Fyrri síða
Yfirlit
Næsta síða
 
5. Um markmið tungumálanáms

Framsetning markmiða í kennslu erlendra mála í grunn- og framhaldsskólum í skýrslu þessari byggjast á lögum um grunn- og framhaldsskóla og þeim sjónarmiðum sem fram hafa verið sett.
 

5.1 Um markmið tungumálanáms í grunnskóla

Við gerð námskrár skal þess gætt að markmið séu skýr svo að ekki fari á milli mála að hverju kennarar og nemendur skuli stefna í starfi sínu. Aðalnámskrá hefur að geyma yfirskipuð markmið skólastarfs í landinu sem skólanámskrár eiga að byggja á. Af þeirri ástæðu þurfa markmið að vera ljós. Í núgildandi námskrám hefur verið farin sú leið að blanda saman markmiðum og leiðbeiningum til kennara og nemenda. Oft hefur verið bent á að þessi framsetning valdi misskilningi þar sem ekki sé ljóst hver séu hin skilgreindu markmið námsins og hvað séu leiðbeiningar um námstilhögun. Lagt er til að í nýjum aðalnámskrám verði gerður skýr greinarmunur á markmiðssetningu og leiðbeiningum. Einnig leggur forvinnuhópurinn til að gefið verði út kver fyrir hvert tungumál er innihaldi skýrt aðskilda kafla með skilgreindum markmiðum fyrir nám í viðkomandi tungumáli og leiðbeiningum um tilhögun kennslu (eins konar kennarahandbók).

Gerð er tillaga um að í nýrri aðalnámskrá fyrir grunnskóla verði framsetningu markmiða breytt frá núgildandi námskrá. Í stað þess að setja markmið um allt tungumálanám í grunnskóla, eins og nú er, verði þeirri tilhögun komið á að setja markmið í hverju tungumáli fyrir tveggja ára námstímabil í senn. Þannig verði sett markmið fyrir þrjú tveggja ára námstímabil í fyrsta máli, tvö í öðru máli og eitt í þriðja máli, sbr. eftirfarandi yfirlit:
 
1. mál  2. mál 3. mál
5. bekkur    
6. bekkur    
7. bekkur 7. bekkur  
8. bekkur 8. bekkur  
9. bekkur 9. bekkur 9. bekkur
10. bekkur 10. bekkur 10. bekkur
 
Lagt er til að þriðja mál verði í boði sem valgrein fyrir nemendur í 9. bekk sem hneigðir eru fyrir tungumálanám og að nám í þriðja máli taki mið af þessum undirbúningi við upphaf framhaldsskóla þannig að ákveðinn hluti nemenda nái með nýrri tilhögun umtalsvert lengra í þriðja máli en nú er raunin.

Hvert námstímabil skal endurspegla það sem eðlilegt er að ætlast til af nemendum á viðkomandi aldursstigi. Taka þarf tillit til þess við markmiðssetninguna hvort um fyrsta, annað eða þriðja erlenda mál er að ræða. Í lögum er kveðið á um samræmd próf í grunnskólum í 4. og 7. bekk og í skýrslu stefnumótunarnefndar er lagt til að samræmd próf verði í ensku í lok 7. bekkjar. Það er mat forvinnuhóps að skynsamlegt væri að skipuleggja málanámið sem tveggja ára námsferli í senn og hægt væri að viðhafa námsmat í lok hvers þeirra, t.d. með samræmdum könnunarprófum. Þannig yrði t.d. hægt að prófa á grundvelli námsmarkmiða í fyrsta máli í lok 6., 8. og 10.bekkjar, í öðru máli í lok 8. og 10. bekkjar og í þriðja máli í lok 10. bekkjar.

Markmið í erlendum málum skulu öðru fremur taka mið af því hvernig nemendur geta notað málið sem tæki til tjáskipta en ekki stýrast einhliða af formgerðum málsins. Í byrjendakennslu skal megináhersla lögð á hlustun, orðaforða og talmál. Markmið í byrjendakennslu skulu skilgreind með hliðsjón af því hvernig nemandinn á að geta notað málið og til hvers. Þá ber að skýra hvernig smám saman er byggð upp færni og kunnátta í málinu með sífelldri notkun þess. Á seinni stigum námsins skulu markmið m.a. skilgreind á grundvelli færniþátta og reglna um málnotkun og formgerð málsins, sbr. kafla 2. Æskilegt væri að gefa einhverjar viðmiðanir um námsmagn.
 

5.2 Byrjendakennsla

Á öllum stigum málakennslu er mikilvægt að laga kennsluhætti og námsefni að þroska, getu og áhuga nemenda. Nýta þarf þekkingu þeirra og færni á ýmsum sviðum. Nemendur eru yfirleitt jákvæðir og áhugasamir þegar þeir byrja að læra nýtt tungumál. Flestir gera sér einhverja grein fyrir gagnsemi þess að kunna erlend mál og hafa oftast miklar væntingar til námsins. Þess vegna er mjög mikilvægt að kennslan sé lifandi, að nemendum miði hratt áfram og að þeir sjái fljótt árangur af náminu, t.d. með því að geta tjáð sig munnlega um ákveðna hluti í umhverfi sínu og síðan farið að lesa og skrifa eins fljótt og kostur er.

Í byrjun þurfa nemendur að glíma við tungumálið oft og reglulega til þess að skjótur árangur náist. Því þarf að tryggja að kennslustundir séu fleiri en nú er og ekki færri en þrjár á viku. Hópurinn telur æskilegt að alla jafna séu kenndir einfaldir tímar, þ.e. 40 mínútur í senn og jafnvel mætti hugsa sér styttri kennslustundir fyrir yngstu nemendurna. Brýnt er að nemendum sé gerð grein fyrir markmiðum í tungumálanáminu og hvernig tungumál lærist svo að þeir geti unnið sjálfstætt og nýtt sér þekkinguna í námi sínu.
 

5.2.1 Byrjendakennsla í fyrsta erlenda máli

Í tillögu stefnumótunarnefndar er gert ráð fyrir að nemendur hefji enskunám í 5. bekk. Til lengri tíma litið telur forvinnuhópur að ganga eigi enn lengra og að kennsla í fyrsta erlenda tungumáli hefjist í 4. bekk. Má í því sambandi benda á hæfileika og áhuga ungra barna til að læra erlend mál. Komi slík tillaga til framkvæmda er eðlilegt að nám í dönsku hefjist tveimur árum síðar, þ.e. í 6. bekk. Benda má á að nokkrar nágrannaþjóðirnar hafa þegar stigið þetta skref.

Í byrjendakennslu fyrsta erlenda tungumáls er einnig lagður grunnur að námi í öðrum erlendum tungumálum, þ.e. nemendur verða meðvitaðir um hvernig tungumál lærist.

Í byrjendakennslu þarf að styðjast við þekkingu nemenda á móðurmálinu og hjálpa þeim við að yfirfæra þekkingu sína á erlenda málið. Í byrjun á að leggja megináherslu á hlustun og tal, t.d. með leik og söng. Frá upphafi skal hugað sérstaklega að því hvernig best megi þroska málvitund nemenda.

Tungumálanám krefst mikillar virkni nemenda. Í kennslunni þarf að gefa nemendum tækifæri til að nota málið út frá eigin forsendum og fara frá hinu þekkta til hins óþekkta. Kennarar eiga að nýta sér hversu ófeimnir nemendur eru og viljugir til að tjá sig og spreyta sig á nýjum viðfangsefnum. Þetta á ekki síst við um þjálfun framburðar.
 

5.2.2 Byrjendakennsla í öðru erlenda máli

Við upphaf kennslu annars erlends máls eru nemendur komnir með einhverja kunnáttu í einu tungumáli, auk móðurmálsins. Þetta þýðir að unnt er að fara hraðar í gegnum byrjendaferlið í öðru tungumáli en í því fyrsta. Þar sem nemendur eru orðnir nokkuð eldri og þroskaðri en við upphaf náms í fyrsta erlenda máli og hafa kynnst kennsluháttum og vinnubrögðum í tungumálanámi þarf að taka tillit til þess í kennsluháttum og viðfangsefnum.

Eins og í fyrsta erlenda máli er áherslan í byrjendakennslu annars erlends máls lögð á hlustun og talmál. Eins og áður eru allir færniþættir mikilvægir og þjálfun þeirra þarf að haldast í hendur, en lestur og ritun þurfa að tengjast fyrr tali og hlustun en þegar um yngri nemendur er að ræða. Þá er sérstök áhersla lögð á að efla málvitund nemenda með fjölbreytilegum viðfangsefnum sem henta þessu aldursstigi.
 

5.2.3 Byrjendakennsla í þriðja erlenda máli

Eins og áður hefur komið fram er gert ráð fyrir að nemendur geti valið um nám í þriðja erlenda tungumáli í 9. bekk grunnskóla og stundað námið í tvo vetur. Við upphaf náms í þeim málum er mikilvægt að hyggja að þeirri reynslu sem nemendur eru þegar komnir með af málanámi í fyrsta og öðru erlenda máli og taka mið af því við skipulag kennslunnar.
 

5.3 Um markmið tungumálanáms í framhaldsskóla

Í framhaldsskólanum eiga nemendur kost á að velja ýmsar ólíkar námsbrautir eftir áhugasviði, undirbúningi úr grunnskóla og getu. Í tungumálanámi á þessum brautum er byggt á þeirri kunnáttu og færni í erlendum málum sem nemendur hafa tileinkað sér í grunnskóla. Ef nemendur hefja nám í þriðja erlenda tungumáli í 9. bekk þurfa þessir nemendur að fá eðlilegt framhald í þriðja málinu. Þannig verði um tvenns konar stúdentspróf að ræða í þriðja erlenda tungumálinu sem miðist við lengd námsins. Í framhaldsskólum er nemendum veitt almenn menntun og þeir undirbúnir fyrir frekara nám og starf. Koma má til móts við áhugasvið nemenda með því að láta þá vinna á sjálfstætt að stærri verkefnum og tengja nám í tungumálum þannig við nám í öðrum greinum.

Mikilvægt er að stefna að því að nemendur verði færir um að tjá sig á viðeigandi og hnitmiðaðan hátt í ræðu og riti. Þá verða þeir að vera færir um að skilja talað mál og lesa allþunga texta um almennt og sérhæft efni. Hér verður að sjálfsögðu að taka tillit til þess hvort um fyrsta, annað eða þriðja erlenda tungumál er að ræða, sbr. tillögur forvinnuhóps að lokamarkmiðum. Eins og áður hefur komið fram í skýrslunni leggur fjöldi nemenda stund á framhaldsnám erlendis að loknu stúdenstsprófi. Tungumálakennsla verður að taka mið af þessari staðreynd og undirbúa nemendur á fullnægjandi hátt.

Í nýjum lögum um framhaldsskóla er kveðið á um að bóknámsbrautir í framhaldsskóla skuli vera þrjár, félagsfræðabraut, náttúrufræðabraut og tungumálabraut. Samt sem áður er mikilvægt að hafa í huga að nemendur sem hafa útskrifast af ákveðnum brautum fara ekki endilega í áframhaldandi nám á því sviði og því er lögð áhersla á að allir nemendur fái haldgóðan menntunargrunn í erlendum tungumálum. Mikilvægt er að framhaldsskólinn sníði nemendum ekki of þröngan stakk og að hugað sé vandlega að sveigjanleika í námi.
 

5.4 Félagsfræðabraut og náttúrufræðabraut

Nám í erlendum tungumálum á þessum brautum þarf að vera þannig uppbyggt að nemendur öðlist góða almenna færni en að áhersla verði einnig lögð á fagbundin viðfangsefni. Gert er ráð fyrir að nemendur læri a.m.k. þrjú erlend tungumál og að undirbúningur sé nægjanlegur til að takast á við frekara nám, m.a. á háskólastigi, þ.e. að nemendur geti viðstöðulítið haldið áfram að nota erlenda málið sér til gagns.

Mikilvægt er að nemandi tileinki sér fagbundinn orðaforða brautarinnar á hinu erlenda máli. Lesfærni er mikilvæg til að geta nýtt sér fagtímarit og sérhæft efni og til að geta lesið úr kortum, töflum og upplýsingum sem eru sett fram á annan hátt en í rituðu máli, þ.e. vísindalæsi. Mikilvægt er að nemendur nái það góðum tökum á töluðu máli að þeir geti tjáð sig um almennt og sérhæft efni á erlenda málinu. Hlustun, skilningur á töluðu máli og ritun þarf að vera með þeim hætti að nemendur verði undir það búnir að geta tekið þátt í almennum og faglegum samskiptum á erlenda málinu, þ.e. stuðla þarf að því að nemendur nái tökum á alhliða notkun málsins. Til að auðvelda nemendum að tileinka sér fagorðaforða þarf að huga að textum sem geta brúað bilið milli almennra texta og mjög sérhæfðra fræðitexta.
 

5.5 Tungumálabraut

Á tungumálabrautum er markmiðið að nemendur öðlist mikla færni og kunnáttu í erlendum tungumálum og þekkingu á formgerðum, eðli og hlutverki tungumála. Gert er ráð fyrir fleiri einingum í tungumálanámi en á öðrum brautum. Auk þess komi til kennsla í málvísindum sem gæti verið í formi styttri eða lengri verkefna sem nemendur ynnu að sjálfstætt. Nemendur skulu læra fjögur erlend mál. Latína verði skylda í fornmálanámi og gríska valgrein. Lagt er til að latína verði í boði sem valgrein fyrir nemendur á öllum bóknámsbrautum.

Nám á tungumálabrautum þarf að mynda góða og trausta undirstöðu fyrir nám á háskólastigi, bæði í erlendum tungumálum og í greinum sem fjalla um uppbyggingu tungumála og eðli þeirra. Þjálfa þarf alla færniþættina í tungumálinu svo að nemendur verði jafnvígir á talað og ritað mál, lestur og hlustun. Auk þess þurfa nemendur að kynnast þjóðfélagsháttum, menningu og sögu viðkomandi málsvæðis. Nauðsynlegt er að nemendum verði ljós mismunandi gerð einstakra tungumála og skyldleiki þeirra. Erlendu tungumálin verða að skipa þann sess á málabrautum sem kjarnagreinar hafa á öðrum námsbrautum framhaldsskólans.

Lagt er til að á málabrautum verði boðið upp á viðfangsefni sem tengjast málvísindum, sögu og menningu í þeim tilgangi að kynna nemendum störf sem bjóðast með tungumálakunnáttu að baki. Vel mætti hugsa sér að hluti af því námi væri í formi sjálfstæðrar verkefnavinnu með viðfangsefni eins og þau sem hér eru nefnd: Máltaka barna, málfar unglinga, málfar vissra hópa (t.d. starfsstétta), mállýskumunur eftir landsvæðum, málfarsmunur kynslóða, tölvutækt mál, þýðingarfræði, túlkastörf, málvísindaverkfræði, samanburður á bómenntatextum og samanburður á völdum þáttum í málkerfi íslensku og erlends tungumáls. 
 

5.6 Iðnnám og starfsnám

Hópnum var ekki falið að gera markmið fyrir iðn- og starfsnám, en er sammála um að inntak námsins skuli taka mið af eðli þess og þörfum nemenda. Í því sambandi má minna á áætlanir og samstarfsverkefni Evrópusambandsins. Til að uppfylla þær samþykktir og til að geta tekið þátt í þeim verkefnum sem þar bjóðast er tungumálakunnátta nauðsynleg. Einnig ber að hafa í huga möguleika nemenda á framhaldsnámi og verður þá að taka mið af þeim löndum þar sem framhaldsnámið er stundað.7)

5.7 Valnámskeið

Eins og málum er háttað nú er venja að bjóða upp á valnámskeið sem standa í heila önn. Æskilegt væri að tekið yrði upp sveigjanlegra fyrirkomulag þannig að auka mætti val og fjölbreytileika í málanáminu. Lagt er til að boðið verði upp á lengri og styttri valnámskeið í sem flestum tungumálum og gætu þau verið á bilinu 2 vikur til 2 mánuðir. Æskilegt væri að samþætta tungumál og ýmsar aðrar námsgreinar. Sérstök ástæða er til að benda á möguleika á að fá gestakennara, innlenda sem erlenda, til að kenna á slíkum námskeiðum.
 

Fyrri síða
Yfirlit
Næsta síða