Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða 
5. Framhaldsskólinn

 

í framhaldsskólakennslunni verður gengið út frá sömu nálgun við þroskaþætti og fram kemur í 4. kafla um grunnskólann. Forgangsröðun markmiða er þó önnur, þar sem þungi markmiða í tengslum við vistmunaþroska er mestur. Þessi nálgun leiðir ekki af sér miklar breytingar á íþróttakennslu framhaldsskóla. Markviss vinna við mótun innihalds náms og kennslu hefur farið fram á undanförnum árum og eru kennarar og forvinnuhópur skólaíþrótta sáttir við þau markmið sem nú er unnið eftir. Þó er það áhyggjuefni að nokkrir skólar hafa setið eftir og ekki fylgt þeim kröfum og markmiðum sem núverandi námskrá gerir. Það orsakast m.a. af þeim tíma sem greinin hefur, aðstöðu og hefðum sem ríkt hafa í langan tíma í viðkomandi skólum.

Erfitt getur verið að vinna með þroskaþættina á afmarkaðan hátt í kennslunni, þó svo að gerð sé sérstök grein fyrir þeim á þann hátt hér í skýrslunni. Á nær öllum sviðum skarast þessir þættir.

 

5.1 Vitsmunaþroski

Vitsmunaþroski er ferli sem eflir rökhugsun og íhygli (hugleiðing /umhugsun) einstaklings. Viðfangsefni skólaíþrótta tengt vitsmunaþroska er bundið við eflingu málþroska og rökhugsunar.

 

5.1.1 Markmið

Stefna ber að því að auka þekkingu og skilning nemenda á starfsemi líkamans og áhrifum skipulagðrar þjálfunar og aðstoða nemendur við að finna sér leiðir til heilsuræktar við hæfi, bæði meðan á námi stendur og að því loknu. Þá skal stefnt að því að unglingar þjálfist í notkun máls sem tjáningamiðils og tileinki sér orðaforða, málfar og hugtök er tengjast íþróttum.

 

5.1.2 Nánari útfærsla og dæmi um kennslufræðilega nálgun

Málþroski og málskilningur

Sjá nánar um markmið grunnskóla í kafla 4.5 hér að framan.

 

Heilbrigðisvitund

Lífsstíll sem tekur til hreinlætis, mataræðis, öryggismála, svefnvenja og heilbrigðrar hreyfingar hefur djúp áhrif á líðan einstaklinga og er allrar athygli verður. Lykill að bættri heilsu og vellíðan getur verið falinn í ofangreindum þáttum. Forsenda þess er fræðsla, umfjöllun og kannanir um lífsstíl. Heilbrigðari lífsstíll eykur afköst og starfshæfni nemenda jafnt í skólaíþróttum sem og annars staðar í skólasamfélaginu.

 

Heilbrigðar matarvenjur og fæðuval

Í könnun á mataræði nemenda sem manneldisráð Íslands gekkst fyrir veturinn 1992-1993 kom fram að ýmislegt mætti betur fara í mataræði barna og unglinga. Mikilvægt er að tengja fræðslu um matarvenjur og matarneyslu við orkubúskap og starfsemi líkamans. Mikil sykurneysla og næringarlítið fæðuval er útbreitt og því nauðsynlegt er að breyta fæðuvali á þann hátt að næringargildi þess aukist.

Skráning og úrvinnsla fæðisdagbókar getur gefið haldgóðar upplýsingar um hvað borðað er og hvað fæðan inniheldur. Nauðsynlegt er að nemendur, kennarar og foreldrar séu meðvitaðir um mikilvægi þess að næg orka sé til staðar allan skóladaginn og ekki síst í skólaíþróttum þar sem næg orka er forsenda þess að markmið kennslunnar skili sér sem best. Þættir eins og offita og megrun eru einnig snertifletir í þessu samhengi.

