Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða 

8. Námsmat

Námsmat í íþróttakennslu er vandmeðfarin þáttur, sérstaklega þegar um er að ræða mat á færni eða kunnáttu nemenda í tengslum við ákveðna námsþætti eða viðfangsefni og ekki síður birtingu niðurstaðna.

Tilgangur námsmats skal vera að veita nemendum, kennurum, foreldrum og öðrum þeim sem að skólastarfi koma, upplýsingar um árangur nemenda og stöðu námsgreinarinnar. Námsmat skal vera þannig fram sett, að í því felist hvatning til áframhaldandi náms. Einnig þarf það að vera auðskiljanlegt og veita nauðsynlegar upplýsingar um þau markmið sem stefnt er að.

Stefnt skal að því að öll þau markmið sem tekin eru fyrir í skólaíþróttum verði mælanleg. Matsaðferðir þurfa að vera fjölbreytilegar svo þær nái yfir öll markmið sem sett eru fram við þroskaþættina. Matsaðferðirnar þurfa að ná til:

 

Taflan hér að neðan sýnir dæmi um námsmat við hvern þroskaþátt sem unnið er með í tengslum við markmið skólaíþrótta.
Þroskaþættir 
Markmið og rök 
Viðfangsefni 
Bekkir
Námsmat 
 
Skyn- og 
hreyfiþroski 
Sjá 3., 4. og 
5. kafla
Sjá 6. kafla 
Nánari útfærsla á seinni stigum 
Hreyfiþroskapróf 
Færnipróf 
Líkams- 
þroski 
Sjá 3., 4. og 
5. kafla
Sjá 6. kafla 
Nánari útfærsla á seinni stigum 
Þolpróf 
Kraftpróf 
Liðleikapróf 
Hraðaþróf 
Félags- og 
siðgæðisþroski 
Sjá 3., 4. og 
5. kafla
Sjá 6. kafla 
Nánari útfærsla á seinni stigum 
Mat á samvinnu
Mat á samskiptum
Mat á félagsstöðu
Tilfinninga- 
þroski 
Sjá 3., 4. og 
5. kafla
Sjá 6. kafla 
Nánari útfærsla á seinni stigum 
Mat á upplifun
Mat á líðan
Vitsmunaþroski 
Sjá 3., 4. og 
5. kafla
Sjá 6. kafla 
Nánari útfærsla á seinni stigum 
Fræðilegt próf
Verkefni
Fagurþroski 
Sjá 3., 4. og 
5. kafla
Sjá 6. kafla 
Nánari útfærsla á seinni stigum 
Færnipróf 
Þekkingarpróf 
Tafla. Þroskaþættir og námsmat.

Nauðsynlegt er einnig að vinna út frá samræmdum matsaðferðum sem notaðar eru í nágrannalöndum svo hægt sé að bera saman niðurstöður á vísindalegan máta. Hér er átt við greiningarpróf, s.s. hreyfiþroskapróf, afkastagetupróf og próf á vegum Evrópuráðs, svonefnt ³Eurofit."

Mat nemenda á líðan og upplifun er einnig mikilvægur þáttur í skólastarfinu. Þær upplýsingar geta verið ómetanlegt veganesti fyrir kennara. Mikilvægt er að matið fari fram jafnt og þétt á námstíma skóla. Slíkt er sérstaklega mikilvægt m.t.t. upplýsinga fyrir foreldra og endurskoðunar á starfsháttum og öllu skipulagi kennslunnar. Markvisst námsmat er í raun forsenda endurskipulagningar og þróunar íþróttakennslunnar.

Varðandi birtingu vitnisburðar og áframhaldandi vinnu með niðurstöður námsmats er mikilvægt að draga fram þá þætti sem eru uppbyggjandi fyrir nemendur. Nauðsynlegt er að kennarar samræmi markmið og skipulag á námsmati í grunn- og framhaldsskólum, svo samhengi í námsmati milli skóla og milli skólastiga verði sem mest.

 

8.1 Námsmat í tengslum við þroskaþætti

Stefnt skal að því í nýjum námskrám á báðum skólastigum, að tengja námsmat við alla þroskaþætti og megninmarkmið kennslunnar. Útfærsla þessara atriða er í 4. og 5. kafla hér að framan þar sem fjallað er sérstaklega um námsmat út frá þroskaþáttum og markmiðum, bæði í grunn- og framhaldsskólum. Á þann hátt er unnt að greina stöðu kennslunnar með tilliti til þeirra markmiða sem sett eru fram.

Á þessu stigi eru tekin dæmi um námsmat í tengslum við ákveðna þroskaþætti, en nánari útfærslu þarf að vinna enn frekar á seinni stigum. Þessi útfærsla á námsmati sem þegar hefur verið farið í, tengist sjálfkrafa þeim þremur grundvallarformum sem verið er að vinna með í skólastarfi, þ.e.a.s. þekkingu, færni og upplifun.

Mikilvægt er t.d. við mat á skyn- og hreyfiþroska og tilfinningaþroska, að unglingurinn upplifi námsmatið á jákvæðan hátt og að framkvæmd matsins sé þannig háttað að hann þurfi ekki að líða fyrir það. Sem dæmi má nefna þegar nemandi er látinn framkvæma æfingu meðan allur bekkurinn fylgist með. Slík neikvæð upplifun getur haft í för með sér að unglingurinn upplifi íþróttir á neikvæðan hátt og forðist eða hætti þátttöku.

Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða 

Höfundarréttur 1998 Menntamálaráðuneytið.