Svartiskóli
Sagnabrot af Sæmundi fróða
í Svartaskóla

Sá skóli var í fyrndinni til út í heimi sem hét Svartiskóli. Þar lærðu menn galdur og ýmsan fornan fróðleik. Svo var til háttað í skóla þessum að hann var í jarðhúsi rammgjörvu mjög; á því var enginn gluggi og var þar því alltaf niðamyrkur inni. Enginn var þar kennari og námu menn allt af bókum sem voru skrifaðar með eldrauðu letri sem lesa mátti í myrkrinu. Aldrei máttu þeir sem þar lærðu koma undir bert loft eða sjá dagsljósið á meðan þeir voru þar, en það voru þrír eða sjö vetur sem þeir urðu að vera í skólanum til að verða fullnuma. Hönd ein grá og loðin kom á hverjum degi inn um vegginn og rétti skólapiltunum mat. En það áskildi sá sér sem skólann hélt að hann skyldi eiga þann sem síðastur gekk út af þeim sem burtu fóru úr skólanum á ári hverju. En af því að allir vissu að kölski hélt skólann vildi hver sem gat forða sér frá að ganga seinastur út úr honum.

Á undan | Sagnabrot | Á eftir

Gagnasmiðja Kennaraháskóla Íslands
1998