 

Svefn- og hvíldarþörf

Talið er að svefnþörf unglinga sé um 8-9 stundir á sólarhring. Hver er tilgangurinn með svefni og góðri hvíld? Í svefni losum við okkur við þau niðurbrotsefni sem safnast hafa fyrir yfir daginn. Ýmis líffæri og taugakerfið hvílast og endurhæfa sig. Slökun og líkamsvitund eru þættir er tengjast hvíld. Þjálfun í þeim þáttum getur hjálpað ef um svefnvandamál er að ræða.

 

Hreinlæti og fatnaður

Góð umhirða líkamans er nauðsynleg í tengslum við skólaíþróttir. Böð og hreinlæti ber að innleiða hjá nemendum, strax við upphaf skólagöngu og veita þeim fræðslu og leiðbeiningar um þessa þætti. Fatnað ber að hafa við hæfi, innan sem utan dyra. Fræðsla um þá þætti er nauðsynleg.

 

Áhrif hreyfingar á líkama og sál

Hreyfing leiðir af sér andlega og líkamlega vellíðan ef rétt er að henni staðið. Með þjálfun og hreyfingu öðlast fólk betri stjórn á líkamanum og getur framkvæmt flóknari og erfiðari athafnir. Hætta á hjarta- og æðasjúkdómum minnkar og mótstaða gegn sjúkdómum eykst. Nauðsynlegt er að fjalla um þessi atriði og gera nemendum grein fyrir mikilvægi þeirra, svo þau geti mótað sinn lífsstíl. Hreyfing, íþróttir og útivera hefur einnig félagslegt gildi þar sem gefast tækifæri til að umgangast annað fólk.

 

Öryggisfræðsla

Í skólíþróttum þarf að huga vel að öllum öryggisatriðum. Nauðsynlegt er að nemendur tileinki sér þær reglur sem settar eru, en þær eru forsenda þess að kennslustundir gangi óhappalaust fyrir sig. Einnig má nefna öryggisreglur í vettvangsferðum og öðrum ferðum sem farnar eru á vegum skóla.

 

Lausn vandamála

Nauðsynlegt er að nemendur fái að glíma við verkefni við hæfi og takast á við vandamál sem snúa að námi í íþróttakennslu framhaldsskóla.

 

Kennslufræðileg nálgun

Skokkað er 2 - 5 km og í því samhengi er unnið út frá bóklegu námsefni. Nemendur þurfa að nýta þekkingu sína til þess að svara ýmsum spurningum sem tengdar eru þjálffræðilegum atriðum, s.s. upphitun, hjartslætti, þreytutilfinningu, slökun og líðan eftir hlaup.

 

5.1.3 Námsmat í tengslum við vitsmunaþroska

Námsmat þessa þáttar þarf að tengjast markmiðum um almenna þekkingu á líkams- og heilsurækt. Stuðla skal að aukinni þekkingu nemenda á líkamanum, þjálfun hans og hvernig líkaminn bregst við markvissri þjálfun og uppbyggingu.
Þroskaþáttur  Dæmi um námsmat í framhaldsskóla 
 
Vitsmunaþroski 

Stefnt skal að því að auka þekkingu og skilning nemenda á starfsemi líkamans, helstu leiðum til þjálfunar líkamans og heilbrigðum lífsstíl. Vinna skal að því að nemendur finni sér leiðir við hæfi til heilsuræktar, bæði meðan á námi stendur og að því loknu. 

 
 • Skriflegt próf úr fræðilegu efni sem farið er yfir. 
 • Verkefni sem nemendur vinna í tengslum við 
 • kennslu og eru metin sem hluti námsmats í 
 • greininni. 
Dæmi um fræðilegt próf er í Handbók íþróttakennarans" fyrir kennslubókina Þjálfun-Heilsa-Vellíðan (I&emdash;NÚ, 1991).

 

5.2 Líkamsþroski

Á framhaldsskólaaldri nálgast nemendur smátt og smátt það að verða fullþroska einstaklingar. Framvinda eðlilegs líkamsþroska er að miklu leyti háð hæfilegri áreynslu og fjölbreyttu hreyfinámi. Með líkamsþroska er átt við starfræna möguleika líkamans svo sem þol, hraða, kraft og liðleika. Nánari útskýring á þáttum líkamsþroska; þoli, krafti, hraða og liðleika er í kafla 4.2 hér að framan. Sjá einnig dæmi hér að neðan.

