan þröskuld (um 3mmol/ltr) en fullorðnir (um 4mmol/ltr). Fyrir kynþroskaaldur eru efnaskipti líkamans vanbúin til þess að brjóta niður mjólkursýru, vegna þess að ensím til þeirra starfa vantar í líkamann. Börn vantar einnig ensím sem brjóta niður kolvetni í loftfirrtum orkuferlum og eiga þar af leiðandi mun erfiðara með að nýta orkuna þegar ákefðin er orðin mikil.

Leiki er upplagt að nota við þjálfun þessa þáttar, sérstaklega yngri barna, vegna þess hve álagið í þeim er breytilegt. Sem dæmi má nefna eltingaleiki eins og Stórfiskaleik. Lengri hlaup, hjólreiðar og göngu er heppilegt að nýta á eldri stigum grunnskólans.

 

Kraftur

Vöðvakraftur er hæfni vöðva til þess að mynda spennu og skapa kraft. Vinnu vöðva má skipta í hreyfikraft (mekanisk) og kyrrstöðukraft (isometrisk/statisk). Þeim má aftur skipta í kraftþol, hraðakraft (snerpu) og hámarkskraft.

Hreyfingu vöðva má skipta í tvo hluta, annars vegar styttingu (konsentrisk) og lengingu (eksentrisk). Vöðvinn getur skapað kraft þegar hann styttist, við lengingu og í kyrrstöðu. Markmiðið með styttingu vöðva er að fá hröðun á líkamann eða líkamshluta, en lenging vöðvans virkar sem hindrun á hreyfinguna. Í kyrrstöðukrafti verður engin breyting á lengd vöðva þrátt fyrir að hann skapi kraft.

Vöðvakraftur eykst með aldrinum, en meira hjá börnum sem stunda kraftþjálfun reglulega. Mikilvægt er að byggja upp vöðvakraft barna og unglinga, m.a. til að styrkja stoðkerfi líkamans, bæta líkamsstöðu og vinna með rétta líkamsbeitingu.

Vanda þarf æfingaval og miða það við aldur og getu nemenda. Nota skal eigin líkamsþunga við þjálfun, en auk þess má nýta sér önnur hentug áhöld, s.s. þungan bolta, létt handlóð og teygjur. Í íþróttakennslu má beita ýmsum aðferðum við þjálfun krafts. Valið miðast við kraftþáttinn sem þjálfa á hverju sinni. Hringþjálfun er dæmi um heppilegt þjálfunarform til aukningar á vöðvakrafti.

 

Liðleiki

Liðleiki er sú líkamlega geta að framkvæma hreyfingar með mikilli hreyfivídd. Vídd hreyfinga er því mælikvarði á liðleika og má mæla hana í gráðum eða sentimetrum. Liðleiki ákvarðast af gerð liðamóta, sina, húðar og liðbanda, en yfirleitt eru það vöðvarnir umhverfis liðinn sem takmarka hreyfinguna. Bandvefurinn í vöðvunum hefur þá tilhneigingu að styttast, þess vegna eru teygjuæfingar nauðsynlegar. Aðrir þættir sem geta haft áhrif á liðleikann eru liðbanda- og vöðvameiðsli, kalkmyndun, brunasár og offita.

Hjá börnum er liðleiki yfirleitt mjög mikill, en ef honum er ekki haldið við, eru þau fljót að stirðna. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að vefir barna innihalda hærra vatnsmagn en vefir fullorðinna. Þess vegna eru börn liðugrri en fullorðnir. Lítill liðleiki getur haft áhrif á ýmsa þætti, s.s. á styrk, hraða og samhæfingu. Þá getur hann haft neikvæð áhrif á hreyfifærni og aukið hættu á meiðslum. Of mikill liðleiki getur að sama skapi valdið því að stöðugleiki liða minnkar. Besta vörn liða er góður vöðvakraftur, því ætti kraft- og liðleikaþjálfun að haldast í hendur.

Til er fjöldi teygjuæfinga, en mikilvægt er að kennari útskýri fyrir nemendum tilgang æfinganna og leiðbeini um framkvæmd þeirra.

 

Hraði

Hraði er hæfni vöðvan til að skapa sem mesta hröðun (hraðabreyting á tíma (m/s2) á sem skemmstum tíma. Með hröðun er annaðhvort átt við hröðun líkamans eða hröðun áhalds. Skipta má hraða í viðbragð, hröðun og hámarkshraða.

Í íþróttakennslunni er viðbragðið eflt með ýmsum smáleikjum, boðhlaupum og viðbragðsæfingum. Hröðunaræfingar bæta fráspyrnu, auka skreflengd og stytta snertitíma fóta við jörðu. Þegar unnið er með hraðaþáttinn þarf að gæta þess að vegalengdir séu stuttar og að hvíldir (virkar hvíldir) á milli endurtekninga séu langar.

 

4.2.3 Námsmat í tengslum við líkamsþroska

Námsmat í tengslum við líkamsþroska hefur mikla þýðingu m.t.t. þeirra markmiða sem stefnt er að í kennslunni. Nauðsynlegt er að kanna líkamshreysti nemenda, sér í lagi þrekþætti eins og þol, kraft og hraða. Þetta er m.a. gert með það að markmiði að hægt sé að bera niðurstöður saman við þær rannsóknir sem þegar eru til, taka þátt í stöðluðum prófum á líkamshreysti Evrópuráðsins og meta kennslu milli einstakra ára.
Þroskaþáttur  Dæmi um námsmat í grunnskóla 
 
Líkamsþroski 

Stuðla að alhliða líkamsþroska nemenda, s.s. þoli, krafti, hraða og liðleika. Stefnt er að því að bæta almennt líkamsástand barna og unglinga meðan á grunnskólanámi stendur. 

 • Þolpróf. 
 • Kraftpróf. 
 • - Langstökk án atrennu. 
 • - Uppstökk án atrennu. 
 • Liðleikapróf. 
 • Hraðapróf. 
 • - 30 m hlaup. 
 • - 60 m hlaup. 

4.3 Félags- og siðgæðisþroski

Með félagsþorska er átt við hæfni einstaklings til að taka þátt í félagslegum athöfnum og samskiptum við annað fólk. Félagsþroski mótast m.a. á eftirfarandi hátt:

4.3.1 Markmið

Stefnt skal að því að efla nemandann sem félagsveru og kenna honum að taka tillit til annarra. Þá skulu nemendur læra að virða félaga sína og beita sveigjanleika í samskiptumog stefnt að því að auka skilning og hæfni nemenda til þess að fara eftir reglum og fyrirmælum.

 

4.3.2 Nánari útfærsla og dæmi um kennslufræðilega nálgun

Félagsmótun gerist þar sem samskipti eiga sér stað, s.s. á heimili, í skóla, í frítíma og í vinnu. Færni í félagslegum samskiptum er talin einn af mikilvægustu kostum einstaklings í námi og starfi. Á þennan þátt þarf að leggja mikla áhersla í nútíma þjóðfélagi.

Samskiptin byggjast fyrst og fremst á munnlegri eða skriflegri tjáningu. Því er mikilvægt að hver einstaklingur efli með sér hæfileika til að tjá sig skilmerkilega. Virk hlustun er ekki síður mikilvæg svo tjáskipti verði eðlileg.

Nemendur búa við mismunandi aðstæður og mótast á ólíkan hátt félagslega. Þetta gerir það að verkum að reynsla, uppeldi og undirbúningur þeirra er mismikill þegar þau hefja skólagöngu. Taka þarf tillit til þessara atriða í íþróttakennslu.

 

Félagsleg þroskaeinkenni yngsta stigs

Við upphaf skólagögnu verða ákveðin tímamót í lífi barna. Þá bætast við fleiri aðilar sem barnið þarf að hafa samskipti við, bæði fullorðnir og önnur börn. Í skóla kynnast þau meiri fjölbreytileika í framkomu og hegðun og mismunandi viðbrögðum fullorðinna. Þetta er ný og mikilvæg reynsla fyrir nemendur og því skiptir framkoma og viðhorf hinna fullorðnu miklu máli.

Einstaklingurinn er félagsvera og skynjar sig þannig í kringum 5 ára aldur. Frá þeim aldri verður hópkendin sterkari og börn byrja að nota hugtök eins og við og okkur í samskiptum sínum. Barnið vill vera í hópi, það vill vita hvað er rétt og rangt bæði í samskiptum og í leik. Leikir grundvallast yfirleitt á ákveðnum reglum. Því skal leikurinn vera einn af helstu viðfangsefnum í kennslu yngri barna.

Nemendur á fyrstu skólaárum eru oft sjálfsmiðaðir, en með auknum aldri og félagsþroska byrja þeir að geta sett sig í spor annarra, sjá hluti frá öðrum sjónarhóli og innlifunarhæfni þeirra eykst. Þeir fara að geta dregið ályktanir og séð betur orsök og afleiðingu. Samvinnuþáttinn á að rækta á þessum árum og til að ná því markmiði eru leikir vel fallnir.

 

Þroskaeinkenni miðstigs

Sjálfsmynd barna um 10 ára aldur fer að skýrast, ytri mörk sem sett hafa verið af foreldrum, kennurum og öðrum fullorðnum fara nú að umbreytast í innri mörk. Siðferðismat styrkist á þessum aldri. Í kringum 12 ára aldur geta börn farið að ræða á óhlutbundin hátt um ýmsa hluti og efnistök, hugsa upp aðstæður og gera sér grein fyrir afleiðingum. Rökhugsun þroskast.

 

Unglingsár

Miklar líkamlegar-, andlegar- og félagslegar þroskabreytingar verða á þessum aldri. Persónuleiki og skapgerðareinkenni ráðast m.a. af líffræðilegum erfðum, en samspil einstaklings við umhverfi sitt getur haft þar veruleg áhrif.

Ör líkamsvöxtur verður á þessum tíma, foreldratengsl breytast og samskipti við félaga taka á sig annað form. Tímabilið einkennist af því að unglingurinn fer að setja spurningamerki við flesta þætti, þar á meðal allt það sem snýr að foreldrum, skoðunum þeirra og framkomu. Geðsveiflur gera einnig vart við sig og óróleiki og eirðarleysi. Ekki er óalgengt að unglingurinn verði afundinn og loki sig af og festist í eigin hugarheimi. Margir unglingar fara samt í gegnum unglingsárin á rólegan og átakalítinn hátt. Þeir njóta sín oft vel á þessum tíma.

Unglingar 13 -15 ára hafa þróað rökhugsun betur og geta velt fyrir sér ýmsum hlutum frá mörgum hliðum og komið fram með tilgátur. Félagahópurinn er mikilvægur og félagar eru með í því að móta skoðanir hvers annars, sem m.a. hefur áhrif á gildismat og viðhorf til ýmissa mála. Með því að bera sig saman við aðra og fá viðbrögð við framkomu sinni móta þau sjálfsmynd sína og hæfni í félagslegum samskiptum.

 

Kennslufræðileg nálgun

Í skólaíþróttum gefst gott tækifæri til þess að hafa áhrif á félags- og siðgæðisþroska nemenda og einnig tilfinningar þeirra, viðhorf og gildismat.

Mikilvægt er í íþróttakennslunni að gera nemendum grein fyrir mismunandi þroska og getu einstaklinga og að hver og einn verði virtur út frá eigin verðleikum. Þetta þarf að gera á öllum sviðum skólastarfs, en er tilvalið í íþróttakennslunni þar sem eitt af einkennum íþrótta er samanburður milli einstaklinga. Þar má bæði draga fram einkenni íþróttagreina og keppni, hvað þurfi til þess að ná árangri o.fl. Einnig má benda á íþróttir og leiki þar sem samstarf er lykilatriði og hvernig hægt er að stunda líkams- og heilsurækt þar sem ekki þarf að koma til samanburður milli einstaklinga.

Öll þjóðfélög stýrast af lögum og reglum. Sama gildir um íþróttir og leiki þótt í smækkaðri mynd sé. Umræða um tilgang og nauðsyn reglna og þjálfun í að fara eftir þeim á að vera hluti af íþróttakennslunni. Á þann hátt öðlast nemendur skilning á þessum þáttum í vernduðu umhverfi og í athöfnum sem þeir skilja. Það á að auðvelda yfirfærslu þeirra í víðara samhengi.

 

Viðfangsefni

Varðandi þjálfun félagslegra samskipta er mikilvægt að nemendur fái tækifæri til þess að leysa sjálfir úr vandamálum sem upp koma, t.d. við ágreining. Ýmis önnur dæmi má nefna: Hver á að byrja í boðhlaupi? Hvar hver á að sitja? Hver gerði hvað? Mikilvægt er að kennari grípi ekki of fljótt inn í, en verði þó stýrandi aðili og nýti aðstæður til lærdóms fyrir nemendur. Mikilvægt er að bæta hæfni nemenda til samstarfs við aðra og skapa aðstæður þar sem reynir á tillitsemi og hjálpsemi. Virkni nemenda er lykilatriði í þessu samhengi.

 

4.3.3 Námsmat í tengslum við félags- og siðgæðisþroska

Námsmat félags- og siðgæðisþroska verður m.a. að byggjast á huglægu mati kennarans á félagsstöðu nemenda, viðhorfum þeirra og líðan. Einnig skal gefa nemendum tækifæri á að meta eigin líðan og upplifun.
Þroskaþáttur  Dæmi um námsmat í grunnskóla 
 
Félags- og siðgæðisþroski

Efla nemandann sem félagsveru, kenna honum að taka tillit til félaga sinna, vera sveigjanlegur í samskiptum og virða einstaklinginn. Ennfremur er stefnt að því að auka skilning og hæfni nemenda til þess að fara eftir reglum og fyrirmælum. 

 • Mat kennara á samvinnu, félagsstöðu og samskiptum nemenda. 
 
Við námsmat þessara þátta, væri hægt að útbúa einfalt eyðublað sem nemendur fylltu út einu sinni eða tvisvar yfir skólaárið. Spurningar og svarmöguleikar gætu verið á þessa leið:

 

1. Hvernig líður þér í skólanum?

Svar: 
[   ] mjög vel
[   ] vel
[   ] hvorki vel né illa
[   ] illa
[   ] mjög illa
 
2. Hvernig líður þér í íþróttatímum?
Svar: 
[   ] mjög vel
[   ] vel
[   ] hvorki vel né illa
[   ] illa
[   ] mjög illa
 
3. Hvernig finnast þér skólaíþróttir?
Svar: 
[   ] mjög vel
[   ] vel
[   ] hvorki vel né illa
[   ] illa
[   ] mjög illa
 
4. Hve mikilvægar finnast þér skólaíþróttir vera?
Svar: 
[   ] mjög mikilvægar
[   ] mikilvægar
[   ] skiptia litlu máli
[   ] ekki mikilvægar
[   ] skipta engu máli
 
5. Hve mikilvægar finnast þér skólaíþróttir vera sem fag samanborið við önnur fög?
Svar: 
[   ] mikilvægari
[   ] jafn mikilvægar
[   ] minna mikilvægar
 
6. Hvaða líkur eru á því að þú stundir íþróttir eða líkams- og heilsurækt þegar þú hefur lokið grunnskólanámi?
Svar:
[   ] mjög miklar
[   ] miklar
[   ] hvorki miklar né litlar
[   ] litlar
[   ] engar
 
7. Hvernig finnst þér þú vera liðin(n), meðtekin(n), af öðrum í bekknum?
Svar: 
[   ] mjög vel
[   ] fremur vel
[   ] hvorki vel né illa
[   ] fremur illa
[   ] mjög illa
 
4.4 Tilfinningaþroski

Tilfinningar eru hugarástand sem mótast af upplifun á þörfum og löngunum einstaklings í umhverfi og samskiptum við aðra. Tilfinningar segja til um hvernig okkur líður, hvernig við höfum það. Þær tengjast gerðum okkar og eru mikilvægur mótunarþáttur sjálfsmyndar og þar með mótun persónuleikans. Einstaklingur þroskast með því að geta látið í ljós tilfinningar sínar og jafnframt haft stjórn á þeim. Viðhorf til ýmissa þátta mótast einnig af upplifun. Þó að eitt ákveðið tilfinningaástand vari ekki lengi getur það haft mótandi áhrif á viðhorf, ef sama ástand endurtekur sig aftur og aftur við svipaðar aðstæður.

Tilfinningatengsl mótast að stórum hluta í bernsku gegnum samskipti barns við foreldra og nánustu aðstandendur. Tilfinningar eins og gleði, ást, sorg, reiði, hræðsla og kvíði bærast í brjósti hvers einstaklings. Slíkum tilfinningum þarf að vera hægt að veita útrás. Það auðveldar barninu að þekkja sjálft sig, skilja viðbrögð annarra og bregðast við á eðlilegan hátt.

 

4.4.1 Markmið

Stefnt skal að því að auka innsæi nemenda í tilfinningar sínar og tilfinningar annarra. Einnig skal efla hæfileika nemenda til þess að bregðast við tilfinningalegum áreitum á eðlilegan hátt. Stuðla skal jafnframt að ánægjulegri upplifun af hreyfingu og íþróttum, sem mótað geta viðhorf nemenda í framtíðinni.

 

4.4.2 Nánari útfærsla og dæmi um kennslufræðilega nálgun

Í íþróttakennslunni getur skapast kjörinn vettvangur til þess að auka innsæi og innlifun nemenda í hugarástand hvers annars. Eðli sumra þátta í íþróttakennslunni er þannig að það reynir á skapstyrk einstaklings, s.s. einbeitingu, áræðni og viljastyrk. Oft brjótast fram tilfinningar eins og hræðsla, reiði, gleði og öfund. Eðlilegt er að sýna þannig viðbrögð í íþróttatímum. Þegar nemanda hitnar í hamsi getur einbeiting og viljastyrkur hans aukist og þar með afkastagetan. Mikilvægt er hins vegar að skapa þannig aðstæður að nemendur kynnist undir vernduðum kringumstæðum tilfinningum sínum og viðbrögðum annarra við þeim. Ef vel er að staðið geta slíkar aðstæður stuðlað að þroska nemenda. Hér reynir því mikið á þekkingu og hæfni kennarans.

Kennslufræðileg nálgun þarf að miðast við aldur og þroska nemenda. Í fyrstu bekkjum grunnskóla er kjörið að nota leikinn sem útgangspunkt til lærdóms. Reglur leiksins og óbeislaðar tilfinningar nemenda storka oft siðgæðisvitundinni, en geta þroskað hana og eflt ef rétt er á málum haldið. Þess vegna er mikilvægt að kennari setji orð á þær tilfinningar sem nemendur sýna og útskýri þær. Þannig eykst skilningur á því sem gerðist og reynsla þeirra nýtist þeim bæði persónulega og félagslega.

Á efri stigum grunnskóla og í framhaldsskóla má nýta atvik sem upp koma í íþróttakennslunni til markvissrar umræðu. Tenging við samfélagsgreinar er mikilvæg, þar sem taka má fyrir tengsl tilfinninga og hegðunar við reglur, gildismat og viðmið samfélagsins. Slík umræða getur aukið skilning, víðsýni og umburðarlyndi nemenda.

 

4.4.3 Námsmat í tengslum við tilfinningaþroska

Námsmat tilfinningaþroska verður m.a. að byggjast á huglægu mati kennarans á félagsstöðu nemenda, viðhorfum þeirra og líðan. Einnig skal gefa nemendum tækifæri á að meta eigin líðan og upplifun.
Þroskaþáttur  Dæmi um námsmat í grunnskóla 
 
Tilfinningaþroski 

Stefnt skal að því að auka innsæi nemenda í tilfinningar sínar og tilfinningar annarra. Einnig skal efla hæfileika nemenda til þess að bregðast við tilfinningalegu áreiti á eðlilegan hátt. Jafnframt skal stuðla að ánægjulegri upplifun skólaíþrótta, sem mótað getur viðhorf nemenda til þessara þátta í framtíðinni. 

 
 • Mat kennara á líðan og viðhorfi nemenda. 
 • Mat nemenda á eigin líðan, viðhorfi og upplifn 
 • kennslunnar. 
Námsmat þessa þáttar getur farið fram á svipaðan hátt og námsmat félags- og siðgæðisþroska.

 

4.5 Vitsmunaþroski

Vitsmunaþroski er ferli sem eflir rökhugsun og íhygli (hugleiðing /umhugsun) einstaklings. Viðfangsefni skólaíþrótta tengt vitsmunaþroska er bundið við eflingu málþroska og rökhugsunar.

 

4.5.1 Markmið

Stefnt skal að því að auka þekkingu og skilning nemenda á starfsemi líkamans og áhrifum skipulagðar þjálfunar og aðstoða nemendur við að finna sér leiðir til heilsuræktar við hæfi, bæði meðan á námi stendur og að því loknu. Þá skal stefnt að því að nemendur þjálfist í notkun máls sem tjáningamiðils og tileinki sér orðaforða, málfar og hugtök er tengjast íþróttum.

 

4.5.2 Nánari útfærsla og dæmi um kennslufræðilega nálgun

Málþroski

Mál er það tæki hugans sem gefur okkur vald til að tjá hugsanir okkar. Málið og málfarslegt uppeldi, lýtur meðal annars að því að koma skipan og heildarmynd á reynslu, athafnir og hugsanir. Móðurmálið gegnir því veigamiklu hlutverki í allri menntun, lífi og starfi hvers einstaklings. Tungumál er lykill nemenda að þekkingu og helsta tæki þeirra til að láta í ljós skilning, tilfinningar og skoðanir. Gott vald á móðurmálinu er því ein helsta forsenda þess að nemendur geti lært.

Nauðsynlegt er að nemendur öðlist grunnfærni í þeim þáttum móðurmálsins sem tengjast skólaíþróttum. Þjálfa þarf nemendur markvisst í framburði máls og ritun, þar sem efnistök eru úr heimi íþrótta og leikja. Með því að fræða barnið um þann orðaforða og þau hugtök sem tengjast skólaíþróttum, er m.a. unnið að því að gera útskýringar og leiðsögn kennara árangursríkari og markvissari.

 

Málskilningur

Í skólaíþróttum er unnið með margvísleg hugtök og orðaforða er tengjast hreyfingu. Má þar nefna:
- Afstöðuhugtök eins og yfir, undir, uppi, niðri, vinstri, hægri....
- Magnhugtök eins og stærri, minni, fleiri , færri , fjöldi....
- Líkamsheiti eins og höfuð, herðar, hné, tær, magi, ökkli....
- Heiti hreyfinga eins og hoppa, skríða, velta, kollhnís, kasta ....
- Orðaforði íþróttagreina eins og innkast, markspyrna, markskot, sprettur ....
Heilbrigðisvitund

Lífsstíll sem tekur til hreinlætis, mataræðis, öryggismála, svefnvenja og heilbrigðrar hreyfingar hefur djúp áhrif á líðan einstaklinga og er allrar athygli verður. Lykill að bættri heilsu og vellíðan getur verið falinn í ofangreindum þáttum. Forsenda þess er fræðsla, umfjöllun og kannanir um lífsstíl. Heilbrigðari lífsstíll eykur afköst og starfshæfni nemenda jafnt í skólaíþróttum sem og annars staðar í skólasamfélaginu.

 

Heilbrigðar matarvenjur og fæðuval

Í könnun á mataræði nemenda sem manneldisráð Íslands gekkst fyrir veturinn 1992-1993 kom fram að ýmislegt mætti betur fara í mataræði barna og unglinga. Mikilvægt er að tengja fræðslu um matarvenjur og matarneyslu við orkubúskap og starfsemi líkamans. Mikil sykurneysla og næringarlítið fæðuval er útbreitt og því nauðsynlegt er að breyta fæðuvali á þann hátt að næringargildi þess aukist.

Skráning og úrvinnsla fæðisdagbókar getur gefið haldgóðar upplýsingar um hvað borðað er og hvað fæðan inniheldur. Nauðsynlegt er að nemendur, kennarar og foreldrar séu meðvitaðir um mikilvægi þess að næg orka sé til staðar allan skóladaginn. Umfjöllun um offitu og megrun tengjast þessum þætti.

 

Svefn- og hvíldarþörf

Talið er að svefnþörf barna um tíu ára aldur sé um 10 stundir á sólarhring. Með svefni og hvíld losum við okkur við þau niðurbrotsefni sem safnast hafa fyrir yfir daginn. Ýmis líffæri og taugakerfið hvílast og endurhæfa sig. Slökun og líkamsvitund eru þættir er tengjast hvíld. Leiðsögn og þjálfun í þeim þáttum geta hjálpað ef um svefnvandamál er að ræða.

 

Hreinlæti og fatnaður

Góð umhirða líkamans er nauðsynleg í tengslum við skólaíþróttir. Böð og hreinlæti ber að innleiða hjá nemendum strax við upphaf skólagöngu. Fatnað ber að hafa við hæfi, innan dyra sem utan. Fræðsla og leiðbeiningar um þessa þætti er nauðsynleg.

 

Mikilvægi og áhrif hreyfingar á líkama og sál

Þó að íþróttum fylgi álag og erfiði á að vera gaman að hreyfa sig. Hreyfing leiðir af sér andlega og líkamlega vellíðan ef rétt er að henni staðið. Með þjálfun öðlast fólk betri stjórn á líkamanum og getur framkvæmt flóknari og erfiðari athafnir. Hætta á hjarta og æðasjúkdómum minnkar og mótstaða gegn sjúkdómum eykst. Nauðsynlegt er að fjalla um þessi atriði með nemendum og undirstrika mikilvægi þeirra við mótun heilbrigðra lífshátta. Hreyfing, íþróttir og útivera getur einnig haft félagslegt gildi þar sem tækifæri gefst til að umgangast annað fólk.

 

Öryggisfræðsla

Í skólaíþróttum þar sem nemendur eru á hreyfingu og fást við ýmis áhöld, liggja víða hættur. Mikilvægt er að hver kennslustund sé skipulögð þannig að öryggi nemenda sé tryggt. Nemendur þurfa að tileinka sér umgengnis- og öryggisreglur við leiki og æfingar. Einnig má nefna öryggisreglur í fvettvangsferðum og öðrum ferðum sem farnar eru á vegum skólans.

 

4.5.3 Námsmat í tengslum við vitsmunaþroska

Námsmat þarf að tengjast markmiðum um almenna þekkingu á líkams- og heilsurækt. Þessi þáttur í matinu er mestur á framhaldsskólastigi, en þó er nauðsynlegt að auka hann í grunnskóla, sérstaklega á unglingastigi.
Þroskaþáttur  Dæmi um námsmat í grunnskóla 
 
Vitsmunaþroski 

Stefnt skal að því að auka þekkingu og skilning nemenda á starfsemi líkamans, helstu leiðum til þjálfunar líkamans og heilbrigðum lífsstíl. Vinna skal að því að nemendur finni sér leiðir við hæfi til heilsuræktar, bæði meðan á námi stendur og að því loknu. 

