Náttúruverndarráð


Náttúruverndarráð var stofnað með lögum árið 1956. Í Náttúruverndarráði voru forstöðumenn þriggja deilda Náttúrugripasafnsins (jarðfræði, grasafræði, dýrafræði), einn fulltrúi Búnaðarfélags Íslands, Skógræktarfélags Íslands og Verkfræðingafélags Íslands og loks sjöundi fulltrúinn, lögfræðingur sem gegndi formennsku í ráðinu og var valinn af ráðherra menntamála.

Árið 1971 var náttúruverndarlögunum breytt. Ráðherra valdi áfram formann ráðsins og varaformann en aðrir í Náttúruverndarráði voru kosnir á Náttúruverndarþingi. Þá var opnuð skrifstofa Náttúruverndarráðs og starfsemi þess jókst mjög mikið.

Árið 1996 var lögum um náttúruvernd enn breytt. Frá upphafi árs 1997 er fulltrúum í Náttúruverndarráði fjölgað í níu, einn tilnefndur af Náttúrufræðistofnun Íslands, Háskóla Íslands, Bændasamtökum Íslands, Ferðamálaráði og Skipulagsstjóra ríkisins, þrír kosnir af Náttúruverndarþingi og formaðurinn skipaður án tilnefningar af umhverfisráðherra. Þá breytist aftur starfsvið Náttúruverndarráðs því að ný stofnun, Náttúruvernd ríkisins, tekur við starfsemi skrifstofu ráðsins.

NÁTTÚRUVERNDARRÁÐ nvvefur@ismennt.is