Fyrri síða
Yfirlit
Næsta síða
 
6. Athugasemdir

6.1 Samræmd próf

Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi samræmdra prófa og áhrif þeirra á tungumálakennslu. Eins og málum er nú háttað prófa samræmd próf nemendur í lestri, hlustun og ritun. Sérstök ástæða er til að benda á að ekkert samræmt námsmat fer fram í töluðu máli og auk þess er vægi ritunar fremur lítið. Eins og staðan er í dag eru bein og óbein skilaboð samræmdu prófanna út í skólaumhverfið að talmálsþjálfun og ritun skipti tiltölulega litlu máli. Þannig fá skapandi þættir málanáms, sem eru afar mikilvægir í málanámi, mjög lítið vægi. Þá byggjast prófverkefnin að miklu leyti á krossaprófum. Það er því aðeins í ritunarþættinum sem nemendur þurfa að hafa á takteinum eigin orðaforða og tjá sig með eigin orðum. Í öðrum tilvikum nægir að kannast við þau orð sem gefin eru. Það blasir við að mikill munur er á að kannast við tiltekið efni og geta kallað það fram í hugann, þ.e. að kannast við tiltekin þekkingar- eða málfarsleg atriði eða það að geta nýtt það sjálfur á skapandi hátt. Hætta er á að próf af þessu tagi viðhaldi úreltum kennsluháttum. Hér þarf því að verða breyting á.

Samræmd próf í erlendum málum þurfa að taka til allra færniþátta og reyna annars vegar á þætti sem lúta að skilningi á rituðu og mæltu máli og hins vegar á beitingu ritaðs og mælts máls; þau verða að reyna á skapandi þætti málsins.
 

6.2 Kennaramenntun

Þeir kennsluhættir sem hér er gengið út frá gera allmiklar kröfur til faglegrar kunnáttu og hæfni kennarans. Tungumálakennarinn er málfarsleg fyrirmynd nemenda, skipuleggjandi kennslunnar og leiðbeinandi nemenda í málanáminu. Fagmenntun tungumálakennara er tvíþætt. Tungumálakennarinn þarf að hafa mjög gott vald á því máli sem hann kennir, hafa trausta þekkingu á málinu, þekkja vel til menningar og þjóðfélagshátta í viðkomandi landi og ekki síður þarf kennarinn að hafa á valdi sínu kennslufræði erlendra mála eigi hann að geta skipulagt málanámið og kennt á sem markvissastan hátt. Stórefla má tungumálakennslu í landinu með því að auka fagmenntun kennara. Hér verður fjallað nánar um menntun tungumálakennara á hvoru skólastigi fyrir sig.

 
6.2.1 Menntun tungumálakennara í grunnskólum

Danska og enska eru eins og fjölmörg önnur fög á skyldunámsstigi valfög í kennaranámi við Kennaraháskóla Íslands en ekki kjarnagreinar. Engu að síður er gengið út frá því að allir grunnskólakennarar eigi að geta kennt allar námsgreinar, m.a. erlend mál, í 10 ára grunnskóla. Eins og nú háttar er bóklegt nám í valgrein 12 1/2 eining sem samsvarar tæplega eins misseris námi í háskóla. Á þessum stutta tíma á að veita væntanlegum kennurum menntun í tungumálinu, um tungumálið og í kennslufræði þess. Auk þess þurfa væntanlegir tungumálakennarar að hagnýta sér nýja miðla eins og tölvur og margmiðlunarefni í námi sínu og læra hvernig þeir geta nýst í tungumálakennslu svo að notkun þeirra verði sjálfsögð þegar út í skólana er komið. Rétt er að taka fram að fyrir nokkrum áratugum var gert ráð fyrir og ekki óalgengt að kennarar á gagnfræðastigi hefðu BA-próf í kennslugrein sinni eða jafnvel meistaragráðu. Það er með öllu óraunhæft að ætla að hægt sé að mennta hæfa tungumálakennara á þeim skamma tíma sem til ráðstöfunar er. Við blasir að ekki er raunhæft að vænta bættrar tungumálakennslu nema til komi breytt tilhögun kennaramenntunar með auknu vægi á fagmenntun.

Mat forvinnuhópsins er að lágmarksmenntun tungumálakennara í grunnskóla sé 45-60 eininga nám í hinu erlenda máli og kennslufræði þess. Þá verður að sjá til þess að ráðningu kennara verði þannig háttað að hún miðist við þær kennslugreinar sem þeir hafa menntað sig í.

Oft er réttilega bent á að fagmenntun kennarans skipti sköpum í efri bekkjum grunnskólans. Þetta á þó ekki einungis við um efri bekkina. Nefna má að í byrjendakennslu í tungumálum er markmiðið að gefa nemendum það veganesti sem duga má til þess að þeir nái alhliða færni í erlendum tungumálum. Slík kennsla útheimtir að kennarinn hafi mjög öruggt vald á málinu, þekkingu um málið, og kunni mjög vel að beita kennslufræði. Ljóst er að eigi 4-6 ára málanám í grunnskóla að skila tilætluðum árangri verða fagmenntaðir tungumálakennarar að annast kennsluna. Þetta á jafnt við um byrjendakennslu sem aðra kennslu í grunnskóla.

Mikilvægt er að fagmenntun tungumálakennara sé traust svo að þeir séu hæfir til að takast á við frekara nám í kennslugrein sinni, bæði á endurmenntunarnámskeiðum og í viðbótarnámi, t.d. á meistarastigi. Æskilegt væri að hluti af námi allra tungumálakennara færi fram í viðkomandi málsamfélagi, sbr. kafla um menntun framhaldsskólakennara.

Í kennaranámi við Háskólann á Akureyri er einungis boðið upp á þriggja eininga nám í dönsku og ensku sem er fyrst og fremst hugsað sem kynning. Það er augljóst að með slíku námi verða kennarar ekki í stakk búnir um að takast á við tungumálakennslu eins og henni er lýst hér í skýrslunni.
 

6.2.2 Menntun tungumálakennara í framhaldsskólum

Menntun tungumálakennara á framhaldsskólastigi er tvíþætt. Annars vegar er um menntun kennarans í viðkomandi tungumáli að ræða og hins vegar er um kennaramenntun að ræða, þ.e. kennslufræði til kennsluréttinda.

Kennarar, sem kenna tungumál, þurfa ævinlega að búa yfir mikilli kunnáttu í viðkomandi tungumáli. Lágmarksmenntun í málinu fyrir tungumálakennara ætti að vera þrjú ár í greininni á háskólastigi (90 einingar) og æskilegast væri að kennarar á efri stigum framhaldsskólans hefðu meistaragráðu eða M. Paed. próf í kennslugrein sinni, sbr. kröfur til kennara í nágrannalöndum okkar. Víða í nágrannalöndunum tíðkast það að tungumálanemum sé gert að taka hluta námsins (eitt ár) í landi þar sem tungumál það sem þeir leggja stund á er talað. Þetta hefur ekki tíðkast hér. Með þátttöku Íslands í alþjóðastarfi á háskólastigi og auknum stúdentaskiptum bjóðast kennaranemum ýmis tækifæri til þess að taka hluta af náminu erlendis. Æskilegt er að koma á varanlegu samstarfi við aðila erlendis þannig að tungumálanemum gefist kostur á að taka hluta af náminu þar. Í framtíðinni þyrfti námið að vera skipulagt þannig að eitt eða tvö misseri af menntun tungumálakennara væru við erlendar menntastofnanir. Í þessu sambandi gæti M. Paed. próf verið mjög góður kostur þar sem nemendur taka 60 einingar að loknu BA-prófi eða jafngildu háskólaprófi. 30 þessara eininga eru í tungumálinu og gæti hluti námsins eða námið allt verið við erlenda háskólastofnun sem væri í samstarfi við íslenskar kennaramenntunarstofnanir.

Forvinnuhópur bendir á að kennslufræði erlendra tungumála er lítill hluti af heildarnámi tungumálakennara og leggur til að einingafjöldi þess hluta námsins verði aukinn verulega. Lagt er til að kennsla á því fræðasviði sem tengist kennslu viðkomandi máls fari fram í hverju tungumáli. Einingafjöldi í kennslufræði erlendra tungumála í kennsluréttindanámi við HÍ er nú 5 einingar. Þennan þátt ætti að auka mjög verulega og lagt er til að einingafjöldi verði a.m.k. tvöfaldaður. Menntun tungumálakennara þarf auk þess í framtíðinni að taka mið af því hvort viðkomandi tungumál er kennt sem fyrsta, annað eða þriðja mál í grunn- og framhaldsskóla.

 
6.3 Rannsóknir í hagnýtum málvísindum og kennslu erlendra mála

Mikilvægt er að auka innlendar rannsóknir í erlendum tungumálum, hagnýtum málvísindum og kennslufræði tungumála. Nefna má að hvorki liggur fyrir nein íslensk rannsókn á því hvað veldur íslenskum nemendum erfiðleikum í tungumálanámi almennt eða í einstökum tungumálum. Þörf Íslendinga fyrir kunnáttu í erlendum tungumálum er afar verðugt rannsóknarefni, svo dæmi sé tekið. Í þessu samhengi má benda á sérstöðu Íslendinga sem fámennrar þjóðar með eigin þjóðtungu og mjög mikla þörf fyrir mikla og öfluga kunnáttu í erlendum tungumálum.

Nauðsynlegt er að bjóða upp á rannsóknartengt nám í tungumálum í Háskóla Íslands þar sem kostur gefst á að vinna að lengri eða styttri rannsóknaverkefum í tengslum við tungumálanám. Gera mætti slík rannsóknaverkefni að þætti í MA eða M.Paed. námi. Mikilvægt er að slíkt nám væri hægt að stunda samhliða kennslu.
 

6.4 Námsefni

Grunnskólar fá nær eingöngu úthlutað námsefni frá Námsgagnastofnun sem ræður því hvaða kennslubækur eru í boði. Endurnýjun námsefnis í ensku og dönsku hefur verið afar hæg og eru dæmi um að sama námsefnið hafi verið notað í meira en tvo áratugi. Í ensku eru ekki til kennslubækur sem samdar eru sérstaklega fyrir íslenska grunnskólanemendur, þær miðast ekki við íslenskt málsamfélag og þarfir íslenskra nemenda, heldur eru þær samdar fyrir alþjóðamarkað.

Margt bendir til að einhæft kennsluefni stýri um of kennslunni og viðhaldi jafnvel úreltum kennsluháttum. Tryggja þarf stöðuga endurnýjun námsgagna bæði fyrir grunn- og framhaldsskóla og að ávallt sé fyrir hendi gott úrval kennslubóka og annars kennsluefnis. Gæta þarf þess að upplýsingar, málfar og öll málnotkun sé í takt við tímann. Einnig þarf að sjá svo um að þær hugmyndir sem fræðimenn hafa um það hvernig erlend mál lærast og sú kennslufræði sem lögð er til grundvallar samningu námsgagna, séu í samræmi við það sem best er vitað á hverjum tíma. Gera þarf skólum kleift að fá fjölbreyttara kennsluefni en nú er svo að hægt sé að mæta þörfum hvers og eins og nýta alla nútímatækni í þágu tungumálakennslunnar.

Æskilegt er að fleiri en nú er komi að útgáfu námsefnis fyrir grunnskóla til að auka á fjölbreytileika. Gera verður kröfur um að námsefni sé samið með íslenska nemendur í huga, þarfir þeirra og reynslu, og að efnið sé í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í námskrá.

Í framhaldsskólum standa nemendur sjálfir straum af kostnaði við bókakaup og þar hafa kennarar a.m.k. aðgang að fjölbreyttara kennsluefni en kennarar grunnskólans. Þó fer víðs fjarri að framboð sé ætíð í takt við tímann. Það er mat forvinnuhóps í framhaldi af útgáfu nýrrar aðalnámskrár og í tengslum við gerð hennar skuli huga sérstaklega að námsefnisgerð og námsefnisútgáfu fyrir grunn- og framhaldsskóla. Það er mjög vandasamt verk að semja gott námsefni og mikilvægt að það kennsluefni, sem í boði er fyrir íslenska nemendur, sé valið af fagmennsku og endurnýjað reglulega eftir því sem þörf krefur.
 

Fyrri síða
Yfirlit
Næsta síða