 
 • Skriflegt próf úr fræðilegu efni. 
 • Verkefni sem nemendur vinna í tengslum við kennslu og metin eru sem hluti námsmats í greininni. 
4.6 Fagurþroski

Líta þarf á íþróttir og hreyfingu í víðum skilningi sem list og listsköpun. Æfingar eins og dans, skautahlaup, fimleikar og leikræn tjáning eru viðfangsefni þar sem fagurþroski gegnir veigamiklu hlutverki. Vinna með þennan þroskaþátt veitir nemendum ákveðna lífsfyllingu sem er sambærileg við það sem gerist í öðrum listgreinum eins og tónlist, myndlist og leiklist. Því ber að líta á íþróttir og hreyfingu sem hluta af menningarhugtakinu og sinna kennslunni í samræmi við það.

 

4.6.1 Markmið

Stefnt skal að því að efla hugmyndaflug nemenda, sköpunarmátt þeirra og tjáningu með fjölbreyttu hreyfinámi. Hvetja skal nemendur til þess að veita tilfinningum sínum útrás með því að nota líkama sinn, rými, blæbrigði, afstöðu og tengsl við aðra til tjáningar.

 

4.6.2 Nánari útfærsla og dæmi um kennslufræðilega nálgun

Í öllum börnum býr hæfileiki til sköpunar sem þarf að fá útrás. Í handriti Mínervu Jónsdóttur, Skapandi hreyfing og dans (1997), segir hún eftirfarandi um kennslu og uppbyggingu kennslustundar:

³Öllum börnum er nauðsynlegt að fá næg tækifæri til að tjá sig, m.a. í hreyfingu. Barnið kannar hvaða hreyfimöguleika líkaminn hefur og uppgötvar þannig hreyfingar á eigin spýtur. Á sama hátt kannar barnið styrk, rými, tíma og flæði hreyfinga. Það fer eftir reynslu barnanna hve mikla hvatningu þau fá og hvernig gengur að þroska þennan hæfileika. Barnið fæst bæði við tilfinningar og hugmyndir þegar það skapar. Börnin læra sköpun gegnum skynjun hreyfinga."
Nemendur þurfa að fá útrás fyrir sköpunarþörf sína með fjölbreyttum viðfangsefnum. Viðfangsefnin geta t.d verið, hreyfinám og leikræn tjáning með eða án tónlistar. Þá má nálgast þennan þátt með eða án áhalda. Eftirfarandi dæmi er úr fyrrnefndu handriti Mínervu:
³Þegar ég segi byrja, þá farið þið á nýjan stað. Þegar þið heyrið í trommunni, ³frjósið" þið. Ágætt. Í þetta skipti þegar þið heyrið í trommunni, þá ³frjósið" þið, snúið snöggt við og flýtið ykkur á nýjan stað."
 

4.6.3 Námsmat í tengslum við fagurþroska

Til að meta megi markmið fagurþroska má nefna matsleiðir sem tengjast túlkun hreyfinga, færni- og þekkingarpróf. Matið getur snúið að listsköpun þar sem hreyfingar eru framkvæmdar í takt við tónlist.
Þroskaþáttur  Dæmi um námsmat í grunnskóla 
 
Fagurþroski

Stefnt skal að því að efla hugmyndaflug nemenda, sköpunarmátt þeirra og tjáningu með fjölbreyttu hreyfinámi. Hvetja skal nemendur til þess að veita tilfinningum sínum útrás með því að nota líkama sinn, rými, blæbrigði, afstöðu og tengsl við aðra. 

 
 • Mat á túlkun og útfærslu hreyfinga. 
 • Þekkingarpróf. 
 

Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða 

Höfundarréttur 1998 Menntamálaráðuneytið.