Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða 
6. Inntak náms og kennslu

Í þessum kafla verður komið inn á nokkra námsþætti sem áhersla hefur verið lögð á í íþróttakennslu undanfarin ár. Í þessu sambandi má nefna sund og kynningu á helstu íþróttagreinum. Janfnfram verður vikið að námsþáttum sem forvinnuhópur hefur séð ástæðu til að fjalla sérstaklega um. Þetta eru þættir eins og útivist og sérkennsla í íþróttum.

 

6.1 Námsþættir og viðfangsefni

Við val á námsþáttum og viðfangsefnum innan þeirra skal sérstaklega tekið fram að slíkt val þarf ávallt að taka mið af meginmarkmiðum hvers þroskaþáttar. Hér er því ekki spurning um efnisheiti námsþátta sem sótt er í, heldur hvort viðfangsefnið sem unnið er með sé í beinu samhengi við þau meginmarkmið sem sett eru í námskránni eða þau markmið sem kennari stefnir að í kennslustund hverju sinni.

Rétt er að minna á að íþróttakennslan hefur á undanförnum árum sótt í námsefni og æfingar hefðbundinna íþróttagreina sem stundaðar eru hér á landi. Undirstöðuatriði þessara greina eru á margan hátt hentugar til að nýta sem viðfangsefni fyrir þau markmið sem stefnt er að. Nauðsynlegt er að íþróttagreinar tengist markmiðum skólaíþrótta. Á bls. 130 í gildandi aðalnámskrá gunnskóla segir eftirfarandi um megininntak námsins:

³Mikilvægt er að hreyfinám eigi sér stað í öllum bekkjum grunnskóla. Leikir eiga að fá mikið rúm á fyrstu árum grunnskólans, auk fimleika (með leikfimi-, teygju- og slökunaræfingum) og undirstöðuæfingum frjálsíþrótta og sunds. Þegar alhliða styrk og færni er náð er hægt að bæta við greinum. Vinna við ýmsa námþætti er aðeins leið til að þjóna aðalmarkmiðum."
Nánari útfærsla á námsþáttum og inntaki náms verður látið eftir þeim hópi sem tekur að sér áframhaldandi námskrárvinnu. Rétt er að nefna helstu námsþætti sem unnið hefur verið með í skólaíþróttum á síðustu árum:

 

Einnig hafa verið tekin fyrir viðfangsefni úr öðrum íþróttagreinum í íþróttakennslunni. Einstök sérsambönd innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands hafa kynnt sérstaklega greinar sínar í skólunum. Má þar nefna borðtennis, tennis, golf, júdó, hestamennsku, sundknattleik og íþróttir fyrir fatlaða. Gönguferðir og útivist, ratleikir, hjólreiðar og skokk eru þættir sem einnig hafa verið teknir fyrir.

Í eftirfarandi kaflahlutum verður um þrjár mismunandi nálganir við markmið að ræða. Í fyrsta lagi koma viðfangsefni sem snúa að áhalda- og gólffimleikum. Þar eru ákveðin færnimarkmið sett upp í töflu. Á sama hátt má t.d. vinna með undirstöðuatriði í sundkennslu, frjálsíþróttum eða dansi.

Í öðru lagi er unnið með sundkennslu sem námsþátt út frá markmiðum þroskaþátta og í þriðja lagi eru nefndir nokkrir námsþættir þar sem kennara er látin eftir kennslufræðileg nálgun. Þessir námsþættir eru útivist, danskennsla, íslensk glíma og kynning íþróttagreina.

 

6.1.1 Dæmi um útfærslu námsþátta

Áhalda- og gólffimleikar

Með leikfimi er átt við almennar líkamsæfingar með eða án áhalda. Hér er sérstaklega um að ræða mótandi æfingar sem ná til allra helstu liðamóta líkamans og hafa það að markmiði að þroska einstaka hreyfieiginleika, jafnframt að viðhalda liðleika liða og styrkja kraft einstakra vöðva og vöðvahópa. Má þar nefna æfingar eins og beygjur, réttur, teygjur og bolvindur. Æfingar þessar má gera með eða án tónlistar, og ættu þær að skipa fastan sess í kennslustundum, annaðhvort sem hluti af upphitun, aðalþætti eða niðurlagi. Í töflu hér á eftir eru sett fram dæmi um viðfangsefni í áhalda- og gólffimleikum.

