Fyrri síða
Yfirlit
Erlend tungumál
 
Fylgiskjal 1
Samanburður á kennslustundafjölda í erlendum tungumálum:
 
  13 ára nemendur 16 ára nemendur 
Ísland 

Danmörk 

Frakkland 

Holland 

Austurríki

56 st. af 770 7.3% 

180 st. af 900 20.0% 

102 st. af 936 11.0% 

155 st. af 1069 14.5% 

90 st. af 1020 8.8%

112 st. af 793 14.1% 

210 st. af 970 21.6% 

99 st. af 957 10.3% 

200 st. af 886 22.6% 

180 st. af 1050 17.1%

 

Tölur um stundafjölda erlendis fengnar úr Key data on education in the European Union, útg. 1996, og úr Stjtíð. B, nr. 437/1996.

Um samanburðartöfluna er það að segja að tölur erlendis frá virðast vera meðaltalstölur. Hafa ber í huga að skólakerfi eru mjög ólík, annars vegar á Norðurlöndum og hins vegar í löndum Mið-Evrópu. Á Norðurlöndum er grunnskólinn ein heild, að jafnaði ætlaður öllum nemendum, en annars staðar hefst námsaðgreining mjög snemma, oft við 11 ára aldur. Nemendur á bóknámsbrautum í þeim löndum fá margar kennslustundir í erlendum málum en nemendur sem stefna í annað nám fá mun færri.Fylgiskjal 2
F.N.O.S.
Félag Norsku Og Sænskukennara
Reykjavík 22.6.1997
Til Forvinnuhóps erlendra tungumála Gerður Guðmundsdóttir

Frá Félagi norsku- og sænskukennara

Endurskoðun aðalnámsskrár.

Í sambandi við endurskoðun aðalnámsskrár vill FNOS, Félag norsku- og sænskukennara fara fram á að í nýrri aðalnámsskrá verði fjallað um norsku og sænskukennslu út af fyrir sig í eigin kafla. Í aðalnámsskrá frá 1989 er norsku og sænsku kennslan látin fylgja innan sviga umfjöllun um dönskukennslu. Segja má að meginmarkmið norsku og sænskukennslu séu svipuð og gerist í dönskukennslunni, en þó eru atriði sem skilja þar á milli. Við viljum í þessu bréfi benda á nokkuð af því sem sýnir sérstöðu norsku og sænskukennslunnar.

Nám í norsku og sænsku stendur aðeins takmörkuðum hóp nemenda til boða. Nemendur í norsku og sænsku eiga sér yfirleitt málsfarlegar og menningarlegar rætur í tveimur Norðurlöndum. Í mörgum tilvikum miðar kennslan að því að viðhalda málakunnáttu nemenda sem dvalið hafa um lengri eða skemmri tíma í Noregi eða Svíþjóð, því er ekki boðið upp á neina byrjendakennslu í norsku og sænsku ólíkt því sem gerist í dönskunni. Það eru aðeins nemendur með ákveðinn bakgrunn í málunum sem eiga þess kost að velja norsku eða sænsku fram fyrir dönsku. Það segir sig því sjálft að kröfur til nemenda í norsku og sænsku eru allt aðrar en gerist í dönskunni. Norsku og sænskukennslan er einnig sértök fyrir þær sakir að víða um land er aðeins um að ræða einn til tvo nema á hverjum stað. Nemendum á stærri stöðum er yfirleitt safnað saman í aldursblandaða hópa og fer kennsla yfirleitt fram eftir að stundaskrá í eigin skóla er lokið. Þetta gerir sérstakar kröfur til námsefnis og kennslu.

Í umræðu menntamála hefur sú hugmynd nú komið fram að dönskukennsla hefjist ári seinna en nú er. FNOS vill benda á að ekki er sjálfgefið að norskan og sænskan fylgi þessum breytingum ef af þeim verður. Mikilvægt er að nemendur í norsku og sænsku sem búið hafa í viðkomandi löndum þurfi að bíða sem skemmstan tíma eftir að geta hafið nám í málunum. Þeim mun styttri sem biðin er þeim mun minna gleymist af þeirri kunnátu er nemendur flytjast heim með.

Félag norsku- og sænskukennara óskar eftir að tillit verði tekið til þessara ábendinga í þeirri vinnu sem fyrir liggur við endurskoðun aðalnámsskrár. Við viljum taka virkan þátt í því sem að okkur snýr.

Með kveðju.
Baldur Pálsson (sign.)
Form. FNOS
Lokastíg 5
101 Reykjavík 

Fylgiskjal 3

Efni: Tillögur er varða verkmenntabrautir framhaldsskóla 
framkomnar á málþingi STÍL 25.10.97 um námskrárgerð í tungumálakennslu.

Í þeim ramma að námskrá sem lagður var fram á málþinginu er hvergi vikið að námskrá fyrir málakennslu á verkmenntabrautum, né markmiðum fyrir slíkar brautir. Fyrirspurnir leiddu í ljós að ekki hefði verið gert ráð fyrir vinnu við slíkar námsskrár sérstaklega en henni yrði væntanlega sinnt á seinni stigum.

Hópur málakennara á verkmenntabrautm, sem sat ofangreint málþing, vill koma eftirfarandi atriðum á framfæri áður en frekari vinna við námskrárgerð fer fram:

Gerð verði námskrá og sett markmið fyrir tungumálakennslu á verkmenntabrautum varðandi a) fagnám og b) meistaraskóla
 sem taki mið af raunveruleikanum svo sem:
- hvert menn sækja framhaldsnám í viðkomandi grein/greinum
- hvaðan nýjunar/fyrirmyndir í greininni koma

Nauðsynlegt er að hver skóli hafi svigrúm til að sinna sérþörfum sinna greina.

Skilgreina þarf grunnáfanga í tungumáli svo hann geti í senn þjónað sem almenn undirstaða og undanfari sérstaks/sérstakra fagáfanga.

Námsefni í fyrsta tungumálaáfanga, áfanga 102, höfðar oft lítið til nemenda á verkmenntabrautum. Æskilegt væri að bjóða þeim upp á fagáfanga sem væri að einhverju leyti sambærilegur en með aðrar áherslur, og skilgreindur sem fagáfangi í tungumáli bæði með tilliti til umfangs og markmiða.

Dæmi um þversögn í kröfum er að finna varðandi frönsku í Hótel og veitingaskólanum. Nemendur sem aldrei hafa lært frönsku taka tvo áfanga í fagfrönsku. Nemendur með stúdentspróf í frönsku eru undanþegnir fagfrönsku en kunna þó lítið sem ekkert fyrir sér á því sviði.

Skilgreina þarf brú úr fagáföngum yfir í almenna áfanga til stúdentsprófs þar sem tekið er fullt tillit til þeirrar færni sem nemendur hafa aflað sér þar. Einnig þarf að skilgreina brú úr almennum áföngum yfir í fagáfanga.

Hópurinn telur nauðsynlegt, að gera þessum hópi nemenda jafn hátt undir höfði og almennum bóknámsnemendum, að tekið sé mið af þörfum þeirra og markmið sett í samræmi við þær.

Með vinsemd og virðingu,

f.h. hópsins
Þórhildur Oddsdóttir
Málakennari í MK 


Fyrri síða
Yfirlit
Erlend tungumál