Dýrhóll
Úr þjóðsögum Jóns Árnasonar

Á Lágheiði í Ólafsfirði er hæð ein sem Dýrhóll heitir. Hann dregur nafn af því að einu sinni lá þar bjarndýr. Meðan dýrið hélt sig þar gekk maður einn yfir heiði með atgeirsstaf í hendi. Þegar dýrið varð vart við manninn stóð það upp og hristi sig, en lagðist aftur er það sá atgeirsstafinn. Nú gekk maðurinn inn í Heiðarhöll og mætti þar manni einum úr Fljótum sem ætlaði í Ólafsfjörð. Maðurinn sem að utan kom varaði hinn við bjarndýrinu og léði honum geirsstaf sinn. Síðan gekk maðurinn út heiði og er hann kom út að Dýrhól stóð bjarndýrið upp. Gaf það sig ekkert að honum, en tók á rás inn heiði og linnti ekki fyrr en það náði manninum sem inn yfir gekk skammt fyrir framan Þrasastaði og drap hann þar.

Mynd Þorvaldar Hermannssonar

Á undan | Náttúrusögur | Á eftir

Gagnasmiðja Kennaraháskóla Íslands
1998