Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða
 
1. Þörf fyrir kunnáttu í erlendum málum

Íslendingar eru fámenn þjóð sem lengi hefur átt mikil samskipti við aðrar þjóðir. Þeir hafa sótt menntun sína til annarra landa og hafa ávallt átt afkomu sína undir viðskiptum við útlönd. Viðskipta- og menningartengsl við aðrar þjóðir eiga sér því langa sögu. Vert er að minna á að Íslendingar hafa um aldir flutt út bæði menningarlegt efni og ýmsar vörur. Tungumál hafa gegnt lykilhlutverki í þessum samskiptum. Þessi einkenni íslensks þjóðlífs og menningar, ekki síst opið hugarfar gagnvart öðrum þjóðum, er mikilvægt að varðveita og byggja á í framtíðinni.

Löng hefð er fyrir náinni samvinnu Íslendinga og annarra Norðurlandaþjóða á fjölmörgum sviðum. Þótt samvinna Norðurlandaþjóða kunni að breytast á komandi árum, m.a. vegna aukins samstarfs Evrópuþjóða, munu norræn tungumál áfram hafa mikið menningarlegt og hagnýtt gildi fyrir Íslendinga. Vegna sívaxandi alþjóðlegs samstarfs og samstarfs Evrópuþjóða sérstaklega er það mikið hagsmunamál fyrir íslenskt þjóðfélag að sem flestir hafi gott vald á ensku, frönsku, spænsku og þýsku. Hinn frjálsi markaður og aukin alþjóðasamskipti á öllum sviðum kalla á aukna tungumálakunnáttu Íslendinga.

 
1.1 Meginsjónarmið

Markmið með tungumálanámi er að Íslendingar verði hæfir málnotendur í samskiptum við aðrar þjóðir og samkeppnisfærir á sviði viðskipta, mennta og menningar og í fjölþjóðasamstarfi. Þá á tungumálanámið að stuðla að menningarlegri fjölbreytni í íslensku þjóðfélagi. Í þessu samhengi þarf jafnt að huga að hagsmunum einstaklinga og þörf þeirra fyrir tungumálakunnáttu sem og þarfa og hagsmuna þjóðfélagsins í heild. Einnig ber að viðhalda þeim menningarlegu tengslum sem fyrir eru en stuðla jafnframt að kennslu í öðrum tungumálum sem ekki hafa verið kennd fyrr. Það gæti opnað leiðir að nýjum menningar- og viðskiptasvæðum.

Leggja ber áherslu á vandaða kennslu í þeim tungumálum sem kennd eru svo að nemendur eigi þess kost að ná góðum tökum á þeim markmiðum sem sett eru í kennslu viðkomandi tungumála. Með „vandaðri kennslu" er átt við að vel menntaðir tungumálakennarar annist kennsluna og að tryggður sé tilskilinn fjöldi kennslustunda, sérstaklega í byrjendakennslu. Þannig verði hópastærð hæfileg og fari að jafnaði ekki upp yfir 15-18 nemendur svo að unnt sé að veita nemendum þá einstaklingsbundnu leiðsögn sem nauðsynleg er í málanámi, námsgögn og kennslutæki séu fjölbreytt og í samræmi við þarfir tímans og húsnæði og aðstaða til kennslu og undirbúnings séu fullnægjandi.

Miðað er við að allir nemendur læri ensku og dönsku í grunn- og framhaldsskólum, en að þeir geti síðan valið á milli einstakra mála sem 3. og 4. máls. Í flestum framhaldsskólum verði boðið upp á kennslu í dönsku, ensku, frönsku og þýsku og eftir föngum í spænsku. Gert er ráð fyrir að nám í erlendum tungumálum verði að einhverju marki sveigt að því námssviði sem nemendur hafa valið sér. Þannig er eðlilegt að nemendur í tækni- og verslunarnámi eigi kost á að stunda nám í erlendum tungumálum sem skipta mestu máli í starfsgrein þeirra. Eðlilegt er að latína og gríska verði áfram í boði á fornmálabrautum.

Tungumálakunnátta tryggir hagsmuni Íslendinga og eykur menningarlega fjölbreytni í samfélaginu. Mikil þörf er fyrir mjög haldgóða kunnáttu í ensku til að takast á við nám og starf á langflestum sviðum. Mikilvægt er að áfram verði kennd Norðurlandamál vegna samskipta og menningartengsla norrænna þjóða og þar sem stór hópur Íslendinga sækir þangað í nám og störf. Vaxandi samstarf Íslendinga við Evrópuþjóðir kallar á aukna færni í frönsku, spænsku og þýsku. Eigi Íslendingar að geta staðið við skuldbindingar sínar í

þessu tilliti verður að auka kennslu í 3. máli. Fyrir liggur ákvörðun stjórnvalda um að enska verði fyrsta erlenda málið og að enskukennsla verði aukin í grunnskólum. Af þessu leiðir að nemendur munu hafa umtalsvert meiri enskukunnáttu við lok grunnskóla en nú. Markmið í grunn- og framhaldsskóla verða að taka mið af þessum breyttu aðstæðum og auka verður stórlega kröfur til nemenda um enskukunnáttu. Gera verður ráð fyrir að með þessum breytingum skapist svigrúm til aukningar kennslu í þriðja máli.

Mikilvægt er að einstakir skólar sérhæfi sig í kennslu annarra tungumála en þeirra sem voru tilgreind hér að framan og ætla má að hafi vaxandi gildi fyrir Íslendinga, svo sem japönsku, kínversku og rússnesku. Reiknað er með að þeir nemendur, sem kjósa að læra þessi mál, geti stundað málanámið í þeim skólum sem sérhæfa sig í kennslu þeirra, jafnvel þó að þeir stundi ekki nám í skólanum að öðru leyti. Í þessu samhengi er rétt að huga að möguleikum fjarkennslu og samstarfs milli skóla. Námskrár skólanna ættu að einhverju leyti að miðast við menningu, sögu og þjóðfélag þess tungumáls sem skólinn sérhæfði sig í. Ákjósanlegt væri að kenna ákveðna þætti, t.d. tengda menningu og sögu viðkomandi málsvæðis, á hinu erlenda máli. Auk ávinnings fyrir málanámið gæti slík tilhögun verið tilvalin til að auka samþættingu námsgreina. Rétt er að undirstrika möguleika á samvinnu kennara á milli landa (Sokrates, þ.e. Lingua og Comenius, og Leonardo) sem auðveldað gæti slíka kennslutilhögun.

Þá ber að leggja áherslu á að sinna sérstaklega íslenskum nemendum sem dvalið hafa um lengri tíma í erlendu málsamfélagi og náð hafa góðum tökum á erlendu máli. Mikilvægt er að bjóða þeim upp á áframhaldandi nám í því tungumáli. Vert er að gefa því gaum að slík málakunnátta barna og ungmenna er ekki bara dýrmæt fyrir viðkomandi einstakling, heldur getur hún nýst öðrum nemendum í málanáminu og orðið þjóðfélaginu dýrmæt til lengri tíma litið.1)

Brýnt er orðið að byggja upp þekkingu og reynslu við að kenna íslensku sem erlent mál fyrir vaxandi fjölda nýbúa á Íslandi, skiptinema og þeirra sem kunna að vilja leggja stund á nám í íslensku. Forvinnuhópur gerir það að tillögu sinni að einum skóla á grunn- og framhaldsskólastigi verði falið að skipuleggja og annast slíka kennslu.

 
1.2 Þörf fyrir tungumálakunnáttu í alþjóðasamskiptum

Örar tækniframfarir síðustu ára og áratuga hafa leitt til stóraukinna samskipta þjóða. Samskipti við fjarlægar heimsálfur hafa opnað áður óþekkta markaðsmöguleika. Útflutningur íslenskra afurða og hugvits er undirstaða íslensks atvinnulífs. Til að öðlast markaðshlutdeild og verða samkeppnisfær á nýjum mörkuðum getur tungumálakunnátta, þ.e. færni í viðkomandi máli og þekking á menningu, hefðum og samfélagi þeirrar menningarheildar, sem málið talar, verið lykill að árangri.

Vaxandi þátttaka í alþjóðasamstarfi á öllum sviðum krefst færni í tungumálum og annarrar tjáskiptahæfni. Eigi rödd Íslands að heyrast á vettvangi alþjóðasamtaka og bandalaga þurfa Íslendingar að vera færir um að tjá sjónarmið sín, jafnt í ræðu sem riti, á erlendum málum. Íslendingar eru nú með EES-samningum fullgildir aðilar að samstarfsverkefnum milli skóla og rannsóknastofnana á vegum Evrópusambandsins (Sokrates og Leonardo). Nemum á háskólastigi gefast í auknum mæli tækifæri til að stunda hluta af náminu við erlendar menntastofnanir. Tungumálakunnátta er forsenda þess að íslensk ungmenni geti nýtt sér þessi nýju tækifæri.

Þýðingar á erlend mál eru afar mikilvægar fyrir miðlun íslenskrar menningar og þýðingar af erlendum málum eru nauðsynlegar til að koma erlendu efni á framfæri við Íslendinga. Nægir í því sambandi að minna á þýðingar á bókmenntum og kvikmyndum.

Ferðalög til annarra landa og heimsóknir útlendinga til Íslands verða æ almennari og því snar þáttur í lífi fjölda Íslendinga. Þá má einnig nefna vinarbæjatengsl, nemendaskipti, íþróttamót erlendis og samvinnu milli alþjóðlegra félagasamtaka. Allir hafa einhverja þörf fyrir tungumálakunnáttu, ekki síst færni í talmáli.

Með auknum alþjóðasamskiptum, t.d. skólaheimsóknum, kóramótum, íþrótta- og skátamótum, gefst nemendum á grunn- og framhaldsskólastigi oft tækifæri til þess að dveljast um lengri eða skemmri tíma erlendis. Nauðsynlegt er að tungumálakennarar og skólar nýti slík tækifæri til að efla tungumálakennsluna og miðla upplýsingum um viðkomandi land og þjóð.

Kennsla erlendra mála þarf í auknum mæli að taka mið af breyttum þörfum Íslendinga fyrir málakunnáttu. Í skólakerfinu þarf að leggja meiri áherslu á að nemendur öðlist færni í töluðu og rituðu máli og að samskiptahæfni þeirra aukist að öðru leyti, m.a. með því að vinna markvisst með þá þætti sem lúta að menningarlegum og félagslegum hliðum málnotkunar.
 

1.3 Þörf fyrir tungumálakunnáttu í námi

Um aldir hafa Íslendingar sótt menntun sína til útlanda, bæði fræðilega menntun á háskólastigi og starfsmenntun, og ætla má að svo verði áfram. Tungumálakunnátta gegnir hér lykilhlutverki. Nám erlendis er dýrt og því er mikilvægt að nemendur þurfi ekki að kosta miklu til aukalega vegna ónógs undirbúnings. Margar þjóðir leggja nú síaukna áherslu á menntun og því eiga íslenskir stúdentar í vaxandi samkeppni um inntöku í erlenda háskóla og jafnframt þurfa þeir að standast kröfur í háskólanámi erlendis. Tryggja þarf að íslensk ungmenni fái það góða tungumálakunnáttu að þau séu fær um að stunda nám við innlenda og erlenda háskóla. Í því sambandi er sérstök ástæða til að leggja áherslu á að þeir öðlist haldgóða færni í að lesa fræðitexta á erlendum málum og að þeir séu færir um að rita málið eftir því sem háskólanám þeirra gerir kröfur um. Þá þarf að gera sér ljóst að takmörkuð tungumálakunnátta mun að líkindum hvort tveggja í senn rýra möguleika Íslendinga á inntöku til náms við erlendar menntastofnanir og draga kjarkinn úr ungmennum til að fara utan til náms.

Fjöldi Íslendinga stundar starfs- og iðnnám erlendis og algengt er að einstaklingar úr ýmsum starfsstéttum fari utan til að afla sér hagnýtrar þekkingar og sérhæfðrar viðbótarmenntunar. Tryggja þarf að þeir sem starfsnám stunda fái nægilega tungumálakennslu til að geta farið í slíkt nám.

Oft hefur verið bent á nauðsyn þess að tungumálanám í iðn- og starfsnámi verði tengdara starfsgreininni sem nemendur hafa valið sér en jafnan hefur tíðkast. Mikilvægt er að fólk í hverri iðn- og starfsgrein búi yfir góðri kunnáttu í erlendum tungumálum til að geta fylgst með þróun á sínu sviði og tekið þátt í samstarfi við erlenda aðila. Einnig má benda á að samstarfsverkefni Evrópusambandsins opna ýmsa möguleika í þessum greinum þar sem tungumálakunnátta er nauðsynleg til að þau nýtist sem best.2)

Nemendur sækja nú nám til fleiri landa en áður, sbr. eftirfarandi yfirlit frá Lánasjóði íslenskra námsmanna sem sýnir hvernig íslenskir námsmenn, sem fengu lán frá sjóðnum veturinn 1995-1996, skiptast eftir helstu löndum:
 
Námsland Fjöldi námsmanna
Danmörk 

Noregur 

Svíþjóð 

Finnland 

Stóra-Bretland 

Frakkland 

Þýskaland 

Bandaríkin

447 

126 

135 

13 

170 

47 

184 

503

Skólakerfið þarf að bjóða upp á tungumálanám sem gerir nemendum kleift að stunda nám í þessum löndum.

Ekki er hægt að fjalla um þörf fyrir kunnáttu í erlendum tungumálum án þess að nefna háskólanám á Íslandi. Á undanförnum árum hafa kröfur, sem gerðar eru til nemenda um magn lesefnis á erlendum tungumálum, aukist gríðarlega, ekki síst á ensku. Til þess að mæta þeim kröfum sem gerðar eru til nemenda í háskólanámi á Íslandi er þörf fyrir haldgóða, sérhæfða kunnáttu í erlendum málum, sérstaklega ensku. Stærstur hluti lesefnis á erlendum málum við t.d. Háskóla Íslands er á ensku. Fyrir því eru nokkrar ástæður: Mikið af fræðilegu efni er aðgengilegt á ensku og æ fleiri fræðimenn skrifa um viðfangsefni sín á ensku. Enska er einnig oft samskiptamál fræðimanna. Íslenskir nemendur eiga auðveldast með að nota ensku af þeim erlendum málum sem þeir læra, m.a. vegna þeirrar sérstöðu sem enskan nýtur í samfélaginu umfram önnur tungumál.
 

1.4. Tungumál og ferðaþjónusta

Á undanförnum árum hefur verið mikil gróska í ferðaþjónustu á Íslandi og margt bendir til þess að Íslendingar gætu átt möguleika á enn frekari landvinningum á þessu sviði, m.a. í tengslum við ráðstefnuhald. Ferðamenn af ólíku þjóðerni sækja nú Ísland heim og í tengslum við ferðaþjónustuna hefur skapast víðtæk þörf fyrir aukna tungumálakunnáttu. Samkvæmt upplýsingum Útlendingaeftirlitsins komu alls 189.796 útlendingar til Íslands árið 1995 og samkvæmt skýrslu Atvinnu- og ferðamálastofu Reykjavíkurborgar skiptust erlendir ferðamenn, sem komu til landsins árið 1996, hlutfallslega á eftirfarandi hátt eftir þjóðernum3):
 
Land Hundraðshluti
Danmörk 

Svíþjóð 

Noregur 

Finnland 

Bretland og Írland 

Þýskaland  

Holland og Belgía 

Frakkland 

Sviss 

Austurríki 

Ítalía 

Spánn 

Önnur Evrópulönd 

Bandaríkin og Kanada 

Japan 

Önnur lönd

9,6 

7,9 

6,7 

2,0 

9,4 

20,6 

4,9 

7,6 

3,7 

0,3 

3,5 

1,4 

2,2 

12,6 

1,3 

5,3

Alls 100%
 
Eins og yfirlitið sýnir þurfa Íslendingar að veita ferðamönnum af ólíku þjóðerni þjónustu. Stærstu hóparnir eru þýsku-, ensku- og frönskumælandi fólk, auk Norðurlandabúa. Það er engum vafa undirorpið að einn helsti mælikvarði ferðamanna á gæði þeirrar þjónustu sem þeir verða aðnjótandi hér á landi er að hve miklu leyti Íslendingar hafa vald á viðkomandi tungumálum. Þetta kemur glöggt fram í skýrslu um áðurnefnda könnun, en ummæli ferðamannanna um þá þjónustu, sem þeir urðu aðnjótandi snúast ýmist um góða eða slaka tungumálakunnáttu Íslendinga, einkum fólks í ferðaþjónustu. Samkvæmt skýrslunni voru t.d. ferðamenn frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Írlandi ánægðari með tungumálakunnáttu starfsfólks í verslunum í Reykjavík en t.d. Danir og Frakkar.4) Einnig nefna ferðamennirnir lélega tungumálakunnáttu starfsfólks á veitingastöðum og litla kunnáttu Íslendinga almennt í Norðurlandamálum og ensku. Þeir sem voru ánægðastir tilgreina góða tungumálakunnáttu landsmanna sem eitt þeirra atriða sem voru ánægjuleg eða jákvæð við dvölina í Reykjavík. Skýrslan undirstrikar því á ótvíræðan hátt, mikilvægi tungumálakunnáttu í ferðaþjónustu.

Allir þeir sem við ferðaþjónustu starfa þurfa að vera hæfir til að veita þá þjónustu sem starfsgreinin útheimtir. Sú skoðun virðist nokkuð útbreidd meðal Íslendinga að enska ein nægi í samskiptum við erlenda ferðamenn. Brýnt er að gera sér ljóst að í þessu viðhorfi endurspeglast vanmat á mikilvægi þess að geta veitt þjónustu á viðkomandi máli, sbr. dæmi úr fyrrnefndri skýrslu. Góð þjónusta við ferðamenn felst í því að samskiptin geti farið fram á tungu þeirra. Þar sem því verður ekki viðkomið eru gæði þjónustunnar fólgin í því að þeir sem við ferðaþjónustu starfa hafi vald á sem flestum erlendum málum.
 

1.5 Tungumál í atvinnu- og viðskiptalífi

Í kaflanum hér að framan var fjallað um tengsl tungumáls og ferðaþjónustu. Mikilvægi tungumála og þeirrar atvinnugreinar virðast flestum augljós. En tungumál gegna einnig stóru hlutverki í ýmsum öðrum atvinnugreinum.

Íslendingar eru fámenn þjóð sem byggir afkomu sína á útflutningi og því eru verslun og viðskipti undirstaða atvinnulífsins. Til þess að vinna nýja markaði er nauðsynlegt að þekkja siði og venjur viðkomandi lands, en slík þekking er hluti af tungumálakunnáttu (sbr. 2. kafla). Um þá markaðshlutdeild sem þjóðin hefur gildir hið sama. Stöðugt þarf að fylgjast með breytingum og þjóðfélagsumræðunni á viðkomandi landsvæðum til að geta boðið upp á sem besta vöru og þjónustu og haldið samkeppnisaðstöðu sinni. Sem dæmi má nefna að ekki er unnt að selja Miðevrópubúum eða Bandaríkjamönnum fisk sem ekki er í umhverfisvænum neytendaumbúðum.

Tölur um utanríkisverslun eftir markaðssvæðum gefa vísbendingu um það hvaða tungumál eru mikilvæg fyrir Íslendinga og eru helstu viðskiptasvæði Íslendinga nefnd hér á eftir.

Útflutningur 19955)
 
Land  Hundraðshluti
Bretland  19,3
Danmörk  7,8
Frakkland  6,8
Spánn  3,7
Þýskaland  13,7
Bandaríkin  12,3
Japan  11,3
 

Innflutningur 19956)
 
Land Hundraðshluti
Bretland  9,6
Danmörk  9,4
Frakkland  4,2
Holland  6,8
Noregur  10,2
Svíþjóð  7,0
Spánn  1,6
Þýskaland  11,4
Bandaríkin  8,4
Japan  4,4
 
Af þessum upplýsingum sést að um mörg tungumálasvæði er að ræða þegar íslensk utanríkisverslun á í hlut.

Örar breytingar í upplýsinga- og tölvutækni hafa haft það í för með sér að markaðsaðild er ekki háð búsetu og Íslendingar eru sífellt að hasla sér völl á nýjum sviðum. Ætla má að hugbúnaður og upplýsingatækni séu mjög vaxandi atvinnugrein. Þá mun markaðsaðild landsins á heilsuvörum væntanlega fara vaxandi.

Það er ekki efni þessarar skýrslu að greina í smáatriðum þarfir atvinnulífsins fyrir tungumál en forvinnuhópurinn vill undirstrika nauðsyn ýmissa greina atvinnulífsins á tungumálakunnáttu. Í því sambandi má benda á að víða erlendis eru tungumál hluti af ýmsum námsgreinum á háskólastigi, svo sem viðskiptafræði, lögfræði, læknisfræði og verkfræði. Innan viðskipta- og hagfræðideildar HÍ hefur nú verið tekin upp kennsla í fjórum tungumálum.

Forvinnuhópurinn telur ljóst að tungumálakunnátta verði vaxandi hluti af æ fleiri starfsgreinum og einstaklingar með góða tungumálakunnáttu verði mjög dýrmætir fyrir íslenskt viðskipta- og atvinnulíf.
 

Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða