Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða
 
2. Að hafa vald á erlendu tungumáli

Fræðimenn hafa leitast við að skilgreina hvað felst í því að hafa erlent mál á valdi sínu. Bent hefur verið á að ekki sé nægilegt, eins og áður var talið, að geta lesið málið, geta skrifað bundinn texta, hafa yfir tilteknum orðaforða að ráða og kunna málfræðireglur utan að. Eigi menn að geta notað erlenda málið til tjáskipta þurfa málnotendur að hafa færni og þekkingu á fleiri sviðum. Hér verður getið helstu þátta sem taldir eru forsenda málbeitingar á erlendu máli:

1. Að ráða yfir orðaforða og vera fær um að beita málfræði-, framburðar-, réttritunar og setningarfræðireglum (lingvistisk kompetence).

2. Að þekkja reglur um viðeigandi málnotkun, þ.e. hvað sé við hæfi að segja við tilteknar aðstæður, hvernig samtöl eru byggð upp, hvernig eigi að ávarpa/ljúka samtali og hvort þérun sé við hæfi o.s.frv. (pragmatisk kompetence).

3. Að kunna og þora að bregðast við aðstæðum þar sem þekkingu á málinu þrýtur. T.d. að umorða einstök orð eða setningar, þýða af móðurmálinu, nýta sér þekkingu í öðrum málum o.s.frv. (strategisk kompetence).

4. Að geta talað málið reiprennandi, þ.e. að ekki komi til óþarfa hik eða stam vegna ónógrar færni, og geta skrifað málið lipurlega og hindrunarlítið. Leikni í töluðu og rituðu máli krefst mikillar þekkingar á orðaforða og útheimtir sífellda þjálfun (fluency).

5. Að búa yfir ríkri málvitund, þ.e. að vera sér meðvitaður um formreglur málsins og aðrar reglur sem notkun málsins lýtur og beitingu þeirra (metakommunikativ kompetence).

6. Að þekkja til menningar, samfélags og siða í viðkomandi málsamfélagi. Mál og menning eru órjúfanlega tengd. Með þekkingu á menningu og siðum er annars vegar átt við þekkingu á bókmenntum, sögu, þjóðfélagi o.s.frv. og hins vegar þekkingu á daglegu lífi íbúanna, viðteknum skoðunum, viðhorfum og lifnaðarháttum (sociokulturel kompetence).

Við skipulagningu og framkvæmd málanáms í grunn- og framhaldsskólum þarf að taka mið af þessum þáttum svo að nemendur nái sem bestum tökum á alhliða færni í erlendum tungumálum.
 
Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða