Marbendill
Mynd Mariu Östlund

Í bókmenntasögu mun vera venja að kalla tímabilið frá siðaskiptum um 1550 fram á síðari hluta 18. aldar lærdómsöld. Ritverk sem þá koma fram eru flest guðfræðirit eða önnur rit af fræðilegum toga og fjalla um fróðleik og vísindi þess tíma. Sumt af því efni má kenna við galdur, þjóðtrú og þjóðsögur enda eru ekki skýr mörk á milli kukls og vísinda á þessum tíma.

Áhugi á galdri virðist mikill framan af lærdómsöld og rís hæst í galdraofsóknum 17. aldar. Árabilið 1625-1690 á Íslandi er stundum nefnt galdraöld. Karlar og konur sem þykja vís að fjölkynngi geta hlotið harða dóma og eru jafnvel brennd á báli.

Jón Guðmundsson lærði (1574-1658), einnig nefndur málari og tannsmiður, er fróður um margt en umdeildur og jafnvel talinn illskeyttur galdramaður. Af sundurlausum skrifum hans í mörgum ritum má ráða margt um hjátrú og munnmælasögur 17. aldar. Jón rekur efnislega ýmis munnmæli og sumt af því efni ratar síðar í þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar. Af sögum í þessum þjóðsagnavef er sagan um marbendil eða sjódverg upphaflega úr riti eftir Jón lærða.

| Saga af sögum |

Gagnasmiðja Kennaraháskóla Íslands
1998