Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða
 
3. Þættir málanáms

Eigi nemendur að ná valdi á erlendu máli þarf kennslan að taka mið af öllum þeim þáttum sem felast í tjáskiptahæfni, sbr. 2. kafla. Málanám er einstaklingsbundið, skapandi ferli þar sem framfarir nemandans eru komnar undir virkni hans og þátttöku í eigin námi, tækifærum hans til að nota málið og leiðsögn kennarans.

Mikilvægt er að viðfangsefnin gefi nemendunum ávallt tækifæri til að kljást við málið í margbreytileik sínum og við sem fjölbreytilegastar aðstæður. Þá þurfa viðfangsefnin að vera þess eðlis að þau opni nemendunum sýn á menningu, siði og lifnaðarhætti viðkomandi landa. Nauðsynlegt er að nemendur noti frá upphafi málið til tjáskipta, þannig að þeir skynji sem best hlutverk málsins og átti sig á eðli málanáms. Þá er mikilvægt að leiðbeina nemendum um hvernig þeir geti nýtt sér mismunandi tækni og aðferðir við málanámið.

Viðfangsefnin þurfa hvort tveggja í senn að vera ögrandi fyrir nemendur, gefa þeim færi á að nota málið og þjóna málanáminu sem best. Litið er á tölvur, hljómbönd, myndbönd og margmiðlunarefni sem sjálfsögð tæki í málanáminu, bæði til að miðla og framleiða texta. Hér verður gerð grein fyrir helstu þáttum málanáms.
 

3.1 Orðaforði

Á undanförnum árum hefur athygli fræðimanna beinst í auknum mæli að hlutverki orðaforða í allri málnotkun og hvernig orðaforði lærist. Orðaforðinn og málkerfið er sá grunnur sem öll málnotkun og allt tungumálanám byggist á. Undirstaða allrar málnotkunar er að eiga orð til að tjá hugsanir sínar og átta sig á merkingu orða. Mikill munur er á því að geta skilið orð út frá samhengi í texta, þegar lesið er eða hlustað og að geta notað málið til að tjá hugsun sína í ræðu eða riti. Eigi nemandinn að geta notað málið þarf hann að átta sig á hvernig orð raðast í setningar og föst orðasambönd og hvernig orðin haga sér í setningum eftir merkingu og hlutverki þeirra í setningunni. Til að nemandinn fái sem fyrst reynslu af því að nota málið er mikilvægt að hann læri sem mestan orðaforða strax. Í upphafi málanáms ber að leggja áherslu á almennan daglegan orðaforða. Eftir því sem líður á námið verður orðaforðinn smám saman sérhæfðari, t.d. orðaforði sem merkingarlega tengist ákveðnum efnum eða sviðum. Þá tekur við „hálffræðilegur" orðaforði og loks fræðilegur þar sem lengst er náð. Oft getur áhugi nemandans haft gífurleg áhrif á hvaða orðaforða hann lærir og hve hratt hann tileinkar sér misþungan orðaforða. Rétt er að benda á að nemendur læra ekki alltaf nýjan orðaforða sem einstök orð, heldur einnig sem setningarhluta eða sem heilar setningar, t.d. orðatiltæki sem oft koma fyrir í málinu.

Orðaforði lærist bæði á óbeinan hátt, t.d. með lestri eða hlustun, og á meðvitaðan hátt. Nauðsynlegt er að leiðbeina nemendum um hvernig þeir geta tileinkað sér orð, orðasambönd og orðatiltæki á markvissan og meðvitaðan hátt og í hvaða samhengi þau eru notuð. Má í því sambandi benda á orðaleiki, að orðtaka texta, flokka orð skyldrar eða svipaðrar merkingar, glöggva sig á ákveðnum orðatiltækjum, flokka samheiti og andheiti og raða orðum eftir innbyrðis merkingu þeirra, t.d. tjald, hellir, kofi, hús, einbýlishús, höll eða fjall, hamar, hóll, þúfa, o.s.frv. Þannig er hægt að beina sjónum nemenda að tengslum samstofna orða og merkingarlegum tengslum orða sem tilheyra ólíkum orðflokkum, svo sem nafnorða, lýsingarorða og sagnorða.

Vel hefur gefist að nota orðtengslamyndir (mind-maps) sem hjálpartæki og sem leið til að auðvelda nemendum að gera nýjan orðaforða að sínum. Þegar orðtengslamyndir eru notaðar er gefið eitt lykilorð á ákveðnu efnissviði og síðan leita nemendur að orðum og orðatiltækjum sem tengjast lykilorðinu merkingarlega. Þá er mikilvægt að átta sig á hvaða orðaforði einkennir ritaðan texta annars vegar og talað mál hins vegar og einnig hvaða orðaforða nemandinn þarf að hafa á valdi sínu til að geta tjáð sig í ræðu og riti á mismunandi stigum námsins. Rétt er að undirstrika að því meiri orðaforða sem nemendur hafa yfir að ráða, því gleggri verður málskilningurinn og mál þeirra blæbrigðaríkara og hnitmiðaðra.
 

3.2 Málfræði og málnotkun

Mikilvægt er að nemendur nái bæði tökum á málfræði- og málnotkunarreglum. Öll vinna með málnotkun og málfræði á að tengjast markvisst vinnu með orðaforða og notkun færniþáttanna fjögurra. Brýnt er að hafa í huga að málfræði og málnotkunarreglur hafa mikilvægu hlutverki að gegna þegar málið er notað. Nemendur þurfa að kljást við verkefni þar sem reynir á að nota reglurnar sem hjálpartæki í samræmi við tilgang notkunar málsins hverju sinni.

Þegar unnið er með reglur málsins, t.d. málfræði, þurfa kennarar að vanda valið og beina sjónum að þeim þáttum málfræðinnar eða málvenjum sem líklegastir eru til að valda íslenskum nemendum erfiðleikum eða sem sýnt er að muni valda misskilningi í tjáskiptum. Mjög mikilvægt er að nemendur hafi vald á þeim orðaforða sem nauðsynlegur er til að geta beitt ákveðinni málfræðireglu.
 

3.3 Færniþættirnir fjórir

Í umfjöllun um tungumálakennslu er oft talað um færniþættina fjóra, annars vegar lestur og hlustun þegar málnotandinn tekur við og túlkar máláreiti, þ.e. hann vinnur úr því máli sem hann heyrir og les, og hins vegar tal og ritun, þ.e. þegar málnotandinn orðar sjálfur hugsun sína og kemur til skila því sem hann vill segja. Mikilvægt er að vinna með alla færniþættina í tungumálakennslunni þó að vægi þeirra geti verið mismikið eftir því hvar nemendur eru staddir í málanáminu og þörfum þeirra. Þannig er t.d. eðlilegt að hlustun og tali sé mestur gaumur gefinn í upphafi tungumálanáms og að vægi lestrar- og ritunarþáttar aukist eftir því sem ofar dregur í námsferlinu.

Gæta þarf þess að færniþættirnir séu kenndir hver í tengslum við annan þannig að kennslan endurspegli eðlilega notkun málsins. Þá ber að leggja áherslu á að kennslan einkennist ekki um of af einhliða færniþjálfun, heldur miði að því að gefa nemendum tækifæri til að nota málið sem tæki til lifandi tjáskipta. Til hagræðis verður þó fjallað um færniþættina fjóra hvern fyrir sig.
 

3.3.1 Hlustun

Nemendur þurfa að fá tækifæri til að hlusta á erlenda málið í ólíkum tilgangi. Hlustunarefni sem notað er í tungumálakennslu þarf að endurspegla hvernig málið er raunverulega notað. Í upphafi málanámsins ber að leggja áherslu á að hlusta eftir hrynjandi málsins, hljómfalli, ítónun og áherslum. Nýta má ýmiss konar myndefni til að auðvelda nemendum að skilja talað mál.

Mikilvægt er að nemendur séu í stakk búnir til að skilja og notfæra sér efni sem þeir heyra þó svo að þeir geti ekki tjáð sig á sama hátt. Við hlustun er því markmiðið tvíþætt: Annars vegar að gera nemendur færa um að taka þátt í gagnkvæmum tjáskiptum (zweiseitige Kommunikation), þ.e. nemandinn tekur þátt í samskiptunum og bregst við. Hins vegar eru „einhliða" tjáskipti (einseitige Kommunikation) þar sem nemandinn þarf að skilja leiðbeiningar eða önnur boð sem hann heyrir og þarf að geta nýtt sér og farið eftir án þess að bregðast við sem málnotandi. Á sama hátt og í daglega lífinu þurfa nemendur t.d. að hlusta eftir tilteknum upplýsingum, leita eftir lykilorðum eða glöggva sig á því hvað sé á seyði við ákveðnar aðstæður. Mikilvægt er að vekja athygli nemenda á því hvernig þeir geta nýtt sér þá þekkingu og færni sem þeir hafa fyrir í móðurmálinu eða í öðrum málum. Augljóst er að því betri þekkingu sem nemendur hafa á viðfangsefninu og því meiri sem orðaforði þeirra er, því auðveldara er að skilja talað mál. Nauðsynlegt er að notfæra sér þetta í málakennslunni og tengja hlustunina sem best öðrum þáttum málanámsins. Í því sambandi má nefna sérstaklega samþættingu færniþátta í vinnu með þemu eða stærri verkefni. Vinna með þemu beinir sjónum að ákveðnu innihaldi og afmörkuðum orðaforða svipaðrar eða skyldrar merkingar sem getur auðveldað nemendum að ná tökum á viðfangsefninu. Kennarar ættu að kappkosta að nota málið í samskiptum sínum við nemendur því á þann hátt má auka stórlega áreitið á hinu erlenda máli. Margbreytilegur flutningur talaðs máls á mynd- og hljómböndum, ásamt tölvu- og margmiðlunarefni ætti að vera sjálfsagður þáttur í málanáminu.
 

3.3.2 Lestur

Megintilgangurinn með lestri er að nemendur venjist á að lesa sér til ánægju og til að afla sér þekkingar. Jafnframt gegnir lesturinn mikilvægu hlutverki við öflun orðaforða. Lesturinn gefur lesandanum einnig innsýn í margbreytilega notkun málsins og í menningarheim viðkomandi málsamfélags og opnar aðgang að textum sem hafa fagurfræðilegt eða listrænt gildi. Nemendur þurfa að kynnast mismunandi lestraraðferðum og venjast því að lesa með ólíkan tilgang í huga. Má þar nefna nákvæmnislestur, hraðlestur, leitarlestur og yfirlitslestur. Mikilvægur er lestur áhugaverðra bóka af ólíkum toga sem höfða til áhugasviðs nemenda, upplýsingaleit á tölvuneti, og lestur texta með umfjöllun um málefni líðandi stundar, alfræði- eða kynningarrita og sérhæfðra fræðirita. Varast ber stagl og einhliða þýðingar á móðurmálið. Nemendur þurfa að lesa ólíkar textagerðir og átta sig smám saman á sérkennum þeirra.

Í upphafi málanáms er eðlilegt að vinna með einfalda og aðgengilega texta en mikilvægt er að þeir þyngist og verði margbreytilegri strax og nemendur ráða við það. Nauðsynlegt er að nemendur læri að túlka texta, „lesa milli línanna", ráða í dýpri merkingu, draga eigin ályktanir og leggja mat á og verða læsir á vísinda- og fræðitexta. Dagblaðatextar, tímaritstextar, bókmenntatextar, textar í uppsláttarritum og textar á leitarvef hafa allir sín sérkenni. Við val á textum er mikilvægt að huga að textagerð, orðaforða og málnotkun, þ.e. hvers konar orðaforði er nauðsynlegur til að geta skilið ákveðinn texta og hvaða málnotkunarreglum þarf að kunna skil á til að geta áttað sig á samhengi í texta.

Ástæða er til að ætla að textaval í íslenskum skólum hafi að jafnaði verið of einhæft og aðaláherslan verið lögð á lestur og vinnu með bókmenntatexta. Ef nemendur vinna með mjög einhæfa texta, jafnvel í löngu námi í erlendum tungumálum, verða þeir ekki sjálfkrafa vel færir um að lesa hvað sem er. Í textum fræðilegs eðlis er annars konar orðaforði en í bókmenntatextum. Með notkun aðgengilegra fræðirita, dagblaða og tímaritsgreina er hægt að brúa það bil sem þarna er á milli og reynist nemendum oft afar erfitt að takast á við, t.d. í námi á háskólastigi. Lykilatriði er að nemendur kynnist fjölbreyttum textum og að þeir séu valdir með tilliti til þess að nemendur geti tekist á við sífellt þyngri texta.
 

3.3.3 Tal og framburður
 
3.3.3.1 Tal

Nauðsynlegt er að nemendur venjist á að tala málið allt frá upphafi málanáms. Í því sambandi ber að ítreka mikilvægi þess að kennslan fari fram á viðkomandi máli. Æskilegt er að nota margs konar myndefni sem leið til að örva hugmyndaflug og málnotkun nemenda. Má þar nefna kvikmyndir, ljósmyndir, teikningar o.s.frv. Beina þarf sjónum að ýmsum kurteisisvenjum og föstum orðatiltækjum daglegs máls. Ekki er óeðlilegt í upphafi málanáms að nemendur líki eftir ræðu annarra, en þó skal kappkosta að gefa nemendum sem fyrst og oftast tækifæri til að nota málið á skapandi hátt, þannig að þeir þurfi sjálfir að mynda setningar og koma orðum að hugsun sinni. Nemendur þurfa að öðlast skilning á því hvernig notkun málsins ræðst af aðstæðum hverju sinni, m.a. með tilliti til þess hvað telst viðeigandi málnotkun. Við þjálfun talmáls ber að hafa í huga hér sem endranær að æfingin skapar meistarann. Þess vegna þurfa nemendur að fá ríkuleg tækifæri til að tjá sig og taka þátt í orðræðu, m.a. um ýmis álitamál. Mikilvægt er að tengja vinnu með orðaforða og málnotkun við þjálfun í töluðu máli. Hefðbundin kennarastýrð bekkjarkennsla hentar illa við þjáfun talmáls þar sem að hún takmarkar mjög þann tíma sem hver nemandi fær til að tjá sig. Til að auka þann tíma er mælt með notkun talæfinga þar sem nemendur tjá sig í pörum eða litlum hópum. Einnig má benda á notkun hljóm- og myndbanda, bæði til að vinna að stuttum afmörkuðum samtalsverkefnum og stærri verkefnum.

Eins og jafnan er mikilvægt að verkefnin séu þannig úr garði gerð að nemendur þurfi að leita lausna, að þeir skynji ólíkan tilgang með notkun málsins og að þau útheimti að nemendur hagi orðum sínum í samræmi við aðstæður hverju sinni.
 

3.3.3.2 Framburður

Kappkosta þarf að nemendur nái góðum tökum á framburði. Huga þarf að ólíkum framburði móðurmálsins og hins erlenda máls. Þjálfa þarf talað mál og framsögn á öllum skólastigum. Greina má þjálfun í framburði í tvo samofna þætti, þ.e. framburð og framsögn. Framburðurinn snertir taltæknina þ.e. ólík hljóð, áherslur, hljómfall, ítónun og hrynjandi. Góð framsögn og skýr framburður er lykilatriði í samskiptum á hinu erlenda tungumáli. Það er gagnlegt og nýtist við allar aðstæður í daglegu lífi að geta flutt texta munnlega, skýrt og áheyrilega, svo sem í skóla, á mannamótum og í fjölmiðlum. Í upphafi ber að leggja áherslu á framburð allra málhljóða og að nemendur tileinki sér hljómfall og hrynjandi málsins. Eftir því sem ofar dregur þurfa nemendur að átta sig á hljóðkerfi málsins og sambandi framburðar og stafsetningar.
 

3.3.4 Ritun

Það gildir um ritun eins og talað mál að hún þarf að tengjast sem best vinnu með aðra færniþætti. Ritun festir í sessi orðaforða og stuðlar að skapandi notkun málsins. Eins og jafnan er mikilvægt að nemendur tjái sig skriflega með eigin orðum í ólíkum tilgangi. Oft er nauðsynlegt að grípa til bundinna ritunaræfinga til að þjálfa sérstaklega tiltekin málfarsleg atriði sem nemendum reynast erfið eða þörf er á að festa frekar í hugum þeirra. Leggja ber þó höfuðáherslu á að nemendur þurfi sjálfir að koma orðum að hugsunum sínum. Í upphafi er eðlilegt að nemendur tjái sig á einfaldan hátt um sjálfa sig, áhugamál sín og umhverfi. Eftir því sem á líður málanámið ber að leggja aukna áherslu á að nemendur tileinki sér ritun ólíkra textagerða. Má þar nefna sendibréf, tölvupóst, kvæði, lesendabréf, umsóknir, smásögur, gerð heimasíðu og greinar um ýmis álitamál. Ferlisritun auðveldar nemendum að tjá sig í rituðu máli. Síðast en ekki síst má nefna tölvuskeyti og samskipti á spjallrásum sem eru eins konar sambland af talmáli og ritmáli. Fyrirsjáanlegt er að notkun rafrænna miðla á eftir að aukast í nánustu framtíð. Því er sérlega mikilvægt að hyggja að þessum þætti í málakennslu, ekki síst þar sem hann er mjög hvetjandi fyrir málanámið.
 

3.4 Menning og samskipti

Lifandi tungumál eru síbreytileg og tengsl málnotkunar og menningar eru órjúfanleg. Á það jafnt við um menningu daglegs lífs og um fagurbókmenntir og listir. Nauðsynlegt er að tengsl tungumála, félagslegra samskipta og menningar endurspeglist í kennslunni. Kynni af dægurmenningu og samskiptaháttum eru lykilatriði eigi nemendur að ná þeim tökum á erlendu máli að það nýtist þeim í námi og starfi.

Í því skyni að nemendur kynnist menningu, siðum og þjóðfélagsháttum í þeim löndum þar sem málið er talað ber að stuðla að persónulegum samskiptum nemenda og þeirra sem málið nota, t.d. með bréfa- og tölvusamskiptum, nemendaheimsóknum og kennaraskiptum. Þá er æskilegt að gera menningu viðkomandi lands sýnilega í kennslustofunni með því m.a. að nota efni sem fjallar á ólíkan hátt um málefni líðandi stundar, t.d. í dagblöðum, tímaritum, sjónvarpi, útvarpi eða á tölvuneti. Á öllum stigum málanáms bera að stuðla að því að nemendur fái sem oftast tækifæri til að upplifa hið erlenda mál eins og það er notað í daglegu lífi af þeim sem hafa það að móðurmáli.
 

Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða