Kölski gjörði sig svo lítinn
sem hann gat

Saga frá nítjándu öld í safni Jóns Árnasonar

Það var einu sinni að séra Sæmundur spurði kölska hvað lítinn hann gæti gjört sig. Kölski sagðist geta gjört sig eins lítinn og mýflugu. Sæmundur tók þá borjárn og boraði holu í stoð eina og segir kölska að fara þar þá inn í. Kölski var ekki seinn að því; en Sæmundur rak tappa í holuna, og hvernig sem kölski emjaði og skrækti og bað sér vægðar tók þó Sæmundur ekki tappann úr holunni fyrr en hann hafði lofað að þjóna honum og gjöra ætíð hvað sem hann vildi. Þetta var orsökin til þess að Sæmundur gat alténd haft kölska til hvers sem hann vildi.

Á undan | Galdramenn | Á eftir

Gagnasmiðja Kennaraháskóla Íslands
1998