Um kímnisögur
Úr þjóðsögum Jóns Árnasonar

Víða má sjá þess vott í undanfarandi flokkum að ekki skortir heldur fyndni í íslenzkum munnmælasögum en annara landa þar sem bæði kemur fram hið öflga lífsfjör og einart glaðlyndi sem sérhvert heilbrigt þjóðlíf er vant að hafa í sér fólgið í fullum mæli. En þessari fyndni bregður þá aðeins fyrir þegar tekin eru fram einhver merkisatriði við einhverja sögn eða hún liggur í blænum á frásögninni og orðatiltækjunum. Eitt af þessu er þula sú sem oft er höfð fyrir niðurlag á ævintýrum hér á landi þegar sagan endar á brúðkaupi eða sagt er frá velfarnan einhverra hjóna. Í öðrum sögum kemur fyndnin glöggar fram þar sem hún einmitt undirrót sögunnar eða samtvinnuð allri frásögninni; slíkar sögur þykir rétt að kalla kímnisögur eða skrýtlur. Það er ekki ætíð auðvelt að segja hverjar sögur heyri undir þenna flokk þar sem allt er undir því komið hvort sögurnar eru að meira hlut eða minna fyndilegar, en eins víst er hitt fyrir því að umtalsefni kímnisagnanna er eitthvert hið fjölbreyttasta.

| Karlar og kerlingar |

Gagnasmiðja Kennaraháskóla Íslands
1998