Um marbendil
Úr þjóðsögum Jóns Árnasonar

Marbendillinn hefst við á mararbotni, en sést aldrei ofan sjávar nema þegar hann hefur verið dreginn sem síðar skal getið. Af honum dregur marbendilsmíði (millepora polymorpha) nafn; er það gulhvítur kalksteinn, allur hrufóttur og körtóttur utan, er skolar upp af mararbotni. Segja menn að slíkt séu smíðisgripir marbendla. Landnáma og sagan af Hálfi og Hálfsrekkum sýna það bezt að marbendlatrúin er ekki ung. Ekki allsjaldan hafa menn náð marbendlum og að vísu oftast dregið þá úr sjó lifandi, og hafa þeir þá stundum verið með öngla og net, en þó ganga sögur af því að þeir hafi fundizt reknir af sjó dauðir eða komið innan úr hákarlsmaga. Þegar svo ber við að þeir eru dregnir lifandi vilja þeir ávallt komast út aftur á sama svið sem þeir voru dregnir á; fáorðir eru þeir og sinna lítt mönnum.

| Marbendill |

Gagnasmiðja Kennaraháskóla Íslands
1998