Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða
 
4. Kennsluhættir
 

4.1 Almennt um kennsluna

Áhersla á lestur er styrkur í kennsluhefð hér á landi og ber að stuðla að því að þeim þætti sé haldið við. Þó bendir margt til þess að bókmenntatextar séu notaðir of einhliða og að auka þurfi fjölbreytni í textavali, m.a. til að efla sérhæfðan orðaforða nemenda.

Þýðingar, einkum yfir á íslensku, virðast enn snar þáttur í málakennslu á Íslandi. Ástæða er til að vara við of einhliða áherslu á þýðingar á móðurmálið. Þýðingar eru tímafrekar og takmarka því námsefnið. Áhersla er aðallega lögð á móðurmálið og nemendur heyra ekki né nota erlenda málið. Koma verður í veg fyrir að nemendur þurfi einungis að endursegja, meira eða minna vélrænt, hugsun og orðalag annarra, t.d. innihald texta kennslubókarinnar. Tungumál lærist fyrst og fremst með því að nota það á skapandi hátt. Því er mikilvægt að efni sem unnið er með gefi nemendum færi á að tjá sig og að kennslan gefi þeim tækifæri til þess að kljást við málið í ólíkum tilgangi. Fyrst eru viðfangsefnin einföld og stýrð og taka til fárra þátta í senn, en eftir því sem líður á námið verða viðfangsefnin fjölbreytilegri, taka til fleiri færni- og kunnáttuþátta og reyna í auknum mæli á sjálfstæði nemenda (t.d. verkefnavinna).
 

4.2 Virkni nemenda

Kennsluhættir þurfa að vera sveigjanlegir og taka mið af þroska og námsgetu einstakra nemenda. Rétt er að undirstrika að allt áreiti (stimulans) á málinu og vinna í tengslum við það skiptir sköpum við tileinkun málsins. Því meira sem er lesið, því oftar sem er talað, því oftar sem hlýtt er á málið og því oftar sem ritað er því meiri árangurs er að vænta í málanáminu.

Nýta þarf áhugasvið nemenda í þágu málanámsins og leiðbeina þeim um hvernig þeir geta notað málið sem tæki til að afla sér upplýsinga um hugðarefni sín. Leggja ber áherslu á sjálfstæð vinnubrögð og ábyrgð nemenda í eigin námi. Í því sambandi er brýnt að gera nemendum ljóst hvernig málanám fer fram og hvaða aðferðir þeir geta notað til að gera nám sitt markvissara og árangursríkara.

Eigi nemandi að bera ábyrgð á eigin námi er nauðsynlegt að bjóða upp á sveigjanlega kennsluhætti, m.a. námsaðgreiningu, svo að hver nemandi geti lært málið út frá eigin forsendum.
 

4.3 Heimavinna

Í íslenskum skólum hefur verið hefð fyrir heimavinnu nemenda bæði í grunn- og framhaldsskólum. Viss teikn eru um að heimavinna sé á undanhaldi - við því verður skólakerfið að bregðast. Mikilvægt er að nemendur þurfi áfram að vinna utan kennslustunda á báðum skólastigum. Leggja þarf áherslu á ábyrgð nemenda og forráðamanna í málanáminu jafnt sem öðru námi. Námið þarf að skipuleggja þannig að heimavinna nemenda felist ekki einvörðungu í lestri hefðbundinna kennslubóka, heldur í margvíslegri notkun málsins og að nemendur nýti sér fjölbreytilega tækni. Heimavinna er ekki síst mikilvæg vegna þess að tíminn til tungumálakennslu er lítill í skólanum en tungumálanám krefst stöðugrar þjálfunar og sjálfstæðrar vinnu. Æskilegt er að nemendur sinni heimanámi og þurfi að bera ábyrgð á þeirri vinnu. Þeir eiga með öðrum orðum ekki að venjast á að öll sú vinna sem sett er fyrir heima sé að meira eða minna leyti endurtekin í kennslustundinni, heldur þurfi þeir að takast á við ný verkefni þar sem heimavinnan er lögð til grundvallar.
 

4.4 Kennsla einstakra tungumála

Kennsla einstakra mála þarf að taka mið af stöðu þeirra og hlutverki í þjóðfélaginu. Hyggja þarf t.d. að því mikla áreiti sem íslensk ungmenni verða fyrir á ensku og hvernig hægt er að nýta það til aukinnar færni í því tungumáli. Á sama hátt þarf að huga sérstaklega að því hvernig haga megi kennslu í þeim málum sem sjaldan heyrast í daglegu lífi. Í þeim málum er sérlega mikilvægt að nemendur hafi aðgang að gnægð hlustunarefnis, lesefnis og efnis á myndböndum. Með því móti að nemendur heyri og lesi sem mest er hægt að skapa málumhverfi sem ekki er til staðar hér á landi.
 

4.5 Lengd kennslustunda

Í tungumálakennslu skiptir lengd kennslustunda miklu máli og hvernig þeim er raðað niður. Í byrjendakennslu er mikilvægt að hafa margar stakar kennslustundir og dreifa þeim jafnt á kennsluvikuna. Því yngri sem nemendurnir eru því minna úthald hafa þeir. Þegar leikni er náð og nemendur eru orðnir eldri og þroskaðri er æskilegt að geta að einhverju leyti komið við samfelldum tímum, t.d. til verkefnavinnu. Þeirri meginreglu skal þó fylgt að sérhvert tungumál sé kennt eina kennslustund í senn.
 

4.6 Upplýsingatækni margmiðlun

Tölvutækni og rafræn samskipti opna áður óþekkta möguleika í samskiptum þjóða og við öflun upplýsinga. Sé vel að málum staðið geta tölvur og tölvusamskipti leitt til gagngerra breytinga í tungumálakennslunni. Á örskotsstund er hægt að afla hvers konar upplýsinga hvaðanæva úr heiminum. Mikilvægt er að þessir nýju möguleikar séu nýttir í þágu málanáms og nemendur jafnframt vandir við að hagnýta sér kosti þessara miðla. Nefna má upplýsingaleit á veraldarvef, tölvusamskipti við einstaklinga eða notkun spjallrása í þjálfunarskyni.

Þær miklu breytingar sem orðið hafa í samskipta- og upplýsingatækni á síðustu árum bjóða upp á gífurlega möguleika í tungumálanámi. Vinnuhópurinn leggur áherslu á þá staðreynd að hluti tungumálanáms geti nú farið fram í tölvuverum þar sem nemendur hafa aðgang að margmiðlunarefni, veraldarvef og kennsluforritum viðkomandi tungumáls. Í slíkum tölvuverum geta nemendur stundað stýrt sjálfsnám og æft ýmis atriði í tungumálanáminu og aukið færni sína í málinu utan hefðbundinna kennslustunda. Í kennslu í erlendum tungumálum er því hægt að þjálfa tölvulæsi nemenda um leið og ákveðnir þættir í tungumálinu eru þjálfaðir. Forvinnuhópurinn vill taka fram að ekki nægir að skólar séu vel tölvuvæddir, heldur þarf einnig að tryggja að tungumálakennarar fái aðgang að tölvustofum og tölvuverum með ákveðna þætti kennslunnar. Við menntun tungumálakennara þarf að leggja áherslu á að verðandi tungumálakennarar þjálfist í notkun nýrra miðla við kennsluna.
 

4.7 Myndefni

Myndefni er eðlilegur hluti daglegs lífs og nútímamenningar, bæði lifandi myndir og myndir í hefðbundnari merkingu. Nægir að benda á afþreyingarmyndir, fræðslumyndir og myndir til upplýsinga af öllu tagi. Eðlilegt er að líta á myndefni sem sjálfsagðan hlut í kennslu erlendra tungumála og að notkun slíks efnis tengist þjálfun færniþátta.
 

4.8 Mat á skólastarfi, fagleg ráðgjöf og rannsóknir

Á undanförnum misserum hefur mjög mikið verið rætt um mat í skólastarfi, einkum með tilliti til aukins árangurs. Mat hlýtur því að taka mið af þeim markmiðum sem sett hafa verið í skólastarfi og svara spurningum um hvort markmið hafi náðst og hvernig hafi gengið að fylgja þeim. Miklu skiptir að niðurstöður mats séu notaðar til að vinna að umbótum í skólastarfi, þar með talið í kennslu erlendra tungumála. Í framhaldi af mati er brýnt að gera áætlun um umbætur og skilgreina leiðir til að framkvæma þær. Þannig mætti hugsa sér að kennurum stæði til boða mat á kennslu þeirra.

Forvinnuhópurinn leggur til að tungumálakennurum standi ávallt til boða fagleg ráðgjöf innan hvers tungumáls.

Nauðsynlegt er að efla rannsóknir í kennslu erlendra mála sem stutt gætu tungumálakennslu í landinu. Koma þarf á rannsóknatengdu tungumálanámi á háskólastigi. Forvinnuhópurinn undirstrikar að nánast engar rannsóknir hafa verið gerðar á kennslu og námi í erlendum málum á Íslandi og að gera þarf stórátak í þessum efnum.
 

Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða