Dóttir Sæmundar og kölski
Saga frá Árna Magnússyni í safni Jóns Árnasonar

Sæmundur fróði átti dóttur eina. Einhverju sinni þá Sæmundur var ei heima kom til hennar satan og sagðist eiga að taka hana. Stúlkan var þá stödd í lofti nokkru að reiða upp sæng föður síns. Hún sagðist skyldi með honum fara ef hann væri búinn að telja allar fjaðrirnar í sænginni hans föður síns fyrr en hann kæmi heim, en annars ekki. Satan játaði því og varð nú heldur hraðhentur, en í því bili sem hann hélt á þeim seinustu í hnefanum kom Sæmundur upp í stigann. Þá þorði ei satan við að standa og slapp hann því af stúlkunni í það sinni.

Á undan | Galdramenn | Á eftir

Gagnasmiðja Kennaraháskóla Íslands
1998