Fyrri síða
Yfirlit
Næsta síða
 
8. Lokaorð
 
Í skýrslu þessari hefur forvinnuhópur á námssviði erlendra tungumála sett fram tillögur sínar um faglega stefnumótun um tungumálakennslu á grunn- og framhaldsskólastigi, sbr. erindisbréf menntamálaráðherra. Í skýrslunni er leitast við að skilgreina þarfir íslensks þjóðfélags fyrir tungumálakunnáttu, sbr. skýrslu stefnumótunarnefndar þar sem undirstrikað er lykilhlutverk menntakerfisins í uppbyggingu atvinnulífs. Tillögur forvinnuhópsins taka annars vegar mið af þessum þörfum og hins vegar af kenningum fræðimanna um tungumálanám og kennslu. Þá voru stefnumið menntamálaráðuneytisins höfð til hliðsjónar við tillögugerðina, s.s. áhersla á vísindalæsi, alþjóðlegar kröfur, mat og eftirlit á skólastarfi, endurskoðun kennsluhátta og samfellu í námi.

Í störfum forvinnuhópsins kom fram að þó að tungumálakennsla eigi margt sameiginlegt eru kennsluhefðir í þeim tungumálum sem kennd eru í íslenskum skólum um margt ólíkar, m.a. vegna eðlis hvers tungumáls og sögu málanna sem kennslugreina í íslensku skólakerfi. Auk þess hafa tungumálin ólíka stöðu í þjóðfélaginu og í skólakerfinu. Vegna þessa var sú leið farin að koma með tillögur að lokamarkmiðum í hverju tungumáli fyrir sig og taka þannig tillit til sérstöðu hvers tungumáls með það í huga að gera markmiðin markvissari. Kappkostað hefur verið að gera markmiðin skýr og að í þeim sé eðlileg samfella og stígandi allt frá byrjun málanáms í grunnskóla til loka þess í framhaldsskóla. Verði tillögum forvinnuhóps um stefnumótun fylgt,vill hópurinn ítreka mikilvægi eftirlits með skólastarfi svo að markmiðin nái fram að ganga. Slíkt eftirlit gæti falist í samræmdum loka- og könnunarprófum, sbr. tillögur stefnumótunarnefndar og stefnu menntamálaráðuneytisins, eða í skipulögðu mati á skólastarfi, sbr. lög um grunn- og framhaldsskóla. Þá gætu rannsóknir á tungumálanámi og -kennslu gefið mikilvægar upplýsingar um þennan þátt skólastarfsins.

Í tillögum forvinnuhópsins og í framsetningu markmiða hefur verið höfð hliðsjón af skýrslu stefnumótunarnefndar þar sem fram kemur að enska verði fyrsta erlenda málið í stað dönsku. Jafnframt hefur verið horft til þeirrar áherslu stefnumótunarnefndar að menntaðir tungumálakennarar beri ábyrgð á ensku- og dönskukennslu í grunnskólum. Af þeirri ástæðu er fjallað sérstaklega um menntun tungumálakennara í samræmi við þær tillögur sem forvinnuhópur setur um stefnumótun í tungumálakennslu. Verði farið að tillögum forvinnuhópsins er óhjákvæmilegt að gera stórauknar kröfur til menntunar tungumálakennara.

Íslendingar eru fámenn þjóð sem byggir afkomu sína á útflutningi til fjölmargra landa. Jafnframt hafa þeir um aldir sótt menntun til útlanda. Því er það mikið hagsmunamál einstaklinga og íslensks þjóðfélags að tungumálakunnátta sé almenn og góð. Allt veltur á, að tungumálakennslan skili þeim árangri sem stefnt er að. Vert hefði verið að fjalla ítarlegar í skýrslunni um það mikilvæga hlutverk sem tungumál gegna á fjölmörgum sviðum þjóðlífsins, m.a. í menningar- og atvinnulífi. Þar sem ekki eru fyrirliggjandi neinar rannsóknar á þessu sviði hefði slík umfjöllun krafist frumrannsókna, sem ekki var verkefni þessa hóps. Þá vill forvinnuhópurinn benda á, að þrátt fyrir að miklu fé sé varið til tungumálakennslu hafa litlar sem engar rannsóknir verið gerðar á tungumálanámi og -kennslu, né heldur á því hvaða þarfir eru fyrir tungumálakunnáttu í atvinnulífinu. Þessar staðreyndir undirstrika á óyggjandi hátt mikilvægi þess að stórefla rannsóknir á þessu sviði, eins og forvinnuhópur leggur ríka áherslu á í tillögum sínum.

 

Fyrri síða
Yfirlit
Næsta síða