Fyrri síða

Yfirlit

Næsta síða

Inngangur

Tækni er einn af skapandi þáttum menningar og mótar ásýnd hennar, inntak, merkingu og tilgang. Hún er afrakstur af framkvæmdum fólks sem beitir ímyndunarafli sínu, sköpunargáfu, þekkingu og verklegri færni til að takast á við umhverfi sitt í markvissum tilgangi.

Tæknin verður til í samskipum okkar við umhverfið, vegna aðstæðna sem við viljum breyta, hafa áhrif á eða nýta okkur. Umhverfi okkar í þessu sambandi er: 

Það eru ekki skörp skil á milli þessa sviða. Tæknin gengur þvert á þau. Tæknilausn á einu býður oft upp á eða krefst tæknilausnar á öðru.

Tæknin hefur fylgt mannkyni frá fyrstu tíð. Saga tækninnar ber vitni um óbilandi kjark, bjartsýni, áræði og framtakssemi. Guðmundur Finnbogason túlkar ágætlega þennan anda tækninnar í riti sínu „Land og Þjóð": 

Þó má aldrei gleyma því, að skorður náttúrunnar reynast misfastar fyrir á ýmsum tímum, eftir atorku og menningarstigi þjóðarinnar. Þar sem ein kynslóðin sá engan veg, gerir önnur sjer veg. Með vaxandi menningu, vísindalegri og verklegri, verður þjóð í þeim skilningi óháðari náttúrunni umhverfis, að hún lærir að hagnýta á nýjan hátt þau efni og öfl, sem fyrir eru, breyta gjöfum náttúrunnar svo að þær fullnægi þörfum, er þær áður gátu ekki fullnægt, og með vaxandi samgöngum og viðskiptum við aðrar þjóðir, getur að lokum hver þjóð fengið fyrir afurðir lands síns hverja þá hluti, sem markaðsvara eru. Með þeim hætti mætast loks í hverju landi afurðir allra landa" (Guðmundur Finnbogason, 1921, bls. 16).

Á nýju námssviði upplýsinga- og tæknimennta er mikilvægt að rækta þennan bjartsýna anda tækninnar, að nemendur öðlist trú á eigin getu og getu mannkyns í heild að móta umhverfi sitt í sátt við alla þætti þess: náttúruna, samfélagið og menninguna.

Annað mikilvægt atriði er að þjálfa nemendur í að starfa og njóta tómstunda og einkalífs í þjóðfélagi sem tekur sífelldum og hröðum breytingum og stuðla að því að þeir verði gerendur í lífi sínu fremur en þiggjendur.

Áhersla verði lögð á að kenna nemendum að vinna eftir hugmyndum, fylgja þeim eftir, skipta verkefnum upp í einingar og gera sér grein fyrir hvernig hlutarnir vinna saman og virka. Nauðsynlegt er að þróa síðasta þáttinn á mörgum stigum, þ.e. bæði hugmyndafræðilega og verklega.

Á fáum sviðum eru jafn örar breytingar og á tæknisviðinu, því ber að leggja mikla áherslu á samfellu í námi. Breytingar í grunnskóla kalla á grunnáfanga í framhaldsskóla og einnig á sérstaka braut. Breytingar í framhaldsskóla kalla á breytingar á háskólastigi. Við skipulag og uppbyggingu námssviðins verði tekið mið af þessum atriðum.

Leggja ber áherslu á jafnrétti, þ.e. að allir einstaklingar fái sömu tækifæri til að afla sér þessarar menntunar. Tæknin gerir fötluðum og ófötluðum einstaklingum mögulegt að vinna saman þannig að sérgáfur og sérhæfileikar hvers og eins fái að njóta sín. Með því að byrja snemma að kenna börnum leyndardóma tækninnar er hægt að glæða áhuga þeirra á sviðinu fordómalaust, án tillits til uppruna þeirra, stéttar, stöðu og kyns.

Efni skýrslunnar

Skýrslan skiptist í þrjá meginhluta. Í fyrsta hluta er fjallað um námssviðið í heild sinni, í næsta hluta er fjallað um námsgreinar og námsþætti sviðsins á grunnskólastigi og að lokum er fjallað um framhaldsskólastigið. Auk þess er í viðaukum vikið að ástæðum þess að smíðakennsla í grunnskóla var flutt af námssviði lista og handíða yfir á námssvið upplýsinga- og tæknimennta.

Fyrri síða

Yfirlit

Næsta síða


Höfundarréttur © menntamálaráðuneytið, Hallveigarstaðir, Reykjavík 04.09.1997
Uppseting Jóhann Ásmundsson joas@ismennt.is