Fyrri síða

Yfirlit

Næsta síða

Viðauki

Tilfærsla smíða á námssvið upplýsinga- og tæknimennta

Hér verður gerð grein fyrir helstu ástæðum þess að smíði í grunnskólum var flutt af námssviði lista og handíða við endurskoðun aðalnámskráa yfir á námssvið upplýsinga- og tæknimennta.

Viðfangsefni námssviðs upplýsinga- og tæknimennta er tækniumhverfi nútímans. Í grófum dráttum má skipta þessu umhverfi upp í tvö svið:

  1. svið sem snýr að efnisbúnaði þ.e. hinum manngerðu hlutum í kringum okkur eins og bílar, stólar, hús og bækur,
  2. svið sem snýr að hugbúnaði þ.e. hlutum, ferlum og upplýsingum í reiknirými tölvunnar, hugverkum ýmis konar og þjónustu.

Eitt af meginmarkmiðum með námssviðinu er að nemandinn verði læs á tækniumhverfið. Það felur í sér að vera læs á bæði þessi svið og að vera læs á samhengið á milli þeirra.

Ein leið til að nálgast þetta markmið er að búa til nýja námsgrein þar sem nemendur væru meira og minna mataðir á heiti hlutanna í kringum sig, til hvers þeir eru notaðir og hvernig þeir virka.

Ókosturinn við þessa leið er að hún er mjög óvirk. Nemendur kynnast umhverfi sínu eins og hverjum öðrum staðreyndarlærdómi sem hægt er að læra utanað fyrir próf með litlum eða engum snertifleti við raunveruleikann.

Önnur leið sem er mun vænlegri er að námið á þessu sviði byggist jöfnum höndum upp á því að þekkja og gera. Nemandinn er m.ö.o. hvattur til þess að nýta sér þekkingu sína á skapandi hátt til að búa til úr henni hagnýta hluti.

Víða erlendis hefur verið farin sú leið að þróa sérstaka námsgrein til ná fram þessum markmiðum um að nemandinn þekki og geri, eins konar blanda hönnunar og tækni. Í flestum tilfellum hefur þessi nýja námsgrein verið þróuð út frá smíðum og látin koma í hennar stað.

Ef farin væri sú leið að hanna svona tæknifræði fyrir íslenskt skólakerfi, væri komin námsgrein sem myndi skarast á við smíðina og stæði í beinni samkeppni við hana, hvað varðar kennsluaðstöðu, tíma og jafnvel kennara.

Lendingin sem þetta mál fékk var að málefni smíðakennslunnar yrðu rædd mjög ítarlega í forvinnuhópi námssviðsins og þá með tilliti til verkefna þess, þ.e. að nemandinn verði læs á tækniumhverfi sitt.

Hugmyndin með þessu er að smíðin gegni lykilhlutverki á námsviðinu með því að taka við nýjum viðfangsefnum þ.e. hátækninni. Gert er ráð fyirr að þessir þættir komi inn í smíðina í eðlilegri námsframvindu og verkefnavali nemenda, með það að leiðarljósi að tengja hátækniumhverfið við handverkshefðina.

Með því að smíðin taki við þessum nýju viðfangsefnum hefur skapast möguleiki á að þróa nýja námsgrein sem verður hrein nýsköpunar- og hönnunargrein, nýsköpun og hagnýting þekkingar. Smíðin tekur yfir ákveðna tæknimenntaþætti sem tengjast verklegum störfum en nýsköpun og hagnýting þekkingar einbeiti sér að þáttum sem eru ráðandi í upplýsingasamfélaginu (þjónusta, samskipti og úrvinnslu upplýsinga). Við þessa verkaskiptingu öðlast nýsköpun og hagnýting þekkingar sjálfstætt gildi sem almenn starfsmennt 21. aldar en smíðin verður sem fyrr undirstaða verkmennta.

Fyrri síða

Yfirlit

Næsta síða


Höfundarréttur © menntamálaráðuneytið, Hallveigarstaðir, Reykjavík 04.09.1997
Uppseting Jóhann Ásmundsson joas@ismennt.is