almennur hluti
stúdentspróf listnám
sveinspróf
iðnmeistarapróf
annað starfsnám
heimasíða

AÐALNÁMSKRÁ FRAMHALDSSKÓLA

ALMENNUR HLUTI

1999

Auglýsing um gildistöku aðalnámskrár framhaldsskóla.

1. gr.
Með vísan til 21. gr. og 29. gr. laga nr. 80/1996 um framhaldsskóla með áorðnum breytingum, hefur menntamálaráðherra staðfest nýja aðalnámskrá framhaldsskóla, sem tekur gildi frá og með 1. júní 1999. 

Starf í framhaldsskólum samkvæmt hinni nýju aðalnámskrá hefst frá og með skólaárinu 1999-2000. Heimilt er þó að fengnu samþykki menntamálaráðuneytisins að láta námskrána koma til framkvæmda frá og með skólaárinu 2000-2001, enda séu fyrir því rökstuddar forsendur í einstökum framhaldsskólum. Aðalnámskrá framhaldsskóla skal vera komin til fullra framkvæmda í öllu starfi framhaldsskóla eigi síðar en að fimm árum liðnum frá gildistöku auglýsingar þessarar. Námskrá fyrir framhaldsskóla, 3. útgáfa, frá 1990 fellur úr gildi eftir því sem ákvæði nýrrar námskrár koma til framkvæmda. 

Hin nýja aðalnámskrá tekur ekki til eftirtalinna þátta: Nánari skilgreiningar á lágmarkskröfum um námsárangur í einstökum greinum og greinaflokkum við lok grunnskóla og starfsþjálfun þar sem hennar er krafist, sbr. 15. gr. laga um framhaldsskóla, lágmarksfjölda kennslustunda í einstökum námsgreinum sbr. 21. gr. og samræmdra lokaprófa sbr. 24. gr. sömu laga. Gildistaka ákvæða aðalnámskrár framhaldsskóla varðandi framangreinda þætti verður auglýst síðar. 
 

2. gr.
Aðalnámskrá framhaldsskóla er gefin út í heftum. Almennur hluti námskrárinnar er birtur í einu hefti. Námskrár einstakra bóknámsgreina og námskrár í sérgreinum starfsnáms eru birtar í sérstökum heftum. 

Í almennum hluta aðalnámskrár er meðal annars fjallað um hlutverk og markmið framhaldsskóla, uppbyggingu náms og námsleiðir, almenn inntökuskilyrði, skólanámskrá, réttindi og skyldur nemenda, námsmat og próf, sveinspróf og námssamninga, undanþágur og meðferð persónulegra upplýsinga og meðferð mála. Almennur hluti aðalnámskrár framhaldsskóla er birtur sem fylgiskjal með auglýsingu þessari. 

Í námskrám einstakra námsgreina og námskrám í sérgreinum starfsnáms er m.a. skilgreint markmið námsins, gefnar ábendingar um nám og kennslu, námsmat, áfangalýsingar svo og lýsingar á námsskipan þar sem við á. 

Almennur hluti aðalnámskrár framhaldsskóla ásamt brautarlýsingum verður gefinn út í sérstöku hefti í apríl 1999. Námskrár einstakra bóknámsgreina verða gefnar út í sérstökum heftum fyrir 1. júlí 1999 og námskrár í sérgreinum starfsnáms verða einnig gefnar út í sérstökum heftum fyrir 1. janúar 2000. 
 

3. gr.
Auglýsing þessi öðlast þegar gildi. 
 
Menntamálaráðuneytinu, 31. mars 1999 

______________________        ______________________________  
Björn Bjarnason (sign)        Guðríður Sigurðardóttir (sign)

 
  EFNISYFIRLIT
  1. Inngangur
  2. Grundvöllur og hlutverk aðalnámskrár
  3. Hlutverk og markmið framhaldsskóla
  4. Uppbygging náms — námsleiðir
  5. Um stofnun og rekstur námsbrautavið framhaldsskóla
  6. Inntökuskilyrði
  7. Skólanámskrá
  8. Um réttindi og skyldur skóla og nemenda
  9. Um námsmat og próf
  10. Sveinspróf og námssamningar
  11. Undanþágur
  12. Um meðferð persónulegra upplýsinga
  13. Meðferð mála
  14. Fullorðinsfræðsla
  15. Lýsing á brautum
 

INNGANGUR

Allar breytingar kalla á viðbrögð. Sumir hræðast þær og leggja hendur í skaut, flestir sjá tækifæri í breytingum og grípa þau. Ég vona að allir sjái hin nýju tækifæri í námskránni og nýti sér þau. Nám og skólastarf verður að taka mið af hraðri þróun í tækni og vísindum, nýjum atvinnu- og þjóðfélagsháttum. Menntun auðveldar nemendum að takast á við breytingar. Hún sameinar virðingu fyrir reynslu hins liðna og áræði til að glíma við hið óþekkta.

Almennur hluti námskrár framhaldsskóla fjallar bæði um bóknám og starfsnám. Menntamálaráðuneytið hefur forgöngu um gerð námskrár fyrir bóknáms- og listnámsbrautir. Fjórtán starfsgreinaráð hafa frumkvæði að námskrám fyrir starfsnám og gera tillögur um efni þeirra til ráðuneytisins. Í ýmsum starfsnámsgreinum er stuðst við nýlegar námskrár, í öðrum eru námskrárnar að mótast í fyrsta sinn.

Aðalnámskrá er ætlað að styrkja og móta heilsteypt skólastarf bæði innan hvers skóla og almennt í landinu. Námskröfur eru skýrar og eiga að vera skiljanlegar öllum sem að skólastarfi koma. Við gerð námskrár framhaldsskóla hefur verið tekið mið af lögum um skólana og rétti nemenda til að ákveða sjálfir hvernig námsleiðir þeir velja sér innan hinna mörkuðu námsbrauta.

Ný aðalnámskrá gerir ráð fyrir sveigjanleika í starfi einstakra skóla. Á milli skóla og ráðuneytis gildir skólasamningur þar sem innra starf hvers skóla er skilgreint. Allar ákvarðanir um áfanga og námsbrautir eru að lokum staðfestar með skólasamningi. Skólanámskrár skipta einnig miklu um framkvæmd aðalnámskrárinnar en litið er á landið í heild sem skólasvæði á framhaldsskólastigi. Þá er fjarkennsla til þess fallin að auðvelda verkaskiptingu milli skóla.

Unnið hefur verið að endurskoðun aðalnámskráa leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla síðan haustið 1996. Meginatriðin voru kynnt almenningi undir kjörorði nýju skólastefnunnar, Enn betri skóli. Samráð hefur verið haft við stjórnmálaflokka og hagsmunasamtök. Meira en tvö hundruð kennarar hafa lagt hönd á plóginn. Við verklok eru öllum þátttakendum í verkinu færðar einlægar þakkir.

Við aldarlok hefst nýr kafli í íslenskri skólasögu. Skólarnir ganga inn í nýja öld á nýjum og traustum grunni. Nemendur geta treyst því að í skólagöngu þeirra verður samfella og stígandi.

Með því að halda í heiðri gildin, sem hafa reynst okkur Íslendingum farsælust, getum við nýtt okkur tækifæri breytinganna best. Skólarnir hafa vaxið úr jarðvegi kristins siðgæðis og sögu okkar, þær rætur mega aldrei slitna. Minnumst þess að menntun er auður sem aldrei verður frá neinum tekinn. Markmiðið er að sem flestir Íslendingar hljóti sem besta menntun.

Björn Bjarnason
menntamálaráðherra


 

GRUNDVÖLLUR OG HLUTVERK AÐALNÁMSKRÁR

Menntun er ein meginstoð lýðræðis, almennrar velferðar og menningar. Hver maður á rétt til menntunar eins og staðfest er í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Íslendingar eru aðilar að. Til samræmis við þetta er í lögum um framhaldsskóla kveðið á um að allir, sem lokið hafa grunnskólanámi eða hlotið jafngilda undirstöðumenntun, skuli eiga kost á að hefja nám í framhaldsskóla.

Aðalnámskrá er meginviðmiðun skólastarfs á framhaldsskólastigi og er hún gefin út af menntamálaráðherra með sama hætti og reglugerðir. Í aðalnámskrá er að finna nánari útfærslu á þeirri mennta- og skólastefnu sem birtist í lögum nr. 80/1996 um framhaldsskóla og túlkun á einstökum ákvæðum þeirra. Í námskránni er lýst námsframboði og umgjörð skólastarfs á framhaldsskólastigi og þeim starfsramma sem skólastarfi er settur með lögum um framhaldsskóla og tilheyrandi reglugerðum svo og með vísun til sérstakra ákvæða sem er að finna í öðrum lögum og varða nám á framhaldsskólastigi.

Hlutverk aðalnámskrár er margþætt:

Í aðalnámskrá eru sett fram meginmarkmið framhaldsskóla og skilgreind markmið einstakra námsbrauta, námsgreina, námsáfanga og námslok. Einnig er kveðið á um umfang og uppbyggingu einstakra námsbrauta, inntak í megindráttum og mælt fyrir um námsmat og próf. Þá er tilgreindur meðalnámstími á hverri námsbraut, svo og lágmarksfjöldi kennslustunda í einstökum námsgreinum.