 

5.2.1 Markmið

Stuðla að og viðhalda alhliða líkamsþroska nemenda. Sérstök áhersla skal lögð á þol, kraft, hraða og liðleika. Stefnt er að því að bæta almennt líkamsástand framhaldsskólanema meðan á námi stendur.

 

5.2.2 Dæmi um kennslufræðilega nálgun

 

Þol

Við þolþjálfun er hægt að nota skokk, ratleiki og ýmsa knattleiki.

 

Kraftur

Við kraftþjálfun má nota eigin líkamsþyngd, ýmis tæki og aðstæður innan sem utan dyra.

 

Hraði

Við hraðaþjálfun er hægt að nota ýmsa leiki, svo sem eltingaleiki og knattleiki, en þar koma fyrir hraða- og stefnubreytingar.

 

Liðleiki

Viðhalda og jafnvel auka liðleika hjá nemendum með fjölbreyttum teygju- og mótunaræfingum svo sem hliðbeygjum, bolvindum og bolbeygjum.

 

5.2.3 Námsmat í tengslum við líkamsþroska

Námsmat í tengslum við líkamsþroska hefur mikla þýðingu m.t.t. þeirra markmiða sem stefnt er að í kennslunni. Nauðsynlegt er að kanna líkamshreysti nemenda, sér í lagi þol, kraft, hraða og liðleika. Þetta er m.a. gert til að hægt sé að bera niðurstöður saman við þær rannsóknir sem þegar eru fyrir hendi, taka þátt í stöðluðum prófum á líkamshreysti Evrópuráðsins og meta kennslu milli einstakra ára.
Þroskaþáttur  Dæmi um námsmat í framhaldsskóla 
 
Líkamsþroski 

Stuðla að alhliða líkamsþroska nemenda, s.s. þol, krafti, hraða og liðleika. Stefnt er að því að bæta almennt líkamsástand barna og unglinga meðan á framhaldsskólanámi stendur. 

 
 • Þolpróf. 
 • Kraftpróf. 
  • - Langstökk án atrennu. 
  • - Uppstökk án atrennu. 
 • Liðleikapróf. 
 • Hraðapróf. 
  • - 60 m hlaup. 
  • - 100 m hlaup. 
5.3 Félags- og siðgæðisþroski

Með félagsþroska er átt við hæfni einstaklings til að taka þátt í félagslegum athöfnum og samskiptum við annað flólk. Félagsþroski mótast m.a. á eftirfarandi hátt:

5.3.1 Markmið

Stefna skal að því að efla nemanda sem félagsveru, kenna honum að taka tillit til félaga sinna, vera sveigjanlegur í samskiptum og virða einstaklinginn. Ennfremur er stefnt að því að auka skilning og hæfni nemenda til þess að fara eftir reglum og fyrirskipunum.

 

5.3.2 Nánari útfærsla og dæmi um kennslufræðilega nálgun

Félagsmótun gerist þar sem samskipti eiga sér stað, s.s. á heimili, í skóla, í frítíma og í vinnu. Færni í félagslegum samskiptum er talin einn af mikilvægustu kostum einstaklings í námi og starfi. Á þennan þátt þarf að leggja mikla áhersla í nútíma samfélagi.

Samskiptin byggjast fyrst og fremst á munnlegri eða skriflegri tjáningu. Því er mikilvægt að hver einstaklingur efli með sér hæfileika til að tjá sig skilmerkilega. Virk hlustun er ekki síður mikilvæg svo tjáskipti verði eðlileg.

Nemendur búa við mismunandi aðstæður og mótast á ólíkan hátt félagslega. Þetta gerir það að verkum að reynsla, uppeldi og undirbúningur þeirra er mismikill þegar þeir hefja skólagöngu. Taka þarf tillit til þessara atriða í íþróttakennslu.

 

Unglings- og fullorðinsár

Unglingar á aldrinum 16 til 19/20 ára nálgast smátt og smátt það að verða fullþroska einstaklingar og félagsþroski þeirra að verða fullmótaður. Áherslur á þennan hátt eru þar af leiðandi aðrar en í grunnskólanámi. Hér á sjálfstæði og frumkvæði einstaklings að vera í fyrirrúmi. Þó er áfram mikilvægt í kennslunni að brýna fyrir nemendum mismunandi þroska og getu einstaklinga og að hver og einn verði áfram virtur út frá eigin verðleikum. Áfram skal stuðla að samkennd og samvinnu nemenda á flestum sviðum þar sem rík áhersla skal lögð á jákvæða upplifun.

 

Dæmi úr skólaíþróttum.

Virða skal leik- og samskiptareglur og hlíta úrskurði kennara eða dómara. Í íþróttagreinum eins og t.d. knattleikjum þarf að taka tillit til mismunandi getu og áhugasviðs einstaklinga þannig að allir fái verkefni við hæfi og verði virkir þátttakendur í leiknum.

 

5.3.3 Námsmat í tengslum við félags- og siðgæðisþroska

Námsmat félags- og siðgæðisþroska verður m.a. að byggjast á huglægu mati kennarans á félagsstöðu nemenda, viðhorfum þeirra og líðan. Einnig skal gefa nemendum tækifæri á að meta eigin líðan og upplifun.
Þroskaþáttur  Dæmi um námsmat í framhaldsskóla 
 
Félags- og siðgæðisþroski

Efla nemanda sem félagsveru, kenna honum að taka tillit til félaga sinna, vera sveigjanlegur í samskiptum og virða einstaklinginn. Ennfremur er stefnt að því að auka skilning og hæfni nemenda til þess að fara eftir reglum og fyrirmælum. 

  
 • Mat kennara á samvinnu, félagsstöðu og samskiptum nemenda. 
Við námsmat þessara þátta væri hægt að útbúa einfalt eyðublað sem nemendur fylltu út einu sinni eða tvisvar yfir skólaárið. Spurningar og svarmöguleikar gætu verið á sömu leið og í kafla 4.3.2 hér að framan.

 

5.4 Tilfinningaþroski

Tilfinningar eru hugarástand sem mótast af upplifun á þörfum og löngunum einstaklings í umhverfi og samskiptum við aðra. Tilfinningar segja til um hvernig fólki líðu. Þær tengjast athöfnum og eru mikilvægur mótunarþáttur sjálfsmyndar og þar með mótun persónuleikans. Einstaklingur þroskast með því að geta látið í ljós tilfinningar sínar og jafnframt haft stjórn á þeim. Viðhorf til ýmissa þátta mótast einnig af upplifun. Þó að eitt ákveðið tilfinningaástand vari ekki lengi getur það haft mótandi áhrif á viðhorf, ef sama ástand sí endurtekur sig við svipaðar aðstæður.

Tilfinningatengsl mótast að stórum hluta í bernsku gegnum samskipti barns við foreldra og nánustu aðstandendur. Tilfinningar eins og gleði, ást, sorg, reiði, hræðsla og kvíði bærast í brjósti hvers einstaklings. Slíkum tilfinningum þarf að vera hægt að veita útrás. Það auðveldar einstaklingum að þekkja sjálfan sig, skilja viðbrögð annarra og bregðast við á eðlilegan hátt.

 

5.4.1 Markmið

Stefnt skal að því að auka innsæi nemenda í tilfinningar sínar og tilfinningar annarra. Einnig skal efla hæfileika nemenda til þess að bregðast við tilfinningalegum áreitum á eðlilegan hátt. Stuðla skal jafnframt að ánægjulegri upplifun af hreyfingu og íþróttum, sem mótað geta viðhorf nemenda í framtíðinni.

 

5.4.2 Nánari útfærsla og dæmi um kennslufræðilega nálgun

Í íþróttakennslunni getur skapast kjörinn vettvangur til þess að auka innsæi og innlifun nemenda í hugarástand hvers annars. Eðli sumra þátta í íþróttakennslunni er þannig að það reynir á skapstyrk einstaklings, s.s. einbeitingu, áræðni og viljastyrk. Oft brjótast fram tilfinningar eins og hræðsla, reiði, gleði og öfund. Eðlilegt er að sýna þannig viðbrögð í íþróttatímum. Þegar nemanda hitnar í hamsi getur einbeiting og viljastyrkur hans aukist og þar með afkastagetan. Mikilvægt er hins vegar að skapa þannig aðstæður að nemendur kynnist, undir vernduðum kringumstæðum, tilfinningum sínum og viðbrögðum annarra við þeim. Ef vel er að staðið geta slíkar aðstæður stuðlað að þroska nemenda. Hér reynir því mikið á þekkingu og hæfni kennarans.

Kennslufræðileg nálgun þarf að miðast við aldur og þroska nemenda. Í framhaldsskóla má nýta atvik sem upp koma í íþróttakennslunni til markvissrar umræðu. Tenging við aðrar námsgreinar er mikilvæg, þar sem taka má fyrir tengsl tilfinninga og hegðunar og bera saman við reglur, gildismat og viðmið samfélagsins. Slík umræða getur aukið skilning, víðsýni og umburðarlyndi nemenda.

Í íþróttakennslunni þarf nemandi að upplifa gleði og ánægju og finna jákvætt viðmót kennara. Sem dæmi um kennslufræðilega nálgun má nefna skemmtilega upphitun með tónlist, óvæntar nýjar æfingar og verkefni þar sem frumkæði og sköpun eru ráðandi þættir. Einnig er nauðsynlegt að nemandinn verði virkur þátttakandi og tilbúinn að gefa eitthvað af sér, s.s. að stjórna upphitun eða niðurlagi tímans.

 

5.4.3 Námsmat í tengslum við tilfinningaþroska

Stefnt skal að námsmati í tengslum við tilfinningaþroska sem annars vegar er bundið við huglægt mat kennarans á félagsstöðu nemenda, viðhorfum og líðan og hins vegar mat nemenda á eigin líðan og upplifun af kennslunni.
Þroskaþáttur  Dæmi um námsmat í framhaldsskóla 
 
Tilfinningaþroski 

Stefnt skal að því að auka innsæi nemenda í tilfinningar sínar og tilfinningar annarra. Einnig skal efla hæfileika nemenda til þess að bregðast við tilfinningalegum áreitum á eðlilegan hátt. Jafnframt skal stuðla að ánægjulegri upplifun skólaíþrótta, sem mótað getur viðhorf nemenda til þessara þátta í framtíðinni. 

 
 • Mat kennara á líðan og viðhorfi nemenda. 
 • Mat nemenda á eigin líðan, viðhorfi og upplifun 
 • kennslunnar. 
Í tengslum við námsmat þessara þátta má benda á umfjöllun um námsmat í tengslum við félags- og siðgæðisþroska.

 

5.5 Skyn- og hreyfiþroski

Skyn- og hreyfiþroski er skynjun mismunandi áreita, úrvinnsla þeirra og hreyfisvörun. Áreiti geta verið fjölþætt og svörun þeirra getur verið háð þroska taugakerfis og þroskun viðkomandi hreyfinga.

 

5.5.1 Markmið

Í framhaldsskóla skal viðhalda áunnum skyn- og hreyfiþroska. Leggja skal áherslu á örvun skynfæra og viðhalda grunnhreyfingum nemenda.

 

5.5.2 Dæmi um kennslufræðilega nálgun

Hægt er að nota íþróttagreinar, s.s. knattleiki, badminton, tennis og ýmsar æfingar sem stuðla að samhæfingu til þess að örva og viðhalda skyn- og hreyfiþroska nemenda.

 

5.5.3 Námsmat í tengslum við skyn- og hreyfiþroska

Námsmat í tengslum við skyn- og hreyfiþroska tengist sérstaklega færniþáttum. Ekki skal leggja mikla áherslu á þátt færniprófa í framhaldsskólakennslu, þó getur verið nauðsynlegt fyrir kennara að meta færniþætti í ýmsum greinum íþrótta.
Þroskaþáttur  Dæmi um námsmat í framhaldsskóla 
 
Skyn og hreyfiþroski

Í framhaldsskóla skal viðhalda áunnum skyn- og hreyfiþroska. Leggja skal áherslu á örvun skynfæra og viðhalda grunnhreyfingum nemenda. 

 
 • Færnipróf í undirstöðuatriðum 
 • íþróttagreina. 
 • Færnipróf í sundi. 
 

5.6 Fagurþroski

Líta þarf á íþróttir og hreyfingu í víðum skilningi sem list og listsköpun. Þættir eins og dans, skautahlaup, fimleikar og leikræn tjáning eru viðfangsefni þar sem fagurþroski gegnir veigamiklu hlutverki. Vinna með þennan þroskaþátt veitir nemendum ákveðna lífsfyllingu sem er sambærileg við það sem gerist í öðrum listgreinum eins og tónlist, myndlist og leiklist. Því ber að líta á íþróttir og hreyfingu sem hluta af menningarhugtakinu og sinna kennslunni í samræmi við það.

 

5.6.1 Markmið

Stefnt skal að því að efla hugmyndaflug nemenda, sköpunarmátt þeirra og tjáningu með fjölbreyttu hreyfinámi. Hvetja skal nemendur til þess að veita tilfinningum sínum útrás með því að nota líkama sinn, rými, blæbrigði, afstöðu og tengsl við aðra.

 

5.6.2 Nánari útfærsla og dæmi um kennslufræðilega nálgun

Sköpun er virkur þáttur sem býr í öllum börnum og er mikilvægur en oft dulinn hæfileiki sem þarf að fá útrás. Í handriti Mínervu Jónsdóttur, Skapandi hreyfing og dans (1997), segir hún m.a. um kennslu og uppbyggingu kennslustundar að öllum sé nauðsynlegt að fá næg tækifæri til að tjá sig, m.a. í hreyfingu. Þannig eru hreyfimöguleikar líkamans kannaðir og hreyfingar uppgötvaðar á eigin spýtur. Á sama hátt er hægt að kanna styrk, rými, tíma og flæði hreyfinga. Þegar sköpun á sér stað er bæði unnið með hugmyndir og tilfinningar hvers og eins.

Nemendum þurfa að fá útrás fyrir hreyfi- og sköpunarþröf sína með fjölbreyttum viðfangsefnum og verkefnum. Þessi verkefni geta verið af ýmsum toga, s.s. hreyfinám og leikræn tjáning með eða án tónlistar. Þá má nálgast þennan þátt með eða án aðstoðar áhalda af ýmsum toga.

 

5.6.3 Námsmat í tengslum við fagurþroska

Til að meta megi markmið sem lúta að fagurþroska má nefna matsleiðir sem tengjast túlkun hreyfinga af ýmsum toga, færni- og þekkingarpróf. Matið getur snúið að listsköpun, þar sem hreyfingar eru framkvæmdar í takt við tónlist. Vert er að benda á að mat á þessum þætti getur haft aukið vægi þegar komið er á efri skólastig, s.s. í námi íþróttakennara eða kennara sem sækja nám í öðrum list- og verkgreinum.
Þroskaþáttur  Dæmi um námsmat í framhaldsskóla 
 
Fagurþroski

Stefnt skal að því að efla hugmyndaflug nemenda, sköpunarmátt þeirra og tjáningu með fjölbreyttu hreyfinámi. Hvetja skal nemendur til þess að veita tilfinningum sínum útrás með því að nota líkama sinn, rými, blæbrigði, afstöðu og tengsl við aðra. 

 
 • Mat á verkefni og útfærslu sem snýr að hreyfilist, tjáningu og sköpun. 
 

Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða 

Höfundarréttur 1998 Menntamálaráðuneytið.