 
Bekkir í grunnskóla 
10
Þroskaþáttur: 
Skyn og hreyfiþroski
Líkamsþroski
Viðfangsefni:
Áhalda- og gólffimleikar
Áhöld:
Dýnur, gólf
Kollhnís áfram 
Kollhnís aftur á bak 
Krabbastaða 
Froskastaða 
Höfuðstaða 
Handahlaup 
Handstaða 
Handstöðuvelta, armar bognir 
Handstöðuvelta, armar beinir 
Tafla 1: Tafla um markmið í áhalda- og gólffimleikum

 
6.2 Sundkennsla
Sundkennsla við íslenska grunnskóla er að öllum líkindum ein sú besta í heiminum í dag. Það er umsögn erlendra kennara sem sótt hafa landið heim eða kynnst skipulagi kennslunnar á námskeiðum á erlendri grund. Ef marka má niðurstöður úr könnun á sundnámi grunnskólabarna á síðasta ári, Könnun á líkamsfari íslenskra skólabarna (1996), má telja að yfir 90% þjóðarinnar sé synd, þó svo að kannanir á sundfærni almennings hafi ekki átt sér stað að undanförnu. Þrátt fyrir stöðu sundkennslunnar í íslenska skólakerfinu, eru margir kennarar sem kennt hafa sund um árabil þeirrar skoðunar að breyta þurfi inntaki námsins og gera sundkennsluna áhugaverðari fyrir nemendur. Rökin fyrir frekari útbreiðslu sundsins eru þau að Íslendingar búa við mjög góðar aðstæður til sundiðkunar. Einnig er sund einn helsti heilsuræktar- og menningarþáttur þjóðarinnar sem ber að varðveita og leggja aukna rækt við.

Í mörgum skólum hefur skort á að gildandi reglugerð um sundnám í grunnskóla sé framfylgt, sérstaklega þeim þætti sem snýr að fjölda nemendastunda á hverju skólaári. Dæmi eru um að nemandi í 3. bekk grunnskóla hafi að loknu skólaári aðeins fengið 10 kennslustundir í sundi. Reglugerð um sundnám í grunnskóla frá 1986 kveður á um að stundir til sundnáms skuli að lágmarki vera 20, ef um námskeiðsform er að ræða. Hér þarf að verða breyting á í útfærslu viðmiðunarstunda. Atriði sem snýr að fjölda nemenda í hverri kennslustund þarf einnig að skoða í útfærslu nýrrar námskrár. Nauðsynlegt er að takmarka fjölda nemenda í sundkennslu með tilliti til þeirra markmiða sem stefnt er að og krafna um öryggisatriði. Þá hafa sundkennarar verulegar áhyggjur af slökum aðbúnaði víða á sundstöðum.

Í mörg ár hefur sundkennslan verið í föstum skorðum. Sundstig hafa verið í gildi síðustu áratugi og hafa þau tekið litlum breytingum í annars miklu breytingaferli grunnskólans. Í sundstigunum eru föst markmið fyrir hverja bekkjardeild og því hafa þau verið óbeinn leiðarvísir kennara. Þrátt fyrir nokkuð fast form kennslunnar vegna sundstiga, má ekki gleyma þeim sterku gildum sem í þeim felast.

Kennsluaðferðir við sundnámið hafa tekið nokkrum breytingum frá því að sund var gert að fastri kennslugrein við íslenska skóla í byrjun fimmta tug þessarar aldar. Í kennslunni hefur í auknum mæli verið lögð áhersla á leikræna þáttinn, sér í lagi hjá yngri aldurshópum. Slík nálgun hefur mælst vel fyrir meðal kennara, nemenda og foreldra og mun því fá aukið vægi í nýrri námskrá. Þá er stefnt að því að nálgast markmið sundnámsins út frá þeim markmiðum þroskaþátta sem getið er um í 3. kafla.

Sund hefur haft nokkra sérstöðu meðal námsgreina grunnskólans á undanförnum árum. Það hefur verið bundið í lögum (Íþróttalög, 1956) og reglugerð (Reglugerð um sundnám í grunnskóla, 1986). Gert er ráð fyrir að reglugerð um sundnám falli úr gildi með gildistöku nýrrar námskrár grunnskóla. Þess í stað verður sundnáminu gerð ítarlegri skil í námskrá en verið hefur.

Markmið sundnámsins og löggjafans er að gera alla nemendur synda við lok grunnskólanáms (13. gr. íþróttalaga nr. 49/1956 og áorðnum breytingum skv. lögum nr. 5/1968 og lögum nr. 34/1972) þar sem segir eftirfarandi:

³Öll börn í landinu skulu læra sund, nema þau séu óhæf tilþess að dómi skólalæknis."
 

Til að ná markmiðum löggjafans, er eftirfarandi nauðsynlegt:

 

Til þess að ofangreint sé mögulegt og markmiðum verði náð, þurfa eftirfarandi atriði öðrum fremur að koma til:

 

6.2.1 Sundnám í grunnskóla

Markmið sundnáms grunnskólanemenda taka mið af þroskaþáttum eins og í öðrum þáttum íþróttakennslunnar.

 

Skyn- og hreyfiþroski

Markmið:

Með fjölbreyttum æfingum og leikjum í vatni skal stuðla að örvun grunnhreyfinga nemenda og þroskun taugakerfis. Þannig verði lagður grunnur að flóknara hreyfinámi og sundtökum á seinni stigum.

 

Líkamsþroski:

Markmið:

Með sundnámi skal stefnt að alhliða líkamsþroska nemenda, s.s. þoli, krafti, hraða og liðleika.

 

Félags- og siðgæðisþroski

Markmið:

Efla nemandann sem félagsveru, kenna honum að taka tillit til félaga sinna, vera sveigjanlegur í samskiptum og virða einstaklinginn. Ennfremur skal stefnt að því að auka skilning og hæfni nemenda til þess að fara eftir reglum og fyrirmælum. Leggja skal áherslu á að nemendur upplifi sundstaði á jákvæðan hátt, þar sem þeir fá útrás fyrir hreyfiþörf og félagsleg samskipti.

 

Tilfinningaþroski

Markmið:

Stuðla að ánægjulegri og jákvæðri upplifun nemenda við sundnám og sundiðkun, sem mótað getur viðhorf þeirra til sunds í framtíðinni.

 

Vitsmunaþroski

Markmið:

Stefnt skal að því að auka þekkingu og skilning nemenda á starfsemi líkamans og áhrifum skipulagðrar sundþjálfunar. Þá skal markmiðið einnig vera fólgið í því að aðstoða nemendur við að finna sér leiðir til heilsuræktar í formi sundiðkunar, bæði meðan á námi stendur og að því loknu.

 

Fagurþroski

Markmið:

Stefnt skal að því að efla hugmyndaflug nemenda, sköpunarmátt þeirra og tjáningu með fjölbreyttu sundnámi.

 
6.2.2 Skipting markmiða eftir bekkjardeildum

Sundnám í 1. - 2. bekk

Í 1. til 2. bekk skal leggja megináherslu á leikræna þáttinn við aðlögun að vatninu. Mikilvægt er að nemendur fái jákvæða upplifun í kennslustundum og njóti þess að sækja sundtíma. Börn sem eru að byrja sundkennslu í grunnskóla, þ.e. 6 ára gömul, hafa fengið mismunandi kennslu eða aðlögun. Hreyfiþroski þessa aldurshóps er ekki orðinn það mikill að búast megi við því að þau geti framkvæmt þá hluti sem ætlast er til á þessum aldri samkvæmt þeim markmiðum sem í gildi hafa verið varðandi sundnám, Reglugerð um sundnám í grunnskóla frá árinu (1986). Einnig verður að athuga að varla er hægt að ætlast til þess að barn geti framkvæmt þær hreyfingar í vatni sem ætlast er til að það geti í almennri íþróttakennslu. Í íþróttasalnum eru þau að endurtaka hreyfingar sem þau hafa gert í einhverjum mæli síðastliðin 6 ár og eru þar með nokkuð fær í þeim. Hvað vatnið snertir, þá er nauðsynlegt að benda á eftirfarandi atriði:

Sundnám í 3. - 4. bekk

Í 3. - 4. bekk skal stefnt að áframhaldandi uppbyggingu sundnáms frá fyrstu tveimur skólaárum. Þá skal leggja aukna áherslu á grunnhreyfingu sundtaka þar sem kennsla í aðferðafræði skriðsunds og bringusunds hefst. Hér er um breytingu að ræða frá fyrri námskrá, að kenna aðferðafræði skriðsunds samhliða bringusundi.

Sundkennsla í 5. - 7. bekk

Í þessum bekkjardeildum skal leggja megináherslu á færniþætti og grunnkennslu helstu sundtaka. Með tilliti til þroska taugakerfis eru nemendur mjög móttækilegir fyrir öllu hreyfinámi og námsáhugi þeirra er yfrleitt mikill á þessum aldri. Stefnt skal að því að byggja ofan á þann grunn sem fyrir er frá aðlögunartímabili 1. - 4. bekkjar, þar sem leikræn atriði og jákvæð upplifun er meginmarkmið kennslunnar.

Sundkennsla í 8. - 10. bekk

Á unglingastigi skal meginmarkmið vera rík áhersla á þátt upplifunar í allri sundkennslu. Slík nálgun er gerð með það að markmiði að koma í veg fyrir brottfall og slaka ástundun sem oft hefur einkennt þetta tímabil. Því skal sækjast eftir því að unglingarnir njóti þess að stunda sund og hafi af því bæði lærdóm og ánægju. Jafnframt skal auka valmöguleika sem stuðlað geta að sérhæfingu nemenda og betri færni hvers og eins.

Sundstig

Í útfærslu á markmiðum sundnáms í grunnskóla þarf að endurskoða sundstigin og þá færniþætti sem þar er kviðið á um með tilliti til þeirra breytinga sem fram koma í þessari skýrslu.

 

6.2.3 Sundkennsla í framhaldsskóla

Í framhaldsskóla eiga nemendur að hafa náð tökum á helstu greinum sundsins. Meginmarkmið sundkennslunnar eiga að miðast að því að nemendur geti nýtt sér sund til líkamsþjálfunar. Sundið fellur vel inn í einstaka áfanga eða kennslu íþrótta í framhaldsskólum og skal útfært af hverjum kennara eða skóla fyrir sig. Markmið sundnáms þurfa að taka mið af þroskaþáttum eins og í öðrum þáttum íþróttakennslunnar.

Vitsmunaþroski

Markmið:

Stefnt skal að því að auka þekkingu og skilning nemenda á starfsemi líkamans og áhrifum skipulagðrar sundþjálfunar. Þá skal markmið íþróttakennara og skóla vera m.a. fólgið í því að aðstoða nemendur við að finna sér leiðir til heilsuræktar í formi sundiðkunar, bæði meðan á námi stendur og að því loknu.

 

Líkamsþroski:

Markmið:

Með markvissu sundnámi skal stefnt að því að bæta alhliða líkamsþroska nemenda, s.s. þol, kraft, hraða og liðleika meðan á framhaldsskólanámi stendur.

 

Félags- og siðgæðisþroski

Markmið:

Efla nemandann sem félagsveru, kenna honum að taka tillit til félaga sinna, vera sveigjanlegur í samskiptum og virða einstaklinginn. Leggja skal áherslu á að nemendur upplifi sundstaði á jákvæðan hátt, þar sem þeir fái útrás fyrir hreyfiþörf og félagsleg samskipti.

 

Tilfinningaþroski

Markmið:

Stuðla að ánægjulegri og jákvæðri upplifun nemenda af sundnámi og sundiðkun, sem mótað getur viðhorf þeirra til sunds í framtíðinni.

Skyn- og hreyfiþroski

Markmið:

Stuðla skal að örvun og viðhaldi grunnhreyfinga í vatni og þannig haldið við þeirri hreyfifærni sem fyrir er. Janfnframt skal leitast við að auka sundfærni og sérhæfingu nemenda eins og kostur er.

 

Fagurþroski

Markmið:

Stefnt skal að því að efla hugmyndaflug, sköpun og tjáningu nemenda í vatni.

 

6.3 Útivist

Markmið með útivistarnámi í skólaíþróttum er að láta nemendur vinna með meginmarkmið greinarinnar í næsta umhverfi sínu. Þessar aðstæður standa nemendum næst allan ársins hring og því er nauðsynlegt að opna augu þeirra fyrir þeim möguleikum sem náttúran og umhverfið hefur upp á að bjóða.

Nemendur þurfa að læra þá lífsleikni, að geta stundað líkams- og heilsurækt óháð íþróttaaðstöðu innanhúss. Þeir þurfa að fá notið leiðsagnar um íslenska náttúru á heilnæman hátt. Jafnframt þurfa nemendur að læra rétta umgengni við náttúru landsins og bera virðingu fyrir þeim arfi sem þeim ber að skila til næstu kynslóðar.

Nemendur þurfa einnig að kunna að búa sig út í misjöfnum veðrum og skilja að sjaldan er veður svo vont að ekki megi klæða það af sér. Gönguferðir, hjólreiðaferðir, skíðaferðir, skokk, hlaup, ratleikir, skautaferðir o. fl. ætti að vera snar þáttur í líkams- og heilsusræktarnámi barna- og unglinga. Forvinnuhópur skólaíþrótta telur nauðsynlegt að efla vægi útivistar í íþróttum grunn- og framhaldsskólanema. Útivistarferðir gefa mikla möguleika á samþættingu námsgreina. Dæmi um það eru fjöruferðir og skoðun á lífríki landsins samhliða því sem nemendur reyna á líkama sinn í aðlaðandi umhverfi.

Það hefur færst í vöxt á undanförnum árum að börn og unglingar leika sér minna útivið en áður. Frekar er setið fyrir framan sjónvarp og tölvur þar sem áreynsla á hjarta, æðakerfi og stoðkerfi er mjög lítil. Í skólaíþróttum þarf að bregðast við þessu með aukinni útivist og markvissri hreyfingu þar sem m.a. nemendur eru látnir upplifa þá gleði sem hægt er að fá út úr því að fara út og hreyfa sig. Þannig skal stefnt að því að opna augu nemenda fyrir þeim möguleikum sem umhverfið í kringum þá og íslensk náttúra hefur upp á að bjóða. Ef vel tekst til er líklegt að þegar nemendur vaxa úr grasi og ljúka skólagöngu, finni þeir hér leið til líkams- og heilsuræktar.

 

6.4 Íslenska glíman

Þjóðaríþrótt Íslendinga, glíman, þarf að fá ákveðið rými í íþróttakennslu grunnskóla. Fangbrögð hafa verið iðkuð á Íslandi allt frá því að sögur hófust og því mikilvægt að halda þessum menningararfi við, sjá nánar kafla 2.1.1 hér að framan.

Benda má á að útlendingar sem sjá glímu verða hrifnir af léttleika glímunnar og telja hana fagra íþrótt. Nágrannaþjóðir okkar, Norðmenn og Danir áttu áður fyrr sín þjóðlegu fangbrögð, en þau eru nú löngu horfin og í Svíþjóð er að finna leifar fangbragða í Gotlandi. Þessar þjóðir öfunda því Íslendinga mjög af glímunni og því hve vel við höfum haldið henni á lofti í gegnum aldirnar. Að vísu eiga Evrópubúar eins og Englendingar, Skotar og Frakkar þjóðleg fangbrögð sem þeir varðveita vel. Talið er að nafnið glíma komi fyrst fyrir á 12. öld og hafa menn leitt líkur að því að glíman þýði leikur gleðinnar.

Árið 1966 var glímulögum breytt til að gera hana léttari og liprari. Þar var einnig gert til að minnka níð sem oft var fylgifiskur glímunnar. Einnig voru glímumenn færðir úr strigaskóm í leðurskó og beltunum var breytt.

Á síðasta áratug hefur glímualdur verið lækkaður og konur hafa loks fengið að taka þátt í glímu og glímumótum. Unglingum er leyft að glíma á dýnum til að forðast meiðsli og hefur það gefið góða raun. Það hefur verið mikið áhyggjuefni meðal glímumanna hve fáir hafa iðkað hana og leiðbeinendur hefur skort. Við þessu hefur verið brugðist, m.a. með kynningu á glímu í grunnskólum landsins á vegum Glímusambands Íslands. Slíkar kynningar hafa borið góðan árangur og hefur þetta m.a. orðið til þess að fjöldi keppenda á glímumótum, einkum í yngri flokkum hefur aukist. Það er því mikilvægt að stutt verði áfram við bakið á þessari þjóðaríþrótt og skólar geti leitað til Glímusambands Íslands varðandi kynningar á glímunni.

Að lokum skulu nefnd þrjú atriði sem gera glímuna fegurri tilsýndar en margar aðrar íþróttagreinar. Þessi atriði ber að hafa í heiðri við iðkun glímu, en þau eru:

  1. Í glímu skulu menn uppréttir standa. Í öllum öðrum fangbrögðum bolast menn sem mest þeir mega og fangstaðan minnir helst á vinkil. Í glímu er það bannað. Bol þykir lýti á glímu.
  2. Í glímu er stígandi. Menn stíga sérstakt spor milli bragða sem leiðir til þess að þeir berast í hring og eru alltaf á hreyfingu. Stígandinn, þessi sviflétta hringhreyfing sem á skilt við danslist, hefur þann tilgang að viðhalda léttleika og mýkt glímunnar, skapa færi til sóknar og varnar. Góður stígandi er skilyrði fyrir góðri glímu.
  3. Í glímu má ekki níða. Sækjandi skal að loknu glímubragði halda jafnvægi en má ekki falla ofan á viðfangsmann og fylgja honum eftir í gólfið. Það er níð.
 
6.5 Danskennsla

³Dans hefur fylgt mannkyni frá örólfi alda. Hann er alheimstjáning þar sem allar þjóðir geta tekið þátt. Dans er uppspretta gleðinnar án nokkurra vímugjafa, því ber börnum réttur til þess að læra og kynnast dansi³ (Sigríður Valgeirsdóttir, 1997)

Börnum er það eðlilegt að tjá sig með líkama sínum, þar sem þau hafa ekki öðlast þroska þeirra fullorðnu. Slíkur þroski felst oft í notkun orða og hugtaka, auk þess sem auðveldara getur reynst að túlka tilfinningar í hreyfingu en orðum. Þetta er börnunum eðlilegt. Það er einnig barninu eðlilegt að ³dansa".

Leikir með söng og dansi hafa verið, eru og ættu að vera hluti af skólaíþróttum. Dansinn er hluti af uppeldisstefnu hvers þjóðfélags, en hann hefur því miður ekki fengið nægilegt rými í kennslu grunnskólabarna. Með einum viðbótartíma á viku í skólaíþróttum, a.m.k. hálft skólaárið, ætti að vera möguleiki að ná tökum á þeim hreyfingum og hreyfimynstrum sem verið er að sækjast eftir.

Í tónmenntatímum og íslensku eru textar og laglínur kenndar, unnið er með áherslur og takt. Slíkur undirbúningur og samvinna við íþróttakennsluna er nauðsynlegur. Í íþróttakennslunni eru hreyfingarnar við tónlistina framkvæmdar eða túlkaðar, hreyfingamynstur lærð þar til öll börnin geta tekið þátt í leik og dansi, frjáls og óheft. Slíkt er í raun krafa frá samfélagi nútímans, að námsþættir og greinar fléttist saman eins og tónlist og hreyfing, að ekki sé hægt að setja ákveðnar reglur um hvað sé kennt í tónmennt og hvað í íþróttum þegar dans og spuni er annars vegar.

Í dansi geta yngri sem eldri nemendur fengið útrás skapandi hugsunar og túlkað hugmyndir annarra, t.d. í tengslum við tónlist. Félagsþroski barna styrkist í dansi. Þau læra að taka tillit til hvers annars, þar myndast samkennd sem getur átt stóran þátt í því að skapa góðan bekkjaranda. Virðingu og skilning á hefðum og menningu eigin þjóðar og annarra má efla með þátttöku í dönsum okkar og annarra. Dansinn er mikilvægur í þroskaferli sérhvers einstaklings og tenging hans við þau markmið sem þegar hefur verið farið yfir er mjög skýr.

 

6.5.1 Tilgangur og markmið danskennslu í skólum frá sjónarhóli íþrótta

Megintilgangur dansmenntunar í grunnskóla er sem í öðrum greinum grunnskóla að stuðla að alhliða þroska hvers og eins í samræmi við eðli og þroska nemenda. Meginmarkmiðið er því bæði uppeldis- og fagurfræðilegt. Það snertir tjáningu, skapandi hugsun, hreyfiþroska, félagsleg samskipti, tónlist og túlkun, þjóðleg sérkenni og hefðir, dýpkun skilnings á öðrum listgreinum og sjálfsöryggi í tjáningu. Dans er í eðli sínu gleðigjafi og tilgangur hans því einnig fyrirbyggjandi í tengslum við streitu og notkun vímuefna.

 

Meginmarkmið danskennslu í skólum:

 

6.5.2 Dans sem eðlilegur hluti uppeldis og menntunar skólabarna

Ef litið er á eldri viðmiðunarstundaskrár, má glöggt sjá að skólaíþróttir hafa tapað þriðjungi prósenta á viðmiðunarstundaskrá frá því 1960, þ.e. hafa 8% nú í stað 12% áður. Þó bendir margt til þess að hækka eigi greinina í um 10%, en slíkt mun ekki koma í ljós fyrr en viðmiðunarstundir verða settar fram af menntamálaráðuneytinu. Það væri ákjósanlegur kostur að tengja dansmenntun við íþróttakennsluna en um leið að gefa henni aukið vægi í vikulegum kennslustundum eins og þegar hefur verið lagt fram í skýrslu þessari.

Til að dans geti orðið eðlilegur hluti af uppeldi og menntun grunnskólabarna, þarf að festa hann á einhvern hátt í tengslum við viðmiðunarstundir grunnskólans. Það hefur þótt einna eðlilegast að tengja dansinn list- og verkgreinum (sjá markmið listkennslu, skýrsla forvinnuhóps, sept. 1997). Dansinn hvað túlkun og sköpun varðar er mjög nátengdur öðrum listgreinum en þó hefur verið erfitt um vik að fá aðila til að kenna dans í skólum fyrir utan danskennara. Að vísu er í námi íþróttakennara ákveðið eininganám sem snýr að tónmennt og dansi, leikrænni tjáningu og sköpun (spuna, rythmik).

 

6.6 Kynning íþróttagreina

Með skírskotun til meginmarkmiða skólaíþrótta er ekki hægt að gera þá kröfu til kennara eða greinarinnar að allar þær íþróttagreinar sem hér á landi eru stundaðar verði teknar fyrir í íþróttakennslu grunnskóla. Kennarar hafa þó þann möguleika að nýta sér viðfangsefni íþróttagreina sem tæki til að þjóna meginmarkmiðunum.

Til viðbótar við kynningu íþróttakennara á íþróttagreinum hafa einstök sérsambönd innan íþróttahreyfingarinnar nýtt sér þann möguleika að vera með kynningar og boðið til þess sérstakan starfskraft og vandaða dagskrá. Slík dagskrá stendur yfirleitt í viku tíma í senn í hverjum skóla. Áður en slík kynning fer fram er nauðsynlegt fyrir viðkomandi sérsamband að fá til þess leyfi hjá viðkomandi skólayfirvöldum, þar sem m.a. er lögð fram rökstudd lýsing á þeirri kynningardagskrá sem fram fer. Skipulagning slíkrar kynningar þarf að koma til áður en skólastarf hefst að hausti, svo íþróttakennara geti fellt þær inn í áætlanagerð skólastarfsins. Eitt aðalmarkmið kynninga skal vera að gefa nemendum tækifæri til að finna íþrótt við sitt hæfi sem þeir gætu e.t.v. iðkað í tómstundum sínum meðan á námi stendur eða að því loknu.

 

6.6.1 Samvinna við íþróttafélög

Á undanförnum árum hefur áhugi íþróttafélaga á samvinnu við skólayfirvöld færst í vöxt. Þetta kemur sérstaklega til vegna breyttra forsenda í skólahaldi, þ.e.a.s. lengdrar viðveru barna í skóla, stefnu sveitarfélaga um heilsdagsskóla og kröfur nýrra grunnskólalaga um einsetinn grunnskóla. Eitt af markmiðum með einsetningu er að öll börn geti hafið nám að morgni. Þetta skapar aukna möguleika á að færa íþróttaæfingar íþróttafélaga fyrr á daginn í íþróttahúsin sem áður hafa verið upptekin af hálfu skólans fram eftir degi. Þá hafa íþróttafélögin verið að sækjast eftir því að skólinn í samvinnu við félögin geti boðið upp á fjölbreytt tómstundarstarf þar sem íþróttir geta verið eitt af þeim tilboðum sem í boði eru fyrir börnin. Skýrt skal tekið fram, að hér er ekki á neinn hátt verið að blanda saman almennri skólaíþróttakennslu og íþróttaþjálfun félaganna. Samvinna við íþróttafélög stendur algjörlega fyrir utan skyldunám skólaíþrótta. Aftur á móti má segja að komi til samstarfs grunnskóla og íþróttafélaga í hverfi skólans, er upplagt að sú kynning sem fram hefur farið á vegum skólaíþróttakennslunar geti færst yfir til félaganna. Þrátt fyrir slíka samvinnu er sjálfsagt að nýta sér leikræna uppbyggingu íþróttagreina sem tæki til nálgunar á meginmarkmiðum kennslunnar.

 

6.6.2 Frjálst íþrótta- og tómstundastarf

Með frjálsu íþrótta- og tómstundastarfi er átt við hvers konar skipulagða íþróttaiðkun nemenda sem fram fer utan kennslustunda í skólaíþróttum, en er að finna í skólanum eða á vegum hans. Frjáls íþróttastarfsemi er töluverð í grunn- og framhaldsskólum. Íþróttahátíðir skóla, íþróttamót milli skóla eru t.a.m. árlegir viðburðir margra skóla. Með þessu starfi er komið til móts við íþróttaáhuga nemenda og þeim gefinn kostur á að vera virkir í þroskandi og ánægjulegu tómstundastarfi. Því er æskilegt að íþróttakennarar, skólastjórar og aðrir kennarar hlúi að slíku starfi og taki þátt í því á einn eða annan hátt að móta heilstætt tómstundastarf í samvinnu við íþrótta- og tómstundaráð sveitarfélaga. Þá gæti það verið góður kostur að nýta samvinnu við íþróttafélögin í hverfinu með því að fylgja þessum þætti eftir.

Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða 

Höfundarréttur 1998 Menntamálaráðuneytið.