Í námskránni kemur fram hvaða kröfur nemandi þarf að uppfylla til þess að hann teljist hafa lokið einstökum áföngum námsins með fullnægjandi árangri. Í almennum hluta aðalnámskrár eru birtar ýmsar reglur er varða réttindi og skyldur nemenda og má þar nefna ákvæði um hversu oft nemandi má endurtaka próf og reglur um rétt nemenda til að sjá prófúrlausnir sínar. Auk þess eru í námskránni ákvæði um mat á starfsþjálfun sé hún hluti námsins, mat á námi þegar nemendur flytjast á milli skóla og skilyrði þess að flytjast milli námsbrauta. Í aðalnámskrá eru einnig viðmiðunarreglur um gerð skólanámskrár og mat á skólastarfi. Þá eru settar fram almennar reglur um meðferð ágreiningsmála.
 

HLUTVERK OG MARKMIÐ FRAMHALDSSKÓLA

Framhaldsskólinn tekur við að loknum grunnskóla og er honum gert að sinna öllum nemendum hvernig svo sem undirbúningi þeirra úr grunnskóla er háttað. Framhaldsskólum ber að búa nemendur sína undir líf, starf og frekara nám. Skólarnir gegna því veigamiklu hlutverki hvað varðar almenna menntun og félagslegt uppeldi nemenda auk þess sem þeir skulu vera vettvangur fyrir kynningu þjóðlegra og alþjóðlegra menningarverðmæta. Í námskránni eru meginmarkmið framhaldsskólans skilgreind en þau eru síðan útfærð nánar í skólanámskrám og störfum einstakra skóla.

Þessum markmiðum verður því aðeins náð að skólinn bjóði fjölbreytt nám þannig að allir nemendur geti fundið þar eitthvað við sitt hæfi.

Í skólanámskrá skulu skólar gera grein fyrir því með hvaða hætti þeir hyggist ná þeim markmiðum sem að framan eru nefnd og hvernig þeir hyggist gegna hlutverki sínu sbr. 2. gr. laga um framhaldsskóla.

Samkvæmt þeirri grein laganna er hlutverk skólanna að

Starfsemi framhaldsskóla þarf að vera sveigjanleg til þess að skólarnir geti mætt nýjungum og breyttum kröfum. Höfuðskylda framhaldsskóla er að veita nemendum góða alhliða menntun auk þess sem þeim ber að veita nemendum markvissan undirbúning til starfa og áframhaldandi náms í sérskólum eða skólum á háskólastigi. Skólum ber að efla sjálfstraust nemenda, hæfileika þeirra til að taka sjálfstæðar ákvarðanir og bregðast fljótt og skynsamlega við nýjum og breyttum aðstæðum. Gagnrýnin hugsun, heilbrigð dómgreind og verðmætamat ásamt umburðarlyndi leggur grunn að farsæld. Nemendur þurfa að geta látið skoðanir sínar í ljós, vera óhræddir við breytingar, geta tekið áhættu og borið ábyrgð á gerðum sínum. Rækta ber með nemendum hæfileika til að njóta menningar og lista og til að leggja sitt af mörkum á þeim vettvangi.

Til að styrkja einstaklinga eiga skólar að bjóða fram nám sem auðveldar þeim að átta sig á eigin stöðu í nútímasamfélagi. Þessar skyldur skólans falla undir hugtakið lífsleikni og miða að því að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi með því að dýpka skilning þeirra á samfélaginu, svo sem sögulegum forsendum, atvinnuháttum, menningu, náttúru, fjölskylduábyrgð, fjármálaskyldum, einstaklingsskyldum og rétti.

Skólar skulu leitast við að stuðla að sjálfstæði nemenda. Í þessu skyni þurfa skólar að leggja áherslu á þverfaglegt nám og ýmsa færniþætti. Hér er m.a. um að ræða frumkvæði, sjálfstæð vinnubrögð, greiningarhæfni, samstarfshæfni og hæfileika til tjáskipta í mæltu og rituðu máli.

Skólum ber að gæta jafnréttis nemenda til náms. Þetta felst m.a. í því að bjóða nemendum nám og kennslu við hæfi og gefa þeim tækifæri til að spreyta sig á viðfangsefnum að eigin vali eftir því sem við verður komið. Hér er ekki átt við sömu úrræði fyrir alla nemendur heldur sambærileg og jafngild tækifæri. Verkefnin skulu höfða jafnt til pilta og stúlkna, nemenda í dreifbýli og þéttbýli, fatlaðra sem ófatlaðra nemenda. Eitt mikilvægasta úrlausnarefnið í þessu sambandi er að finna leiðir til að koma til móts við ólíka getu og ólík áhugamál nemenda, þ.e. að veita nemendum menntun við hæfi hvers og eins.

Hvað varðar skólagöngu fatlaðra nemenda skulu skólar leitast við að gera þeim kleift að stunda nám með öðrum eftir því sem kostur er. Fatlaðir nemendur skulu því eiga þess kost að nýta sér það nám sem er í boði á almennum námsbrautum skólans með þeirri aðstoð sem þeir þurfa og skólar geta veitt en einnig skal boðið upp á nám á sérstökum námsbrautum þar sem kennsla og viðfangsefni miðast við fötlun þeirra.

Hinar öru breytingar, sem nú eiga sér stað á öllum sviðum samfélagsins, gera það að verkum að gildi símenntunar eykst stöðugt. Það er því mikilvægt að nemendum verði gert ljóst að menntun er æviverk. Með símenntun er vísað til þess að menntun og þjálfun séu órjúfanlegir þættir starfsferils hvers einstaklings og óhjákvæmileg forsenda fyrir virkri þátttöku hans í lýðræðislegu samfélagi mennta og menningar. Námshvatning, sjálfstæði í vinnubrögðum, gagnrýnin hugsun, frumkvæði og almennur áhugi á þróun þjóðfélagsins eflir skilning nemenda á því að þeir verða að laga sig að breyttum kröfum og nýjum aðstæðum með því að nýta sér fræðslu og þekkingu.

Við skipulagningu skólastarfs er aðlögun að náms- og kennslutækni meðal flóknustu og brýnustu verkefna. Upplýsingatækni hefur skapað nýjar og spennandi forsendur fyrir öflun og miðlun þekkingar. Mikilvægt er að finna skynsamlegar og árangursríkar leiðir til að nýta þessa tækni sem best í þágu nemenda. Skólar skulu stefna að því að gera upplýsingatækni að verkfæri í öllum námsgreinum. Jafnframt þarf að búa nemendur undir það að nýta sér tæknina og laga sig að breytingum á henni síðar á ævinni. Kennsluaðferðir þurfa að taka mið af breyttu umhverfi og breyttum áherslum á hverjum tíma. Góðir kennsluhættir vekja áhuga nemenda til náms en gera þá ekki að óvirkum þiggjendum. Kennsluhættir mega ekki vera einhæfir og samræmi verður að vera á milli þeirra og skólastefnunnar sem skólinn leitast við að framfylgja. Sjálfstraust nemenda verður ekki eflt nema með hæfilegri ögrun. Kynnist þeir ekki ögrun sem felst í samkeppni og námsaga býr skólinn þá ekki nægilega vel undir kröfur daglegs lífs og vinnumarkaðarins.

Miklu máli skiptir að allir nemendur fái tækifæri til að leggja stund á það nám sem hentar áhuga þeirra, getu og framtíðaráformum. Brottfall nemenda úr námi hefur verið tiltölulega mikið hér á landi miðað við það sem gerist og gengur í nágrannalöndum okkar. Skólar skulu því leitast við að draga úr brottfallinu m.a. með skýrari námskröfum til nemenda, aukinni upplýsingamiðlun um námskröfur og störf og fjölbreyttara námsframboði, ekki síst starfsnáms.

Sjálfræðisaldur nemenda er nú 18 ár. Í þessu sambandi er því mikilvægt að foreldrar eða forráðamenn nemenda, sem eru yngri en 18 ára, fái sem gleggstar upplýsingar um skólastarfið þannig að þeir eigi þess kost að fylgjast með námsgengi barna sinna og öðlist þannig tækifæri til að stuðla að farsælli skólagöngu þeirra.

Skil milli almennrar menntunar og starfsmenntunar verða stöðugt óljósari. Hefðbundin starfsmenntun verður fræðilegri og fræðileg menntun nýtist sífellt meira á hagnýtan hátt. Bóknám og verknám ber að þróa samhliða en ekki sem andstæður. Leiðum starfsnámsnemenda inn í skóla á háskólastigi mun fjölga jafnframt því sem kröfur til þeirra verða skilgreindar með skýrari hætti.

Skólar skulu stuðla að þessari þróun með uppbyggingu styttri námsbrauta í samráði við starfsgreinaráð. Fjölgun starfsnámsbrauta stuðlar að auknum samskiptum skóla og atvinnulífs og samstarf þessara aðila við mótun námskrafna bætir samskipti þeirra.

Á síðustu árum hefur verið unnið að því að auka og efla samvinnu skóla, einkum í dreifbýli. Markmið samstarfsins er að nýta það besta sem hver skóli hefur upp á að bjóða og stuðla að hagkvæmu framboði náms á viðkomandi svæði. Fjarkennsla skapar auknar forsendur fyrir slíku samstarfi skóla. Fjarkennsla rýfur ekki aðeins landfræðilega einangrun heldur gefur hún kost á sveigjanleika í menntun sem erfitt er að koma við í hefðbundnu skólastarfi. Fjarkennsla eykur möguleika dreifbýlisins til að bjóða upp á sérhæfða námsáfanga og gerir þeim jafnvel kleift að nýta sér aðgang að þekkingu í öðrum löndum á markvissan hátt. Samvinna skóla af þessu tagi gerir það mögulegt að nýta betur námsframboð í landinu. Þetta þýðir að litið er á námstilboð framhaldsskólans sem eina heild. Nemandi í einum skóla getur því lagt stund á nám í öðrum skóla ef námsáfangi, sem hann óskar að leggja stund á, er ekki í boði í viðkomandi skóla.

Ein mikilvæg forsenda þess að skólar geti unnið markvisst að settum markmiðum og í samræmi við gildandi skólastefnu er virk gæðastjórnun innan hvers skóla. Skýr markmið og mat á þeim leiðum, sem skólinn velur að fara í stjórnun og kennslu, eru mikilvægir þættir í gæðastjórnun hvers skóla. Það eru einkum fjögur tæki sem skólar hafa yfir að ráða í þessu tilliti: aðalnámskrá, skólanámskrá, námsmat og sjálfsmatskerfi.

Öllum skólum er skylt að taka upp formlegt sjálfsmat. Tilgangur sjálfsmatsins er að leggja grunn að sívirku umbótastarfi í hverjum skóla. Skólum er frjálst að innleiða þær sjálfsmatsaðferðir sem þeir telja henta starfseminni svo fremi sem um viðurkenndar sjálfsmatsaðferðir er að ræða. Gerð er sú krafa til sjálfsmats að það sé formlegt, að fyrir liggi lýsing á aðferðinni, að matið nái til allra þátta skólastarfsins og að það sé byggt á markvissri upplýsingaöflun um skólahaldið.
 
 

UPPBYGGING NÁMS – NÁMSLEIÐIR

Forsendur

Í lögum um framhaldsskóla segir að innihald og uppbygging náms skuli miðast við lokatakmark viðkomandi námsbrautar sem þýðir að innihald og lengd námsbrauta tekur mið af þeim markmiðum sem liggja brautinni til grundvallar. Námsbrautir framhaldsskólans eru því fjölbreytilegri og sérhæfðari en verið hefur bæði hvað varðar innihald og lengd náms. Lengd námsbrauta getur þannig verið frá einni önn upp í fjögur ár og áherslur bæði fræðilegar og hagnýtar, allt eftir markmiðum námsins.

Nemendur, sem eru að hefja framhaldsskólanám, eru ólíkir hvað varðar undirbúning, þroska, áhugamál og námsgetu. Námsskipulag framhaldsskólans miðast m.a. við þessar ólíku þarfir og leitast verður við að tryggja að hver einstaklingur finni nám við hæfi og að hann geti ráðið námshraða sínum að svo miklu leyti sem við verður komið.

Flestir framhaldsskólar starfa eftir svonefndu áfangakerfi sem leyfir tiltölulega mikinn sveigjanleika hvað varðar tilhögun náms en nokkrir skólanna starfa eftir bekkjarkerfi þar sem kennslutilhögun er í fastara formi og sveigjanleiki ekki eins mikill. Nemendur eiga því val milli þessara tveggja kerfa en mismunandi er hvað nemendum hentar í þessu efni. Í báðum tilvikum er lögð er áhersla á að námið verði samfellt, markvisst og hæfilega sérhæft.

Með því að auka hlut sérgreina og kjörsviðs verður sérnám hærra hlutfall af námi til lokaprófs. Nemendur hljóta haldgóða almenna menntun í íslensku, erlendum tungumálum og hagnýtingu upplýsingatækni í öllum greinum. Með þessum áherslubreytingum er stefnt að því að gera undirbúning nemenda til áframhaldandi náms betri og markvissari.

Þekking, sem aflað hefur verið utan hins hefðbundna menntakerfis, verður í auknum mæli metin jafngild námi á framhaldsskólastigi. Þetta verður t.d. gert með fjölgun stöðuprófa og víðtækum rétti nemenda til að þreyta þau. Þannig gefst nemendum kostur á að sanna hæfni sína í einstökum greinum eða á tilteknum starfssviðum og flýta fyrir sér í námi ef þeir standast settar kröfur.

Námsefni framhaldsskóla er skipt í áfanga og er hver áfangi hæfilegur til kennslu í eina önn. Markmið og innihald hvers áfanga er skilgreint í aðalnámskrá. Hver áfangi gefur tiltekinn fjölda eininga miðað við að honum hafi verið lokið með fullnægjandi árangri. Einingafjöldi áfanga er skilgreindur í aðalnámskrá. Miðað er við að nemandi í fullu námi ljúki 18 einingum á önn eða því sem næst.
 

Námsskipan

Fyrirkomulag náms og kennslu á framhaldsskólastigi getur verið breytilegt eftir skólum. Flestir starfa eftir áfangakerfi en aðrir eftir bekkjarkerfi. Allir skólar starfa þó samkvæmt sömu námskrá, aðalnámskrá framhaldsskóla. Námið er skipulagt eftir námsbrautum og í brautarlýsingu er kveðið á um markmið og inntak námsins.

Í námskránni er námsefni skipt upp í áfanga þannig að hver áfangi henti til kennslu í eina önn og fá nemendur tiltekinn fjölda eininga fyrir hvern áfanga sem þeir ljúka með fullnægjandi árangri. Áfangar eru merktir eftir ákveðnu kerfi með þremur bókstöfum og þriggja stafa tölu. Fyrsta talan segir til um hvar í röðinni áfangi er innan námsgreinar, önnur talan greinir að áfanga með sama undanfara og þriðja talan tilgreinir einingafjölda áfangans.

Í skólum, sem starfa eftir áfangakerfi, mynda þeir nemendur sem leggja stund á sama áfanga, námshóp eða hópa en í skólum sem starfa eftir bekkjarkerfi er hverjum árgangi skipt í bekki og leggja allir nemendur sama bekkjar stund á sama nám í öllum greinum að valgreinum undanskildum.

Skólaárinu er skipt í tvær annir, haustönn og vorönn, og eru þær um það bil jafnlangar. Í skólum, sem starfa eftir áfangakerfi, er hægt að hefja nám og ljúka námi á hvorri önninni sem er.

Skólar, sem starfa eftir áfangakerfi, skipuleggja starfið til einnar annar í senn en bekkjarskólar til eins árs í senn. Í skólum, sem starfa eftir bekkjarkerfi, er fyrsta námsárið yfirleitt sameiginlegt fyrir alla og í flestum tilvikum er aðeins val milli frönsku og þýsku sem þriðja tungumáls.

Í greinanámskrám eru flestir áfangar skilgreindir sem þriggja eininga áfangar. Skólum er þó heimilt að fengnu samþykki menntamálaráðuneytisins að skipuleggja námið með öðrum hætti ef þess er gætt að markmið námsins breytist ekki.
 

Námsbrautir

Bóknám til stúdentsprófs

Bóknámsbrautir til stúdentsprófs eru þrjár og skiptist námið í kjarna, kjörsvið og frjálst val. Nám í kjarna er að mestu leyti sameiginlegt fyrir brautirnar þrjár og í flestum tilvikum er aðeins skilgreind ein útgáfa af hverjum áfanga í námskránni. Þó eru skilgreindir sérstakir áfangar í stærðfræði fyrir málabraut og félagsfræðabraut og geta skólar því boðið nemendum á þessum brautum kennslu í samræmi við markmið námsins ef þeir kjósa svo og hafa aðstöðu til þess. Að öðru leyti er það ákvörðun einstakra skóla hvort áherslur í kennslu verða að einhverju leyti breytilegar eftir brautum.

Skipulag kjarna á bóknámsbrautum er sem hér greinir:
 
Námsgrein 
Málabraut
Náttúrufræðibraut
Félagsfræðabraut
Íslenska 
15
15
15
Stærðfræði 
6
15
6
Danska/norska/sænska
9
6
6
Enska
15
9
12
Þriðja mál
15
12
12
Fjórða mál
9
   
Félagsfræði
3
3
6
Landafræði    
3
Saga
6
6
9
Samfélagsgreinar skv. ákvörðun skóla    
9
Náttúruvísindi
9
9
9
Eðlisfræði  
3
 
Efnafræði  
3
 
Jarðfræði  
3
 
Líffræði  
3
 
Íþróttir
8
8
8
Lífsleikni
3
3
3
Samtals
98
98
98
 
Nám á kjörsviði nemur samtals 30 einingum. Kjörsviðið felur í sér sérhæfingu á viðkomandi námssviði í samræmi við lokamarkmið brautarinnar. Fyrir hverja braut eru skilgreindar nokkrar námsgreinar sem nemandinn getur valið. Nemandinn velur a.m.k. þrjár greinar á viðkomandi kjörsviði og teljast þær vera kjörsviðsgreinar hans. Hann getur þannig bætt við sig námi í grein/greinum sem hann hefur tekið í kjarna eða tekið nýja grein eða greinar. Samanlagt nám í kjörsviðsgrein í brautarkjarna og á kjörsviði má þó aldrei vera minna en 9 ein. í hverri grein.

Auk þess getur nemandi tekið allt að 12 ein. nám á kjörsviðum annarra brauta en þeirrar sem hann stundar nám á. Þannig getur t.d. nemandi á náttúrufræðibraut tekið allt að 12 ein. á kjörsviði málabrautar eða kjörsviði félagsfræðabrautar. Reglan um 9 ein. lágmark í grein gildir einnig í þessu tilviki.

Skólar geta skipulagt kjörsvið að eigin vild innan þess ramma sem hér er tilgreindur og þeim er ekki skylt að bjóða fram allar greinar sem taldar eru á hverju kjörsviði. Í þessu felst að skóli getur ákveðið kjörsviðsgreinar og fjölda áfanga í hverri grein.
 
Kjörsviðsgreinar námsbrauta eru þessar:
 
Málabraut
Náttúrufræðibraut
Félagsfræðabraut
Danska/norska/ 
sænska Enska Franska 
Íslenska 
Latína 
Spænska 
Stærðfræði 
Þýska 
Tungumál skv. vali skóla
Eðlisfræði 
Efnafræði 
Jarðfræði 
Landafræði 
Líffræði 
Stærðfræði 
Tölvufræði
Félagsfræði 
Fjölmiðlafræði 
Íslenska 
Landafræði 
Rekstrarhagfræði 
Saga 
Sálarfræði 
Stærðfræði 
Uppeldisfræði 
Þjóðhagfræði
 
Starfsnám og viðurkennt listnám á framhaldsskólastigi má meta til kjörsviðs á bóknámsbrautum. Slíkt nám getur komið í stað allt að 12 eininga á kjörsviði auk þess sem nemandi getur nýtt frjálsa valnámið í sama tilgangi. Nemandi getur því fengið allt að 24 einingar metnar á þennan hátt sem hluta af námi til stúdentsprófs.

Starfsnám, sem kemur til álita í þessu skyni, er nám á framhaldsskólastigi sem nemandi hefur lokið með fullnægjandi árangri og á sér eðlilegt framhald í sérskólum eða í skólum á háskólastigi.

Listnám, sem meta má til kjörsviðs, er nám á framhaldsskólastigi skv. námskrá eða hliðstætt nám við sérskóla. Í báðum tilvikum er miðað við að nemandi hafi lokið náminu með fullnægjandi árangri.

Nám í frjálsu vali nemur alls 12 einingum. Frjálst val gefur nemanda möguleika á að kynna sér greinar sem ekki tilheyra því námssviði sem hann hefur valið sér. Einnig getur nemandi notað frjálsa valið til að bæta við kjörsvið sitt. Bjóði viðkomandi skóli ekki upp á þær greinar sem nemandi óskar sérstaklega að taka er sá möguleiki fyrir hendi að taka þær við annan skóla, t.d. í fjarnámi.
 

Listnám

Listnámsbraut er skilgreind sem þriggja ára námsbraut og veitir hún m.a. undirbúning til frekara náms í listgreinum í sérskólum eða skólum á háskólastigi. Unnt er að velja um fjórar listgreinar, þ.e. dans, hönnun, myndlist og tónlist. Á sviði hönnunar verða skilgreind kjörsviðin margmiðlunarhönnun, almenn hönnun og handverkshönnun.

Skipulag kjarna á listnámsbraut er sem hér greinir:
 
Námsgrein
Listnámsbraut
Íslenska
9
Stærðfræði
3
Danska/norska/sænska
6
Enska
6
Félagsfræði
3
Saga
3
Náttúruvísindi
3
Listgreinar
9
Íþróttir
6
Lífsleikni
3
Samtals 
51
 
Nám á kjörsviði nemur 45 einingum og getur nemandi valið milli ólíkra listgreina, sbr. það sem áður er sagt. Námið fer annaðhvort fram í viðkomandi framhaldsskóla eða viðurkenndum listaskóla. Nemendur, sem þess óska, geta bætt við sig námi í bóklegum greinum og aflað sér almennra réttinda til náms á háskólastigi.

Nám í frjálsu vali er samtals 9 einingar. Um þetta nám gildir það sama og áður er sagt um frjálst val á bóknámsbrautum.

Nemendur, sem þess óska, geta bætt við sig námi í völdum greinum ef þeir óska að ljúka stúdentsprófi og öðlast rétt til náms á háskólastigi í tilteknum greinum eða á tilteknu sviði. Viðbótarnám til stúdentsprófs ræðst af inntökukröfum sem settar eru í því háskólanámi sem nemandinn stefnir að og öðrum markmiðum sem hann setur sér.
 

Starfsnám

Starfsnám er mjög fjölbreytt og breytilegt að því er varðar skipulag, umfang og inntak. Námið er verklegt og bóklegt og fer yfirleitt fram í skóla og á vinnustað. Hlutfallið milli verknáms og bóknáms er breytilegt eftir námsbrautum. Sama má segja um vægi náms í skóla og á vinnustað. Dæmi er um starfsnám sem tekur aðeins eina önn en annað tekur fjögur ár eða jafnvel lengri tíma.

Í grófum dráttum má skipta starfsnámi í tvo flokka. Í fyrsta lagi er nám sem leiðir til lögverndaðra starfsréttinda. Þetta gildir t.d. um nám á heilbrigðissviði og iðnnám. Í öðru lagi er um að ræða nám sem veitir undirbúning til skilgreindra starfa án þess að um sé að ræða lögvernduð starfsréttindi.

Um þessar mundir er unnið að endurskoðun á skipulagi og framboði starfsnáms, skv. ákvæðum laga nr. 80/1996, þannig að það sem sagt er hér á eftir miðast að mestu við núverandi skipan námsins. Nýjar og breyttar námskrár verða kynntar og gefnar úr jafnóðum og þær eru tilbúnar.

Nám í löggiltum iðngreinum

Þeir sem óska að leggja stund á nám í löggiltum iðngreinum hafa um þrjár leiðir að velja. Þeir geta

Þegar nemendur hafa lokið námi í skóla og námssamningi hjá iðnmeistara gangast þeir undir sveinspróf og standist þeir prófið hafa þeir rétt til starfa í viðkomandi iðngrein.

Að loknu sveinsprófi eiga nemendur kost á að fara í meistaraskóla og ljúka þaðan prófi sem veitir þeim rétt til að taka að sér stærri verk, starfa sem verktakar og hafa nemendur á námssamningi.
 

Annað starfsnám

Þeir sem óska að leggja stund á annað starfsnám þurfa að innritast í skóla þar sem viðkomandi nám er í boði. Námið fer að mestum hluta fram í skólanum en auk þess er starfsþjálfun á vinnustað oftast hluti námsins. Nemendur geta innritast í sumt starfsnám strax að loknu námi í grunnskóla en í öðrum tilvikum þarf nemandinn að ljúka tilteknu almennu námi í framhaldsskóla áður en hann getur innritast í viðkomandi starfsnám. Nánari upplýsingar er að finna í námskrá fyrir námið.

Í námskrám fyrir einstakar starfsnámsbrautir verður skilgreint viðbótarnám sem undirbýr nemendur undir framhaldsnám í sérskólum eða á háskólastigi á sama eða skyldu námssviði og þeir hafa stundað nám á.
 

Almenn námsbraut

Nemendur, sem ekki hafa gert upp hug sinn varðandi áframhaldandi nám í framhaldsskóla, og nemendur, sem lokið hafa grunnskólaprófi en uppfylla ekki skilyrði til inngöngu á lengri námsbrautir framhaldsskólans, geta innritast á almenna námsbraut. Markmið námsins er að veita góða undirstöðu í kjarnagreinum og jafnframt að gefa nemendum tækifæri til að glíma við fjölbreytileg viðfangsefni í list- og verknámi. Námið getur tekið eitt til tvö ár og miðast við þarfir viðkomandi nemenda og möguleika viðkomandi skóla til að koma til móts við þær þarfir. Í námskránni verður þetta nám ekki skilgreint sérstaklega heldur hverjum skóla fyrir sig gert að skipuleggja það og skilgreina í skólanámskrá. Framhaldsskólar geta því markað sér sérstöðu með framboði sínu á námi á almennri námsbraut. Æskilegt er að þeim nemendum, sem hér eiga hlut að máli, standi til boða góð náms- og starfsráðgjöf. Ekki verða skilgreind sérstök inntökuskilyrði í það nám sem hér um ræðir. Skólameistari ber ábyrgð á innritun í námið svo og brautskráningu nemenda.

Sem dæmi um mismunandi þarfir nemenda verða nefnd hér þrjú dæmi.

 

Nám fyrir fatlaða nemendur

Kennsla fatlaðra nemenda byggist á rökstuddri námsáætlun fyrir nemendahóp eða einstakling. Námsáætlunin skal byggð á meginmarkmiðum aðalnámskrár framhaldsskóla og upplýsingum um þarfir nemenda og mati á stöðu þeirra í námi og þroska. Tilgreind skulu langtíma- og skammtímamarkmið með kennslunni.

Fatlaðir nemendur skulu stunda nám með öðrum nemendum skóla eftir því sem tök eru á.

Heimilt er að setja á fót sérdeildir (námsbrautir) fyrir þroskahefta nemendur. Þess skal þó gætt að þeir einangrist ekki heldur skal leitast við að tryggja eðlilegan samgang milli allra nemenda. Miðað er við að nemendum í sérdeildum standi til boða eins til fjögurra ára nám.
 

Nám fyrir nemendur með takmarkaða kunnáttu í íslensku

Nemendur, sem hafa annað móðurmál en íslensku, og íslenskir nemendur, sem hafa dvalið lengi erlendis og hafa þar af leiðandi takmarkaða kunnáttu í málinu, geta sótt um að stunda nám í íslensku samkvæmt sérstakri námskrá sem ætluð er þessum nemendum. Sama gildir um heyrnarlausa nemendur.

Hafi viðkomandi nemandi dvalið utan Norðurlanda þá getur hann sótt um að taka annað tungumál í staðinn fyrir Norðurlandamál.

 
 

UM STOFNUN OG REKSTUR NÁMSBRAUTA VIÐ FRAMHALDSSKÓLA

Skóli, sem óskar að hefja rekstur námsbrautar sem ekki hefur áður verið starfrækt við skólann eða koma á fót nýrri námsbraut sem ekki er skilgreind í námskrá, skal haga undirbúningi eins og hér greinir eftir því sem við á. Stofnun nýrra námsbrauta er háð samþykki menntamálaráðherra.

Óski skóli að bjóða fram nám sem skilgreint er í aðalnámskrá framhaldsskóla og hann hefur ekki starfrækt áður skal hann senda menntamálaráðuneytinu umsókn þar sem farið er fram á heimild til að starfrækja námið. Í umsókninni skal gerð grein fyrir því hvers vegna óskað er eftir því að hefja starfrækslu viðkomandi námsbrautar, hver þörfin er fyrir námið í þeim landshluta þar sem skólinn starfar, hver eftirspurnin er eftir náminu og hvaða aðstöðu skólinn hefur til að bjóða námið fram. Sé um starfsnám að ræða skal haft samráð við aðila atvinnulífs í viðkomandi landshluta.

Tillaga að stofnun nýrrar námsbrautar skal send menntamálaráðuneytinu. Í umsókn skal gerð grein fyrir tilgangi og meginmarkmiðum brautarinnar, helstu hugmyndum um inntak námsins, tengslum við aðrar brautir, námsskipan, lengd námsins og stöðu nemanda að loknu námi hvað varðar réttindi til starfa eða möguleika til áframhaldandi náms. Náminu skal skipt í brautarkjarna, kjörsvið og frjálst val, eftir því sem við á. Þá skal gerð grein fyrir ástæðum þess að farið er fram á stofnun brautarinnar og hver sé væntanlegur starfs- og rekstrargrundvöllur, þ.e. hver þörfin sé fyrir umrætt nám, áætluð eftirspurn eftir náminu, heppileg hópastærð í kennslu og hvaða aðstaða þurfi að vera fyrir hendi í viðkomandi skóla.

Æskilegt er að fram komi upplýsingar um samráðs- og samstarfsaðila á undirbúningsstigi málsins, hverjir þeir voru, hvernig samstarfinu var háttað og niðurstöður þess.

Með umsókn um stofnun og rekstur námsbrauta skal leggja fram sundurliðaða áætlun um stofn- og rekstrarkostnað.
 
 

INNTÖKUSKILYRÐI

Inntökuskilyrði fela í sér að nemandi þarf að hafa náð tilteknum lágmarksárangri í vissum greinum til að geta innritast á námsbrautir framhaldsskóla aðrar en almenna braut. Við ákvörðun inntökuskilyrða er tekið tillit til námsárangurs bæði á samræmdum prófum og skólaprófum. Miðað er við að einkunnir á samræmdum prófum verði í þessum tilgangi umreiknaðar í staðaleinkunnir, þannig að einkunn nemandans sýni stöðu hans gagnvart öðrum nemendum. Við mat á umsóknum verður miðað við svokallaða viðmiðunareinkunn í einstökum greinum, sem er meðaltal staðaleinkunnar á samræmdu prófi og skólaeinkunnar.

Á þessum forsendum eru sett eftirfarandi inntökuskilyrði:

 

SKÓLANÁMSKRÁ

Hlutverk skólanámskrár

Samkvæmt 22. gr. laga nr. 80/1996 um framhaldsskóla er hverjum skóla skylt að gefa út skólanámskrá. Hún á að lýsa skólastarfi hvers skóla, sérkennum hans og sérstöðu. Þar skal gerð grein fyrir námsframboði, lengd og inntaki námsbrauta og skiptingu námsgreina á námsannir eða námsár.

Í skólanámskrá útfærir skólinn nánar ýmis almenn og fagbundin markmið aðalnámskrár og birtir verklagsreglur skólans. Í skólanámskrá skulu einnig birtar samskipta- og siðareglur skólans; þar á meðal annars að birta reglur um samskipti starfsmanna við aðila utan hans. Einnig skal kveðið á um hvernig tekið skuli á einstökum málum sem upp koma.

Skólanámskrá er í senn stefnuskrá skólans og starfsáætlun. Hún er unnin af starfsmönnum skólans undir stjórn skólameistara og er því bindandi fyrir starfsmenn skólans.
 

Inntak skólanámskrár

Í skólanámskrá skulu skólar gera grein fyrir því með hvaða hætti þeir hyggist gegna hlutverki sínu samkvæmt 2. gr. laga um framhaldsskóla, þ.e.a.s. hvernig þeir ætli að „stuðla að alhliða þroska allra nemenda svo að þeir verði sem best búnir undir að taka virkan þátt í lýðræðisþjóðfélagi", sbr. einnig 2. kafla. Þar skal einnig gerð grein fyrir áherslum í starfi skólans, kennsluháttum, námsmati og stjórnunarháttum, náms- og starfsráðgjöf, svo og gæðastjórnun.

Í skólanámskrá skulu settar fram meginhugmyndir og viðmið við val kennslu- og námsmatsaðferða og skipulagshátta, val námsefnis o.fl.

Við gerð skólanámskrár skal einnig tekið mið af lögum, reglugerðum og reglum eftir því sem efni standa til og nauðsyn krefur, meðal annars um jafnan rétt allra til náms.

Í skólanámskrá skal einnig fjallað um stuðning við fatlaða nemendur og þroskahefta.

Í skólanámskrá skal m.a. fjallað um eftirtalin atriði:

Auk þess skulu birtar í skólanámskrá upplýsingar um ýmsa aðra veigamikla þætti skólastarfsins, s.s. skóladagatal, samskipti heimila og skóla, félagslíf, heilsugæslu, aðbúnað og aðstöðu, samskipti við aðra skóla hérlendis og erlendis og samstarf við aðila á vinnumarkaði eftir því sem við á. Skólar skulu leitast við að koma upplýsingum um nám og skólastarf á framfæri með aðgengilegum hætti, t.d. með birtingu upplýsinga á heimasíðu.
 
 

UM RÉTTINDI OG SKYLDUR SKÓLA OG NEMENDA

Innritun nemenda og þjónusta

Nemandi og forráðamaður hans undirrita umsókn um skólavist ef nemandi er yngri en 18 ára. Eldri nemendur undirrita umsóknir sínar einir. Undirritun umsóknar er staðfesting þess að nemandinn hafi kynnt sér námsfyrirkomulag skólans og muni virða reglur hans um hegðun, ástundun og skólasókn. Skólinn tilkynnir nemandanum eins fljótt og verða má hvort hann fær skólavist eða ekki. Fái nemandi jákvætt svar er greiðsla innritunargjalds endanleg staðfesting á því að hann muni þiggja skólavist og hlíta reglum skólans.

Þjónusta, sem nemendum stendur til boða, auk kennslu, án sérstaks endurgjalds, er eftirfarandi: a) aðgangur að bókasafni og þjónustu bókasafns- og upplýsingafræðinga, b) þjónusta námsráðgjafa, c) aðstoð og þjónusta umsjónarkennara, d) skólanámskrá og kennsluáætlanir, stundatafla, fjarvistayfirlit og námsferill, e) aðgangur að lesstofu og tölvuveri.
 

Skólasókn

Nemendur skulu sækja allar kennslustundir og koma stundvíslega til kennslu. Í skólanámskrá skal gerð grein fyrir þeim reglum sem gilda um frávik frá skólasókn. Þar skal m.a. koma fram hvernig veikindi nemenda og önnur óhjákvæmileg forföll eru meðhöndluð. Sömuleiðis skal gerð grein fyrir viðurlögum við brotum á skólasóknarreglum.

Fjarvera vegna staðfestra veikinda og/eða læknismeðferðar nemanda útilokar hann ekki frá því að ganga undir próf í lok námsannar eða skólaárs. Leitast skal við að finna viðunandi leið að námslokum fyrir langveika nemendur.

Nemendum skal gefin einkunn fyrir skólasókn. Skólasókn skal ekki metin til eininga.
 

Skráning nemenda í próf og brottfall frá námi

Um leið og nemandi skráir sig í áfanga/bekk samþykkir hann þá tilhögun námsmats sem námsgreininni fylgir og birt er í kennsluáætlun/skólanámskrá. Skólar auglýsa frest til breytinga á skráningu og stundatöflum í byrjun annar eða námsárs. Nemandi, sem hyggst hætta í áfanga eða segir sig úr skóla eftir að frestur til töflubreytinga er liðinn, skal tilkynna skólanum það skriflega og er hann þá skráður hættur. Skólar skulu leitast við að birta próftöflur áður en frestur til breytinga á stundatöflum rennur út. Greinarmunur er gerður á skráningu þeirra sem hætta fyrir tilskilinn tíma og hinna sem koma ekki til prófs, uppfylla ekki kröfur símats eða standast ekki prófkröfur. Skólameistari getur veitt undanþágu frá þessum ákvæðum ef aðstæður nemanda breytast, t.d. vegna langvarandi veikinda, slysfara eða vegna dauðsfalla í fjölskyldunni.
 

Kennsluáætlanir

Við upphaf kennslu skulu nemendur fá skriflegar upplýsingar frá kennara um námsmarkmið viðkomandi námsáfanga, lista yfir námsgögn og kennsluáætlun. Við upphaf áfangans skal kynna nemendum tilhögun námsmats og reglur um framkvæmd þess, komi slíkt ekki fram í skólanámskrá. Hið sama á við um vægi verklegra þátta, ritgerða, munnlegs prófs o.s.frv. í lokaeinkunn. Gera skal sérstaka grein fyrir því með hvaða hætti tekið er tillit til nemenda með sérþarfir.
 

Reglur um námsframvindu

Eftirfarandi reglur eru til hliðsjónar við skipulag og starfshætti framhaldsskóla. Skólastjórnendur útfæra nánar framkvæmd reglnanna í skólanámskrám.

Gert er ráð fyrir því að aðstæður nemanda séu þannig að hann geti lokið námi á námsbraut á eðlilegum námshraða og innan þeirra tímamarka sem skilgreind eru fyrir hverja námsbraut.
 

Áfangaskólar

 

Bekkjarskólar

Til þess að standast próf í einstökum námsgreinum þarf nemandi að fullnægja eftirtöldum skilyrðum: Til þess að geta flust án frekari skilyrða á milli námsára þarf nemandi að fullnægja lágmarksskilyrðum um lokaeinkunn, þ.e. 4,0, og aðaleinkunn þarf að vera 5,0 eða hærri.

Nemandi í bekkjarskóla, sem hefur aðaleinkunn 5,0 eða hærri í lok skólaárs en hefur hlotið lokaeinkunn undir lágmarki í tveimur greinum, þ.e. undir 4,0, hefur heimild til þess að þreyta endurtökupróf í námsefni vetrarins við lok skólaárs. Nemandi telst hafa staðist endurtökupróf ef lokaeinkunn hans í námsgreininni er að lágmarki 4,0 og hefur þá öðlast rétt til þess að flytjast milli námsára. Ef nemandi er með þrjár lokaeinkunnir eða fleiri undir 4,0 telst hann fallinn á skólaárinu.

Nú fellur nemandi á öðru endurtökuprófinu, þá er heimilt að flytja hann milli bekkja einu sinni á námsferlinum ef einkunn hans er ekki lægri er 2 og námsgreinin ekki aðalgrein á námsbraut hans samkvæmt skilgreiningu viðkomandi skóla.

Ef skólar kjósa að halda yfirlitspróf/stúdentspróf þá gildir eftirfarandi:

Nemandi telst hafa lokið stúdentsprófi þegar hann hefur gengist undir lokapróf í öllum námsgreinum sínum og fullnægt eftirfarandi lágmarkskröfum um einkunnir:

Nemandi telst hafa lokið stúdentsprófi þótt tvær prófseinkunnir séu undir ofangreindu lágmarki en þó ekki lægri en 2.

Ef fall í einni námsgrein í bekkjarskóla kemur í veg fyrir að nemandi geti útskrifast með lokapróf skal leyfa honum að taka upp próf í þeirri námsgrein í lok skólaársins.
 
 

Ársáfangakerfi (bundið áfangakerfi)

Skólar, sem ekki telja hagkvæmt að skipuleggja skólastarfið eftir áfangakerfi eða bekkjarkerfi eins og hér hefur verið lýst, geta hagað starfseminni með öðrum hætti, t.d. eftir ársáfangakerfi (bundnu áfangakerfi). Námsefninu er þá skipt niður í áfanga en nemendur fylgjast samt að í bekkjum og skólaárið skiptist í tvö kennslutímabil með námsmati í lokin.

Skólar, sem skipuleggja starfsemi sína með þessum hætti, skulu leita staðfestingar ráðuneytisins á skipulaginu.
 

Metið nám úr öðrum skólum

Þegar nemandi flyst á milli skóla sem starfa skv. aðalnámskrá framhaldsskóla og skráir sig þar á tiltekna námsbraut halda þeir áfangar gildi sínu sem hann hefur lokið með fullnægjandi árangri svo framarlega sem þeir eru skilgreindur hluti af þeirri braut sem hann innritast á. Áfanga, sem kunna að falla utan brautarinnar, má meta sem valgreinar að því marki sem nemur valgreinakvóta viðkomandi brautar.

Staða nemenda, sem hér eiga hlut að máli, breytist ekki við það að þeir flytjist á milli skóla hvað varðar fjölda staðinna áfanga og fjölda eininga sem þeir hafa áunnið sér. Viðtökuskóli skal því virða sérreglur þess skóla sem nemandinn kemur frá í atriðum sem kunna að hafa áhrif á einingastöðu nemandans. Nám úr öðrum skólum er metið með einkunn, þ.e.a.s. einkunn flyst með nemandanum.

Heimilt er að láta þess getið á prófskírteini ef nám er metið úr öðrum skóla.

Hafi nemandi stundað nám við skóla sem ekki starfar samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla ber skólameistari ábyrgð á því að hve miklu leyti námið verður metið inn á nýja námsbraut. Við matið skal ekki leita eftir því að fyrra nám sé nákvæmlega það sama og skilgreint er í námskrá heldur skal leggja áherslu á að athuga hvort ekki sé hægt að meta námið sem jafngilt og hvort nemandinn hafi forsendur til að ljúka náminu. Leiki vafi á hvernig rétt sé að meta nám er rétt að láta nemandann njóta vafans eða vísa honum á að fara í stöðupróf. Þá er vakin athygli á að list- eða starfsnám má meta til kjörsviðs á bóknámsbrautum, sbr. bls. 24.

Nemandi, sem stundar umfangsmikla líkamsþjálfun á vegum sérsambands og/eða íþróttafélags, undir stjórn sérmenntaðs þjálfara, íþróttafræðings eða kennara samhliða námi í framhaldsskóla, getur óskað eftir því að vera undanþeginn vissum áföngum eða áfangahlutum í íþróttum, líkams- og heilsurækt.

Fyrir upphaf skólaárs eða námsannar þarf nemandi að skila til skólans þjálfunaráætlun sem þjálfari viðkomandi sérsambands eða íþróttafélags hefur staðfest. Skólameistari tekur ákvörðun um hvort tilefni sé til eða að hve miklu leyti beri að meta þjálfun íþróttamannsins í námi í viðkomandi áföngum eða áfangahlutum í íþróttakennslu viðkomandi skóla.

Að hámarki geta nemendur fengið eina námseiningu metna, vegna þjálfunar sinnar, fyrir hverja námsönn á meðan þeir eru í námi í framhaldsskóla.
 

Nám utan skóla

Skólameistari getur veitt nemanda heimild til að stunda nám sitt utan skóla. Um utanskólanemendur gilda sömu námskröfur og um aðra nemendur skólans. Utanskólanemendur fá að jafnaði ekki að sækja kennslustundir nema um sé að ræða æfingar sem þeim er skylt að ljúka en þeir skulu standa skil á verkefnum, skýrslum og ritgerðum í samráði við kennara sem málið varðar. Sumar greinar eru þess eðlis að ekki er hægt að stunda nám í þeim utan skóla. Nánari upplýsingar um möguleika til utanskólanáms veitir viðkomandi skóli.
 

Reykingar og vímuefni

Reykingar eru óheimilar í húsnæði og á lóð framhaldsskóla. Einnig er öll meðferð og neysla áfengis og annarra vímuefna stranglega bönnuð í húsakynnum skóla. Framhaldsskólar skulu móta stefnu í áfengis- og vímuefnavörnum og birta í skólanámskrám sínum.
 
 

UM NÁMSMAT OG PRÓF

Tilgangur námsmats er að kanna að hve miklu leyti nemandi hefur tileinkað sér markmið aðalnámskrár (skólanámskrár) í viðkomandi grein. Námsmat getur farið fram með mismunandi hætti eftir ákvörðun skóla. Umfang þess skal þó að jafnaði vera í samræmi við umfang kennslu í viðkomandi grein. Kennarar bera ábyrgð á námsmati og þeir meta úrlausnir nemenda.
 

Próf

Skólar skulu leitast við að leggja fram próftöflu áður en frestur til breytinga á skráningu í áfanga rennur út. Á sama tíma skal auglýsa sjúkrapróf í einstökum námsáföngum.

Vægi spurninga skal koma fram á prófverkefni. Kennari eða staðgengill hans í lögmætum forföllum kennara skal koma á prófstað í skriflegum prófum sem hann stendur fyrir en ef því verður ekki við komið skal vera unnt að ná í hann á meðan á prófi stendur. Ef kennari verður var við almenn vafaatriði hjá nemendum í prófi þá skal hann greiða úr þeim í heyranda hljóði ef aðstæður leyfa. Í skólanámskrám skulu prófreglur útfærðar sérstaklega.

Að loknu prófi skulu nemendur eiga þess kost að skoða prófúrlausnir sínar í viðurvist kennara í síðasta lagi innan þriggja daga frá afhendingu einkunna. Ef fram kemur skekkja í mati eða einkunnagjöf skal slíkt leiðrétt svo fljótt sem verða má og niðurstaðan birt viðkomandi nemanda án tafar.

Menntamálaráðuneytið gefur út staðal fyrir prófskírteini til notkunar í framhaldsskólum.
 

Veikindi í prófi

Nemanda, sem veikist og getur þar af leiðandi ekki þreytt próf, ber að tilkynna um veikindi sín samdægurs til skrifstofu skólans og skila þangað læknisvottorði innan þriggja daga. Veikist nemandi í prófi ber honum að vekja athygli prófgæslumanns sem skrifar athugasemd um það á prófúrlausn nemandans. Skal læknisvottorði dagsettu samdægurs skilað til skrifstofu skólans.

Nemandi, sem hefur orðið fyrir slysi eða veikist á próftímanum, hefur rétt til þess að taka sjúkrapróf enda skili hann læknisvottorði því til staðfestingar. Sækja skal skriflega um sjúkrapróf eftir þeim reglum sem hver skóli setur sér. Sjúkrapróf skulu haldin innan tveggja vikna frá því að próf var haldið. Ef nemandi kemst ekki í sjúkrapróf vegna veikinda eða slysfara hefur hann heimild til þess að þreyta sjúkraprófið síðar. Hafa skal samráð við nemanda um tímasetningu slíks sjúkraprófs.
 

Einkunnagjöf

Einkunnir í framhaldsskólum skulu gefnar í heilum tölum frá 1 til 10 og skal hafa eftirfarandi til hliðsjónar um merkingu þeirra:

Einkunn 10 vísar til þess að 95-100% markmiða var náð
   -     9         -         85-94% markmiða var náð
   -     8         -         75-84% markmiða var náð
   -     7         -         65-74% markmiða var náð
   -     6         -         55-64% markmiða var náð
   -     5         -         45-54% markmiða var náð
   -     4         -         35-44% markmiða var náð
   -     3         -         25-34% markmiða var náð
   -     2         -         15-24% markmiða var náð
   -     1         -          0-14% markmiða var náð
 

Frávik frá prófareglum

Nemendur, sem eiga við að etja fötlun og/eða sértæka námserfiðleika, þurfa ekki aðeins sérstaka aðstoð í námi heldur er oft óhjákvæmilegt að gera sérstakar ráðstafanir varðandi próf og annað námsmat og ber skólum að gera það sem unnt er til þess að koma til móts við þarfir hlutaðeigandi nemenda í þessu efni.

Fatlaðir og langveikir nemendur, nemendur með lesröskun (lestrar- og skriftarörðugleika) og/eða aðra staðfesta skynjunarörðugleika geta sótt um frávik frá hefðbundnu námsmati. Um er m.a. að ræða sérstaka samsetningu prófa, lengri próftíma, sérhönnuð próf, notkun hjálpargagna, aðstoð í prófum, munnleg próf o.fl. Þá ber einnig að hafa í huga aðrar aðferðir við að meta námsárangur þessara nemenda heldur en þær sem almennt eru notaðar í skólum.
 

Stöðupróf

Tilgangur stöðuprófa er að gera viðkomandi kleift að sanna þekkingu sína í tiltekinni grein eða á tilteknu sviði. Með þessum hætti geta nemendur fengið viðurkennda þekkingu og reynslu sem þeir búa yfir og ekki hefur verið aflað með hefðbundnum hætti í skóla og stytt þannig námstíma sinn til lokaprófs. Þeir sem ganga undir stöðupróf greiða sannanlegan kostnað vegna prófanna.

Menntamálaráðuneytið felur framhaldsskólum framkvæmd stöðuprófa. Stöðupróf verða haldin a.m.k. einu sinni á ári í bóklegum og verklegum greinum eftir því sem tilefni er til.
 

Um birtingu einkunna

Meðferð og birtingu einkunna ber að haga í samræmi við lög nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónulegra upplýsinga. Því er skólum óheimilt að birta einkunnir einstakra nemenda undir nafni, kennitölu eða öðru skráningarauðkenni sem hægt er að persónugreina nema fyrir liggi skrifleg heimild viðkomandi nemenda.
 

Varðveisla prófúrlausna

Skólar skulu varðveita allar prófúrlausnir í eitt ár. Að þeim tíma liðnum ber skólameistari ábyrgð á að eyða öllum skriflegum prófúrlausnum. Próftaki getur fengið að sjá prófúrlausn sína ef hann leggur fram beiðni um það innan árs frá því að niðurstöður prófs voru birtar. Einnig getur hann fengið ljósrit af prófúrlausn sinni ef hann óskar þess.

Þeir sem þess óska geta fengið afhent eintök af prófverkefnum skóla — eftir að próf í viðkomandi grein hefur verið þreytt, sbr. upplýsingalög nr. 50/1996.
 
 

SVEINSPRÓF OG NÁMSSAMNINGAR

Um námsmat í sveinsprófum

Um námsmat í sveinsprófum gildir reglugerð nr. 278/1997 um sveinspróf og reglur um uppbyggingu og tilhögun sveinsprófs í hverri löggiltri iðngrein um sig sem menntamálaráðherra setur samkvæmt 2. gr. fyrrgreindrar reglugerðar.

Reglur um styttingu námssamninga

 

UNDANÞÁGUR

Undanþágur frá einstökum námsgreinum eða námsáföngum

Fatlaðir nemendur og nemendur með lesröskun (lestrar- og skriftarörðugleika) og/eða aðra staðfesta skynjunarörðugleika geta sótt um undanþágu til skólameistara frá einstökum námsáföngum enda sé fullreynt að mati skóla að nemandinn geti ekki náð tökum á námsefninu vegna skilgreindra annmarka sem sérfræðingur á viðkomandi sviði hefur staðfest. Nemendur skulu þó taka aðra áfanga í stað þeirra sem þeir fá undanþágu frá.
 

Undanþágur fyrir afreksfólk í íþróttum

Afreksíþróttamaður telst sá sem valinn hefur verið í unglingalandslið eða landslið viðkomandi íþróttagreinar eða sá sem hefur verið valinn til þátttöku og/eða undirbúnings fyrir Norðurlandamót, Evrópumeistaramót, heimsmeistaramót eða Ólympíuleika í sinni íþróttagrein.

Þegar staðfesting á fyrirhugaðri þátttöku nemandans í íþróttaverkefnum liggur fyrir er mælt með því að skólastjórnendur geri sérstakan samning við hann um þær undanþágur sem á þarf að halda, s.s. um skólasókn nemandans, verkefnaskil og próftöku. Viðkomandi sérsamband/landsliðsþjálfari/landsliðsnefnd skal leggja fram staðfesta áætlun um þátttöku íþróttamannsins í íþróttaverkefnum fyrir upphaf skólaárs eða námsannar.

Komið skal til móts við afreksíþróttafólk á þann hátt að fjarvera þess á námstíma, vegna keppnis- og/eða æfingaferða landsliðs í viðkomandi íþróttagrein, reiknast ekki inn í skólasóknareinkunn nemandans. Komið skal til móts við afreksíþróttafólk á þann hátt að fjarvera þess á prófatíma, vegna keppnis- og/eða æfingaferða á vegum landsliðs í viðkomandi íþróttagrein, útiloki ekki nemanda frá því að gangast undir námsmat í lok skólaárs eða námsannar. Leitast skal við að gefa nemandanum tækifæri til að ljúka prófum eða lokaverkefnum eftir því sem við verður komið.
 
 

UM MEÐFERÐ PERSÓNULEGRA UPPLÝSINGA

Meðferð gagna

Gögn í vörslu skóla, sem hafa að geyma persónulegar upplýsingar um nemendur, skal farið með í samræmi við ákvæði laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga og ákvæði upplýsingalaga nr. 59/1996 eftir því sem við á. Vakin er sérstök athygli á því að starfsfólk í framhaldsskóla er bundið trúnaði og óheimilt er að veita persónulegar upplýsingar um nemanda úr skólaskrám án samþykkis þess sem í hlut á og foreldra/forráðamanna ef um er að ræða nemanda yngri en 18 ára.
 

Upplýsingaskylda gagnvart foreldrum/forráðamönnum

Óski foreldrar/forráðamenn nemanda, sem er yngri en 18 ára, eftir upplýsingum frá framhaldsskóla um námsframvindu, skólasókn eða annað sem tengist barni þeirra sérstaklega þá ber skólastjórnendum að veita þær upplýsingar. Skólastjórnendur skulu einnig leitast við að koma á skipulegum tengslum við foreldra/forráðamenn nemenda og kynna þeim m.a. skólareglur, skipulag og markmið skólans.

Þegar nemandi hefur náð sjálfræðisaldri er einungis heimilt að veita honum sjálfum, eða þeim sem nemandinn veitir skriflegt umboð, upplýsingar um eigin hagi úr gagnasafni skólans.
 
 

MEÐFERÐ MÁLA

Leitast skal við að leysa ágreiningsmál innan skóla. Miðað skal við að umsjónarkennarar og námsráðgjafar séu hafðir með í ráðum við lausn ágreiningsmála sem varða skjólstæðinga þeirra. Veita skal nemanda viðvörun áður en til refsingar kemur nema brotið sé þess eðlis að því verði ekki við komið, svo sem brot á almennum hegningarlögum. Áminningar vegna brota á skólareglum eiga að vera skriflegar þar sem fram kemur m.a.: Framhaldsskólar skulu hafa feril máls skráðan þegar ágreiningsmál koma upp innan skólans eða þegar um brot á skólareglum er að ræða. Við meðferð mála skal sérstaklega gæta ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga og upplýsingalaga nr. 50/1996.

Leitast skal við að afgreiða brot á skólareglum með skjótum hætti.
 

Samskipti nemenda og starfsfólks framhaldsskóla

Rísi ágreiningur milli nemenda, kennara og/eða annarra starfsmanna framhaldsskóla og takist hlutaðeigandi ekki að finna lausn á málinu skal því vísað til skólameistara. Uni málsaðilar ekki niðurstöðu skólameistara má vísa málinu til menntamálaráðuneytisins.

Komi fram kvartanir eða kærur vegna samskipta nemanda/nemenda og skólameistara og takist ekki að leysa málið innan skólans skal því vísað til úrlausnar menntamálaráðuneytisins.

Telji nemandi, eða forráðamenn hans sé nemandinn yngri en 18 ára, að brotið hafi verið á rétti nemandans, sbr. skólareglur, þannig að ástæða sé til að bera fram kvörtun skulu þeir snúa sér til viðkomandi kennara, umsjónarkennara eða skólameistara. Takist ekki að leysa málið tekur skólameistari það til umfjöllunar og ákvarðar um viðbrögð.

Með sama hætti skal kennari eða annar starfsmaður skóla, sem telur að brotið hafi verið á rétti sínum með einum eða öðrum hætti, koma kvörtun sinni til skólameistara.
 

Misferli í prófum, ágreiningur um námsmat

Nemanda, sem staðinn er að misferli í prófi, skal vísa frá prófi og getur hann átt von á brottvikningu úr skóla, tímabundið eða til frambúðar, eftir alvarleika brots. Hið sama gildir um misferli þar sem námsmat felst í öðru en skriflegu eða munnlegu prófi.

Komi upp ágreiningur milli nemanda og kennara um mat úrlausnar skal skólameistari kveðja til prófdómara til þess að fara yfir úrlausnina að höfðu samráði við deildarstjóra. Úrskurður prófdómara skal gilda.
 

Brot á reglum um skólasókn

Áður en nemanda er vikið úr einstökum áföngum eða úr skóla vegna lélegrar skólasóknar skal hann hafa fengið skriflega viðvörun frá viðkomandi kennara, umsjónarkennara eða stjórnanda enda hafi verið ljóst að í óefni stefndi. Endanleg brottvikning úr einstökum áföngum eða úr skóla vegna lélegrar skólasóknar er á ábyrgð skólameistara. Skólameistari skal leita umsagnar skólaráðs áður en til brottvikningar kemur.
 

Ágreiningur um námsframvindu

Ágreiningsmál um námsframvindu eða undanþágubeiðnir skulu koma til umfjöllunar í skólaráði. Umsögnum skal komið til skólameistara sem sker úr um slík mál. Uni nemandi ekki þeim úrskurði má vísa málinu til menntamálaráðuneytisins.
 

Málsmeðferð sveinsprófa

Um meðferð ágreiningsmála vegna árangurs í sveinsprófum gildir reglugerð nr. 278/1997 um sveinspróf.
 
 

FULLORÐINSFRÆÐSLA

Framhaldsskólum er heimilt með samþykki menntamálaráðherra að bjóða upp á nám í öldungadeildum, þ.e. almenna og sérhæfða fræðslu fyrir fullorðna sem hentar ekki að sækja reglulega kennslu í dagskóla. Nám í öldungadeildum, sem nemandi lýkur með fullnægjandi árangri, er jafngilt samsvarandi námi sem fram fer á einstökum brautum framhaldsskóla.

Nemandi í öldungadeildarnámi ræður námshraða sínum, þ.e.a.s. hann getur tekið eina grein eða fleiri eða skráð sig til náms á tiltekna námsbraut sem starfrækt er við viðkomandi framhaldsskóla, allt eftir þeim markmiðum sem hann stefnir að. Nemendur í öldungadeild greiða því sem næst þriðjung kennslulauna vegna kennslunnar.

Þeir sem hafa í hyggju að stunda nám í öldungadeild geta fengið upplýsingar um framboð náms og skilyrði til að innritast í námið í viðkomandi skóla.

Nokkrir framhaldsskólar starfrækja endurmenntunarnámskeið eða annars konar nám í samvinnu við faggreinafélög, stéttarfélög, atvinnurekendur eða aðra hagsmuna- eða áhugahópa í viðkomandi landshluta. Hér getur verið um áhugavert og fjölbreytt námstilboð að ræða sem einkum er ætlað þeim sem eru í starfi. Viðkomandi skólar veita nánari upplýsingar um þetta nám.
 
 

LÝSING Á BRAUTUM

Hér fer á eftir lýsing á þeim brautum framhaldsskólans sem skilgreindar eru í þessari útgáfu námskrárinnar.

Bóknámsbrautir, sem lýkur með stúdentsprófi, eru skilgreindar skv. ákvæðum laga um framhaldsskóla nr. 80/1996 og eru þær nokkuð frábrugðnar bóknámsbrautum sem starfræktar hafa verið til þessa.

Skipulag og inntak starfsnáms hefur verið til endurskoðunar á undanförnum árum og hefur í sumum tilvikum tekið umtalsverðum breytingum frá því að námskrá framhaldsskóla kom út 1990. Þessar brautir eru hér birtar í því formi sem þær eru nú í en vænta má einhverra breytinga á þeim þegar starfsgreinaráð, sem starfa skv. 29. gr. laga um framhaldsskóla, hafa lokið umfjöllun um nám á viðkomandi sviði og lagt fram tillögur sínar.

Að öðru leyti vísast til brautalýsinganna og skýringa og skilgreininga sem þar birtast.
 

Brautaheiti

Hér fer á eftir skrá yfir heiti námsbrauta í þeirri röð sem þær eru birtar í þessari námskrá. Hver námsbraut er auðkennd með skammstöfun, oftast tveimur bókstöfum, sem valdir eru með hliðsjón af heiti viðkomandi brautar. Þrír stafir einkenna námsbrautir í löggiltum iðngreinum, tölustafurinn 8 táknar nám á verknámsbraut í skóla og talan 9 samningsbundið iðnnám.

Brýnt er að allir skólar noti þessar skammstafanir, m.a. í skýrslum til nemendaskrár Hagstofu Íslands.

Námsbrautirnar eru flokkaðar eftir skyldu námi og/eða starfsgreinum.
 

Námsbrautir til stúdentsprófs og listnám
Félagsfræðabraut
Málabraut
MB
Náttúrufræðibraut
Upplýsinga- og tæknibraut
UT
Listnámsbraut
LN
 
 
Námsbrautir til sveinsprófs
Bíliðngreinar  
Grunndeild bíliðna
GB
Bifreiðasmíði
BS8
Bifvélavirkjun
BV8
Bílamálun
BM8
Bókiðngreinar  
Bókband
BÓ9
Prentsmíð
PS9
Prentun
PR9
Bygginga- og tréiðnir  
Grunndeild múriðnar
GMR
Grunndeild tréiðna
GT
Húsasmíði
HÚ8
Húsasmíði
HÚ9
Húsgagnasmíði
HS8
Húsgagnasmíði
HS9
Málaraiðn
MÁ9
Múraraiðn
MR9
Pípulagnir
PL9
Fata-, skinna- og leðuriðngreinar  
Kjólasaumur
KJ8
Klæðskurður
KL8
Söðlasmíði
SÖ9
Matvælagreinar
 
Bakaraiðn
BA9
Framreiðsla
FR9
Kjötiðn
KÖ9
Matreiðsla
MA9
Málmiðngreinar  
Málmiðngreinar, fyrri hluti náms
MG
Blikksmíði
BL9
Rennismíði
RS8
Rennismíði
RS9
Stálsmíði
SM9
Vélsmíði
VS8
Vélsmíði
VS9
Rafsuða
RS9
Gull- og silfursmíði
GS9
Netagerð
NG9
Rafiðngreinar  
Rafeindavirkjun
RE8
Rafvélavirkjun
RV8
Rafvélavirkjun
RV9
Rafvirkjun
RK8
Rafvirkjun
RK9
Símsmíði
SS9
Snyrtigreinar  
Hársnyrtiiðn
HG9
Snyrtifræði
SN8
 
 
Nám til iðnmeistaraprófs
Bílgreinar  
Bifreiðasmíði
MBS
Bifvélavirkjun
MBV
Bílamálun
MBM
Bókiðngreinar
 
Bókband
MBÓ
Prentsmíð
MPS
Prentun
MPR
Bygginga- og tréiðngreinar  
Húsasmíði
MHÚ
Húsgagnabólstrun
MHB
Húsgagnasmíði
MHS
Málaraiðn
MMÁ
Múraraiðn
MMR
Pípulagnir
MPL
Veggfóðrun
MKO
Fata- skinna- og leðuriðngreinar  
Kjólasaumur
MKJ
Klæðskurður
MKL
Skósmíðaiðn
MSM
Garðyrkja
 
Skrúðgarðyrkja
MSG
Matvælagreinar  
Bakaraiðn
MBA
Framreiðsla
MFR
Kjötiðn
MKÖ
Matreiðsla
MMA
Málmiðngreinar  
Blikksmíði
MBL
Rennismíði
MRS
Stálsmíði
MSS
Vélvirkjun
MVS
Rafiðngreinar  
Rafeindavirkjun
MRE
Rafvirkjun
MRA
Rafvélavirkjun
MRV
Snyrtigreinar  
Hársnyrtiiðn
MHÁ
Snyrtifræði
MSN
Fámennar iðngreinar  
Gull- og silfursmíði
MGS
Ljósmyndun
MAL
Netagerð
MNG
Rafveituvirkjun
MRF
Símsmíði
MSS
Tannsmíði
MTA
Úrsmíði
MÚR
 
 
Annað starfsnám 
Heilbrigðisbrautir  
Lyfjatæknabraut
LT
Læknaritarabraut
Námsbraut fyrir nuddara
NN
Sjúkraliðabraut
SJ
Tanntæknabraut
TT
Matvæla-, hús-, stjórnar- og handíðanám  
Grunnnám matvælagreina
GN
Handíðabraut
LI
Hússtjórnarbraut
HB
Matartæknabraut
MT
Matsveinabraut
MS
Slátrun
SL
Sjávarútvegsnám  
Fiskiðnaðarbraut
FI
Sjávarútvegsbraut
Skipstjórnarbraut, 1. stig
SK1
Skipstjórnarbraut, 2. stig
SK2
Skipstjórnarbraut, 3. stig
SK3
Vélstjórnarbraut, 1. stig
VV1
Vélstjórnarbraut, 2. stig
VV2
Vélstjórnarbraut, 3. stig
VV3
Vélstjórnarbraut, 4. stig
VV4
Tölvu-, tækni- og hönnunarnám  
Hönnunarbraut
Hönnunarbraut
IH
Tækniteiknun
TT
Tölvufræðibraut
TFB
Uppeldisnám  
Íþróttir
ÍÞ
Uppeldisbraut
UP
Verslunar- og viðskiptanám  
Ferðamálanám
FE
Viðskiptabraut
VI
Sérdeildir  
Starfsbraut 1 og 2
ST1
Starfsbraut 3 og 4
ST3
 

almennur hluti
stúdentspróf listnám
sveinspróf
iðnmeistarapróf
annað starfsnám
heimasíða
EAN 1999