Fyrri síða

Yfirlit

Næsta síða

Lokaorð

Með nýju námssviði í upplýsinga- og tæknimenntun gefst skólum kjörið tækifæri til að fást við nýja kennsluhætti og nýta sér upplýsingatækni nútímans til hins ýtrasta. Fjarkennsla, nýting veraldarvefsins undir námsefni og ítarefni, tölvusamsamskipti og hópvinna nemenda um tölvunet eru þættir sem mikilvægt er að verði strax frá upphafi ríkjandi einkenni á kennsluháttum námssviðsins. Nýtt námssvið hefur allt að vinna í þessum efnum en litlu að tapa. Námssviðið getur því orðið útvörður upplýsingatækni í skólum landsins.

Vegna stöðu sinnar innan skóla geta skólasafnskennarar gengt mikilvægu hlutverki í tölvumenntun almennra kennara. Með því að umsjónarkennarinn fylgir bekknum sínum í skólasafnskennsluna og tekur virkan þátt í kennslunni er hægt að ná fram miklum margfelldisáhrifum í tölvumenntun kennara. Til að svo megi verða er mikilvægt að skólasafnskennarar njóti forgangs í endurmenntun er varðar nýtingu upplýsingatækni í skólastarfi.

Ef hugmyndir forvinnuhópsins um þekkingarnet ná fram að ganga verður til vísir að mikilvægu afli í íslensku skólakerfi þar sem kennarar vítt og breitt um landið samnýta starfskrafta sína og reynslu með nýstárlegum hætti í kennslu. Nokkur áhætta er fyrir hefðbundin námssvið að gefa sig alfarið þessum nýjungum á vald. Nýtt námssvið á hins vegar allt undir að kostir Internetsins, fjarkennslu og tölvusamskipta séu nýttir til hins ýtrasta til að afla því kennslureynslu og námsgagna.

Fjarkennsla, gagnvirkt margmiðlunarefni og hópvinnukerfi um tölvunet munu á næstu árum valda straumhvörfum í kennslu um allan heim. Vegna hraðans á þessari þróun er auðvelt fyrir ríki að setja eftir við hagnýtingu á þessum nýju möguleikum í kennslu. Ef slíkt gerist hefur það keðjuverkandi áhrif á hagnýtingu upplýsingatækni í þjóðlífinu öllu fyrir þessi sömu ríki. Næstu kynslóðir munu ekki hafa sömu forsendur og jafnaldrar þeirra í framsýnni löndum að hagnýta sér kosti upplýsingatækni í starfi og leik og samkeppnisstaða þeirra veikist í hinu hnattræna netumhverfi.

Ekki er ólíklegt að ríki sem dragast aftur úr í nýtingu upplýsingatækni verði skilgreind sem vanþróuð og afskekkt jaðarsvæði, óháð landfræðilegri legu sinni. Með tilliti til hraðans á þessari þróun á það að vera forgangsverkefni allra í skólakerfi að hagnýta tölvur, upplýsingatækni og tölvunet til hins ítrasta í öllu skólastarfi. Það tryggir ekki aðeins starfsmöguleika uppvaxandi kynslóðar í hnattrænu netsamfélagi framtíðar, heldur felast miklir möguleikar á hagræðingu, sparnaði og auknum gæðum í öllu skólastarfi með metnaðarfullri nýtingu tækninnar.

Fyrri síða

Yfirlit

Næsta síða


Höfundarréttur © menntamálaráðuneytið, Hallveigarstaðir, Reykjavík 04.09.1997
Uppseting Jóhann Ásmundsson joas@ismennt.is