Nykur
Úr þjóðsögum Jóns Árnasonar

Svo er mælt að einu sinni voru þrjú eða fjögur börn að leika sér á bæ einum. Skammt frá bænum var vatn eitt mikið og eyrar sléttar með vatninu. Börnin voru nú á eyrum þessum. Þau sáu hest gráan á eyrinni og fóru að skoða hann. Fer þá eitt barnið á bak og svo hvert af öðru þangað til það elzta var eftir. Þau báðu það að koma líka því þau sögðu að nóg væri langur hryggurinn á klárnum þó þau kæmu öll. Barnið vildi ei fara og sagðist ei nenna því. Fór þá hesturinn þegar af stað og hvarf hann út í vatnið með öll börnin á bakinu. Barnið sem eftir var fór heim og sagði frá þessum viðburði svo sem hann er sagður, og vissu menn þá að þetta hafði verið nykur.

 

Nennir
Úr þjóðsögum Jóns Árnasonar

Einu sinni var smalastúlka að leita að fé. Hún hafði gengið lengi og var orðin lúin mjög. Sér hún þá hest gráan og verður fegin, hnýtir upp í hann sokkabandinu sínu, leggur svuntuna sína á hann, leiðir hann að þúfu og ætlar á bak. En rétt í því hún ætlar á bak segir hún: „Ég trúi ég nenni þá ekki á bak.“ Þá tekur hesturinn viðbragð mikið og stökk út í vatn eitt skammt þaðan og hvarf. Stúlkan sá nú hverskyns var, að þetta var nykur, því það er náttúra hans að hann má eigi heyra nafn sitt, þá fer hann í vatn sitt, en hann heitir öðru nafni nennir, og því fór hann er hún sagði nennir. - Sama verður og ef hann heyrir sagt andskoti.

 

Nykur í Kumburtjörn
Úr þjóðsögum Jóns Árnasonar

Fyrir kemur það að nykur er nefndur kumbur; hvort sem af því er dreginn Kumbravogur eða ekki, þá er þó af því dregin Kumburtjörn hjá Skarði undir Skarðsfjalli í Landsveit. Ýmist þar eða í öðru stærra stöðuvatni hjá Háholti á að vera nykur. Úr Kumburtjörn kom einu sinni graðhestur grár í aðra hesta og filjaði meri eina; folaldið sem hún átti varð stór hestur og hin mesti valsgripur, en aldrei mátti ríða honum mjög djúpt í vatni því þá vildi hann leggjast niður.

Sú er saga til þess að nykur sé ekki bundinn við hestalíki eitt saman að úr þessu sama vatni kom einu sinni grá kýr stór og troðjúgra. En er átti að mjólka hana varð þess vart að klaufirnar sneru öfugt á henni eins og hófarnir á nykrinum; vildi þá enginn við hana eiga, enda varð kýrin þá svo ólm að hún kramdi barn eitt fyrir bóndanum til dauðs og hvarf síðan.

| Nykur |

Gagnasmiðja Kennaraháskóla Íslands
1998