Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða
Formáli

 

Forvinnuhópur vegna endurskoðunar aðalnámskráa á grunn- og framhaldsskólastigi á námssviði erlendra tungumála var skipaður með erindisbréfi frá menntamálaráðherra, dagsettu 26. febrúar 1997. Forvinnuhópinn skipuðu sex eftirtaldir aðilar, þar af fjórir samkvæmt tilnefningu félaga dönsku-, ensku-, frönsku- og þýskukennara:

 

Auður Hauksdóttir, Kennaraháskóla Íslands (formaður)

Erna Jessen, Álftamýrarskóla

Guðrún Matthíasdóttir, Menntaskólanum við Hamrahlíð

Halla Thorlacius, Garðaskóla

Petrína Rós Karlsdóttir, framhaldsskólakennari

Oddný G. Sverrisdóttir, Háskóla Íslands

 

Faglegur umsjónarmaður endurskoðunar námskráa á námssviði erlendra tungumála, Gerður Guðmundsdóttir, starfaði með hópnum. Hlutverk hennar var að ákveða dagskrá funda í samráði við formann og bera ábyrgð á framvindu verksins gagnvart verkefnisstjórn, verkefnisstjóra og Menntamálaráðuneyti.

 

Samkvæmt erindisbréfi var hópnum falið að:

 

1. Rökstyðja þörf og tilgang námssviðs og námsgreina innan þess.

 

2. Setja fram tillögur um lokamarkmið námsins a) á grunnskólastigi b) á framhalds- skólastigi.

 

3. Gera tillögu, ef ástæða þykir til, um breytingar á skipulagi/uppbyggingu námsins.

 

Fyrsti fundur forvinnuhópsins var 14. mars 1997 og voru þá lögð fram gögn sem nýtast máttu við vinnuna:

 

1. Lög og reglugerðir um grunn- og framhaldsskóla.

2. Aðalnámskrá grunnskóla 1989.

3. Námskrá handa framhaldsskólum.

4. Gögn varðandi endurskoðun aðalnámskráa (skipurit og verkefnalýsingar).

 

Síðar aflaði forvinnuhópurinn sér m.a. eftirfarandi viðbótargagna:

1. Hvítbók Evrópusambandsins. Lehren und Lernen auf dem Weg zur kognitiven Gesellschaft. Brussel 1995.

 

2. Rammaáætlun Evrópuráðsins um kennslu og nám í erlendum tungumálum. Modern Languages: Learning, Teaching, Assessment. A Common European Framework of Reference. Strasbourg 1996.

 

3. Faghæfte i engelsk, Faghæfte i fransk, Faghæfte i tysk. Um málanám í grunnskóla frá danska menntamálaráðuneytinu. Kbh. 1995.

 

4. Námskrá í ensku fyrir norska grunnskóla. Ósló 1996.

 

5. Námskrá í erlendum tungumálum. Hollenska menntamálaráðuneytið 1989.

6. Modern Foreign Languages in the National Curriculum, HMSO 1991 og nýrri útgáfur.

 

 

 

Að júlímánuði undanskildum voru fundir að jafnaði haldnir vikulega, en jafnframt fór mikil vinna fram á milli funda. Haldnir voru 32 fundir. Síðasti fundur forvinnuhópsins var haldinn í desember. Hópurinn tók þátt í kynningarfundi á vegum STÍL (Samtök tungumálakennara á Íslandi) 26. maí sl. og einnig í fjölmennu málþingi sem haldið var á vegum STÍL 25. október. Á málþinginu voru tillögur forvinnuhópsins kynntar og þær ræddar í hópum fyrir hvert tungumál fyrir sig.

 
 

Í eftirfarandi inngangi er stutt samantekt á vinnu forvinnuhópsins.

 
Reykjavík, í desember 1997

 

Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða