Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða
Inngangur

 Vinnu forvinnuhóps má skipta á eftirfarandi hátt:

 1. Undirbúningsvinna sem fólst í því að ákvarða eðli verksins, afmörkun þess og framkvæmd.
 2. Nefndarmenn kynntu sér þau gögn sem lögð voru fram í upphafi verksins og öfluðu síðar viðbótargagna. Hópurinn greindi fyrri námskrár, glöggvaði sig á reynslu af þeim og setti fram tillögur um, hvar væri úrbóta þörf.
 3. Hópurinn fór yfir þau svið þar sem erlend mál koma við sögu í íslensku þjóðlífi og í framhaldi af því var skilgreint hver þörf Íslendinga væri fyrir tungumálakunnáttu á hinum ýmsu sviðum þjóðlífsins. Vegna mikilvægis tungumálakunnáttu í námi og ferðaþjónustu var þessum þáttum sérstakur gaumur gefinn, sbr. vægi þeirra í skýrslunni.
 4. Umfjöllun um skýrslu stefnumótunarnefndar til menntamálaráðherra sem hópurinn fékk í hendur í byrjun maí.
 5. Unnið var úr stefnu menntamálaráðuneytisins í menntamálum og tekið mið af áherslum sem þar komu fram.
 6. Ítarleg umfjöllun um nýjungar í tungumálanámi og -kennslu. M.a. voru ræddar þær breytingar sem orðið hafa á kennslu erlendra mála á undanförnum árum og áratugum og hvernig þær tengjast hefðinni í kennslu erlendra mála hér á landi. Nýjar kenningar um máltöku ræddar og áhrif þeirra á aðferðir í tungumálanámi og -kennslu. Fjallað um styrk og veikleika tungumálakennslu á Íslandi.
 7. Meginsjónarmið Hvítbókar Evrópusambandsins tekin til umfjöllunar, en þar er rík áhersla lögð á aukið vægi tungumála í ljósi breyttrar Evrópu. Rammaáætlun Evrópuráðsins um kennslu og nám í erlendum málum rædd og afstaða tekin til innihalds hennar með tilliti til tungumálakennslu á Íslandi.
 8. Rækileg umfjöllun um möguleika nýrra miðla og hlutverk tölva og upplýsingatækni í tungumálanámi og -kennslu.
 9. Fjallað um eðli og framsetningu markmiða í tungumálakennslu og unnið að tillögum að lokamarkmiðum í dönsku, ensku, frönsku og þýsku við lok grunn- og framhaldsskóla. Því verki var skipt á milli einstakra aðila og sáu Auður Hauksdóttir og Erna Jessen um markmið í dönsku, Gerður Guðmundsdóttir og Halla Thorlacius um markmið í ensku, Petrína Rós Karlsdóttir um markmið í frönsku og Guðrún Matthíasdóttir og Oddný G. Sverrisdóttir um markmið í þýsku. Samráð var haft við stjórnir einstakra fagfélaga tungumálakennara um markmiðssetninguna.
 10. Þátttaka í málþingi STÍL 25. október sl., en þar voru drög að markmiðum kynnt. Viðbrögð við drögunum rædd og afstaða tekin til þeirra.
 11. Vinna forvinnuhóps og tillögur dregnar saman í skýrsluform. Á lokastigi skýrsluvinnunnar var leitað álits hjá eftirtöldum aðilum: Auði Torfadóttur, Kennaraháskóla Íslands, Danfríði Skarphéðinsdóttur, Menntaskólanum í Reykjavík, Hafdísi Ingvars-dóttur, Háskóla Íslands, Maríu Þ. Gunnlaugsdóttur, menntamálaráðuneytinu og Þor-valdi Friðrikssyni, Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Kann hópurinn þessum aðilum bestu þakkir fyrir margar þarfar og gagnlegar ábendingar.
 
Um skýrsluna og forsendur hennar

 Í stefnumótun þeirri sem hér liggur fyrir er tekið mið af nýjum hugmyndum um nám og kennslu í erlendum málum. Jafnframt er þess gætt að áfram verði byggt á því sem best hefur gefist í tungumálakennslu hér á landi. Forvinnuhópurinn leggur áherslu á að þó að skýrslunni fylgi tillögur að markmiðum í fjórum erlendum málum taka tillögur þessar einnig til annarra mála sem kennd eru hér á landi. Í skýrslunni er þeirri málvenju fylgt að fjalla um fyrsta, annað og þriðja mál, svo sem háttur er þegar fjallað er um kennslu erlendra mála. Hér er að sjálfsögðu átt við fyrsta, annað og þriðja erlenda tungumálið sem börn og ungmenni læra. Með þessu er á engan hátt verið að rýra hlut móðurmálsins sem verður ævinlega fyrsta og mikilvægasta tungumálið, sem nemendur læra.

Forvinnuhópurinn leggur ríka áherslu á að tungumálin séu kennd heildstætt sem tæki til tjáskipta og að mál og menning verði ekki aðskilin. Þá er það grundvallarviðhorf í skýrslunni að tungumálanám sé einstaklingsbundið ferli og að nemendur læri tungumál fyrst og fremst með því að nota það.

 
Megintillögur forvinnuhóps

Hér eru teknar saman helstu tillögur sem forvinnuhópur leggur til varðandi framtíðarskipan og tilhögun tungumálanáms og -kennslu, en nánari umfjöllun er að finna í skýrslunni.

Námsmarkmið og námsmat í erlendum málum
Námsmarkmið í erlendum málum skulu vera skýr og tryggja að eðlileg samfella og stígandi sé í málanáminu. Í framsetningu markmiða skal greina skýrt á milli markmiða með málanámi og hvaða leiðir geta hentað til að ná settum markmiðum.

Tryggja þarf að sett markmið nái fram að ganga. Í því skyni er lagt til að reglulegt eftirlit sé með árangri af tungumálakennslunni.

Lagt er til að ávallt sé í boði fagleg ráðgjöf fyrir tungumálakennara í hverri grein.

Til að tryggja að markmið verði skýr og hnitmiðuð er lagt til að markmið verði sett í hverju tungumáli fyrir sig og á þann hátt tekið tillit til sérstöðu hvers máls, aldurs nemenda við upphaf málanáms og árafjölda sem greinin er kennd.

Lagt er til að markmið í erlendum málum í grunnskóla verði skilgreind sem tveggja ára ferli í senn (eitt, tvö eða þrjú eftir því hvaða mál á í hlut) og að unnt verði að koma við námsmati í lok hvers tímabils.

Að aukið sé vægi skapandi málnotkunar í kennslunni og að færni nemenda til að tjá sig jafnt munnlega sem skriflega verði sjálfsagður prófþáttur, m.a. í samræmdum loka- og könnunarprófum.

Lagt er til að markmið í málanámi á efri stigum framhaldsskóla verði sérhæfð og að nokkru leyti tengd eðli námsbrauta.

 
Kennsluhættir
Aukin áhersla verði lögð á alhliða skapandi málnotkun nemenda og að þeir öðlist kunnáttu og færni til að nota erlend mál til tjáskipta við ólíkar aðstæður.

Aukin áhersla verði lögð á ábyrgð og virkni nemenda í tungumálanáminu, bæði hvað varðar skipulagningu náms, námsaðferðir og heimanám.

Aukin áhersla verði lögð á upplýsingatækni og notkun rafrænna miðla í tungumálanámi.

Aukin áhersla verði lögð á samþættingu málanáms og náms í öðrum greinum, svo að nemendum gefist tækifæri til að læra erlend mál með því að nota þau sem tæki til þekkingaröflunar og miðlunar á reynslu og þekkingu.

 
Fyrsta, annað og þriðja erlenda málið
Áhersla er lögð á að fjöldi kennslustunda í erlendum málum á grunn- og framhaldsskólastigi verði aukinn. Á þann hátt verði tryggður nægilegur fjöldi kennslustunda svo að nemendur nái öruggri færni og kunnáttu í ensku, dönsku (norsku, sænsku) og þriðja máli í samræmi við lokamarkmið í grunn- og framhaldsskólum.

Í þessu skyni er lagt til:

Til lengri tíma litið verði stefnt að því að kennsla í ensku hefjist í 4. bekk grunnskóla og í dönsku í 6. bekk.

Nám í þriðja máli verði aukið í grunn- og framhaldsskólum. Þetta gerist með tvennum hætti:

  1. Nám í þriðja máli verði aukið til stúdentsprófs að einhverju leyti vegna þess svigrúms sem skapast vegna aukningar enskukennslu í grunnskólum.
  2. Nemendur sem hneigðir eru fyrir tungumálanám geti hafið nám í þriðja máli í 9. bekk grunnskóla og nám í framhaldsskóla taki mið af því hvort nemendur eru að hefja nám eða hafa að baki tveggja ára nám. Í reynd verði því um tvenns konar stúdentspróf í þriðja máli að ræða þar sem nemendur hafa mislangt nám að baki.
 Áfram verði tryggð nauðsynleg skilyrði fyrir haldgóðu námi í dönsku (sænsku, norsku) í grunn- og framhaldsskólum.

Tungumálanám í framhaldsskólum verði gert sveigjanlegra og í auknum mæli verði boðið upp á styttri og lengri samþætt valnámskeið (t.d.í 2-8 vikur) þar sem nýttir verði möguleikar sem alþjóðasamstarf opnar varðandi erlenda gestakennara.

 
Nýjungar í málakennslu - ný mál
Nokkrir framhaldsskólar sérhæfi sig í kennslu einstakra erlendra mála, svo sem japönsku, kínversku og rússnesku, sem ætla má að hafi vaxandi gildi fyrir Íslendinga á næstu árum og áratugum.

Boðið verði upp á tungumálanám fyrir börn og ungmenni sem náð hafa tökum á erlendum málum vegna búsetu erlendis.

Hafið verði þróunarstarf varðandi kennslu íslensku sem erlends máls og einn grunn- og framhaldsskóli sérhæfi sig í að kenna íslensku sem erlent mál.

 
Kennaramenntun
Lagt er til að fagmenntun tungumálakennara í grunn- og framhaldsskólum verði stórefld. Þetta gerist á eftirfarandi hátt:

Lágmarkseiningafjöldi tungumálakennara í grunnskólum verði 45 einingar og framhaldsskólakennara 90 einingar í viðkomandi máli. Í náminu fái kennarar menntun í málinu, þekkingu á menningu og þjóðfélagi viðkomandi málsvæða og innsýn í það fræðasvið sem tengist kennslu málsins.

Kennslufræði erlendra tungumála í kennsluréttindanámi við HÍ verði aukin úr fimm einingum í tíu.

Í kennaramenntun verði áhersla lögð á notkun nýrra miðla (t.d. tölvur, margmiðlunarefni, myndbandsefni) við kennslu erlendra tungumála.

 
Mat á skólastarfi og rannsóknir á tungumálanámi og -kennslu
Lagt er til að í skipulögðu mati og eftirliti á skólastarfi, sbr. gildandi lög og reglugerðir þar um, verði hugað sérstaklega að tungumálakennslu.

Komið verði á rannsóknatengdu námi í erlendum tungumálum og rannsóknir á þessu sviði verði stórefldar.
 

Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða