Skrípi

SAGA AF SÖGUM

Frá landnámi
til siðaskipta

Örnefni og fornbókmenntir endurspegla þjóðtrú og geyma fjölskrúðugt efni af þjóðsagnatoga.

Til eru sagnakvæði ort út af íslenskum þjóðsögum, oft álfasögum. Þessi kvæði eru ort undir fornyrðislagi og eiga sér ekki þekkta höfunda.

Óvíst er um aldur sagnadansa en þeir munu hafa notið vinsælda um aldir og snerust margir um ævintýri og þjóðsagnaefni.

 

Lærdómsöld

 

Jón Guðmundsson lærði (1574-1658) rekur efnislega ýmsar sagnir og þjóðtrú en á lærdómsöld var óljós munur á kukli og vísindum, þjóðtrú og lærdómi.

Jón Eggertsson (um 1643-1689) handritasafnari sendir Svíum handrit og uppskriftir á ýmsum ritum. Þar á meðal er verk eftir Jón lærða um leynda dali og útilegumenn á Íslandi, ritgerð um rúnir eftir Björn frá Skarðsá samtímamann Jóns lærða og yfirlit Ólafs gamla um rúnagaldur og nafnkunna galdramenn.

Árni Magnússon (1663-1730) prófessor og handritasafnari safnar nokkrum þjóðsögum og ævintýrum sem næst munnlegri frásögn fullri öld áður en eiginleg þjóðsagnasöfnun hefst í öðrum löndum.

 

Mörk átjándu og
nítjándu aldar

 

Eiríkur Eiríksson Laxdal (1743-1816) prestsonur, skólapiltur, djákni, Hafnarstúdent, sjóliði, kotbóndi, umrenningur, rímnaskáld og rithöfundur setur saman tvo gríðarmikla og óvenjulega sagnabálka með miklu efni af þjóðsagnatoga.

 

Nítjánda öld

 

Bræðurnir Jacob (1785-1863) og Wilhelm (1786-1859) Grimm eru þýskir fræðimenn sem taka að safna ævintýrum og alþýðusögum á meðal alþýðufólks snemma á 19. öld.

Eftir að áhuga á þjóðsögum tekur að gæta á meginlandi Evrópu fá Íslendingar hverja áskorunina á fætur annarri frá fræðistofnunum og samtökum fræðimanna í Kaupmannahöfn þar sem þeir eru hvattir til að safna þjóðsögum og þjóðfræðaefni.

Ungur menntamaður, Lárus Sigurðsson (1808-1832) fær bóndann Ólaf Sveinsson (um 1770-1845), sem gjarnan er kenndur við Purkey, til að skrá fróðleik og sögur um álfa. Purkeyjar-Ólafur virðist trúa staðfastlega á álfa og þykir hégiljufullur en vel ritfær og greinargóður.

Magnús Grímsson (1825-1860) nemandi við Lærða skólann og síðar prestur og Jón Árnason (1819-1888) heimiliskennari, síðar bókavörður og biskupsritari taka sig saman árið 1845 um að safna íslenskum þjóðsögum og kvæðum, þulum, kreddum og öðru efni af þeim toga. Fyrsti ávöxturinn af söfnun þeirra félaga er lítið kver prentað í Reykjavík árið 1852, Íslenzk æfintýri söfnuð af M.Grímssyni og J.Árnasyni. Viðtökur landsmanna eru dræmar.

Páll Jónsson (1812-1889) prestur á Myrká segir Jóni Árnasyni í bréfum frá 1882 og 1883 að hann hafi safnað kynstrum af þjóðsögum og öðru þess háttar efni en fargað því öllu þegar hann lá lengi veikur og hélt sig vera að deyja. Þetta segir hann hafa verið rétt áður en þjóðsagnasöfnun hófst fyrir alvöru og þjóðsögur urðu einhvers metnar.

Konrad Maurer (1823-1902) lagaprófessor í München og mikill áhugamaður um norræn fornfræði fer í langa heimsókn til Kaupmannahafnar árið 1857 að nema íslenskt samtíðarmál og undirbúa ferð sína til Íslands.

Í Kaupmannahöfn kemst Maurer í náin kynni við fræðimennina Jón Sigurðsson (1811-1879) forseta og Guðbrand Vigfússon (1827-1889) prófessor. Maurer verður aldavinur þeirra beggja.

Maurer fer aftur til Kaupmannahafnar og þaðan til Íslands á eigin kostnað vorið 1858. Hann ferðast um landið um sumarið og er hvarvetna afar vel tekið. Á ferðalaginu safnar Maurer þjóðsögum ásamt öðrum fróðleik um land og þjóð. Hann hvetur Jón Árnason til að gefast ekki upp við söfnunarstarfið og lofar að styðja við útgáfu á safni hans í fyllingu tímans.

Jón Árnason tekur til við þjóðsagnasöfnun af nýjum þrótti fyrir hvatningu Maurers og sendir mönnum vítt og breitt um landið Hugvekju um alþýðlega fornfræði haustið 1858. Honum berst nú mikið af efni frá skrásetjurum og heimildarmönnum um allt land, bæði körlum og konum. Félagi hans séra Magnús Grímsson á í kröggum, missir heilsuna og fellur frá í ársbyrjun 1860.

Konrad Maurer gefur út á þýsku sögur þær og ævintýri sem hann safnaði í Íslandsferðinni 1858. Ritið kemur út í Leipzig árið 1860 og heitir Isländische Volkssagen der GegenWart. Útgáfan verður Jóni Árnasyni hvatning til dáða og fyrirmynd um margt.

Jón Árnason vinnur hörðum höndum að skráningu sagna, flokkun og öðru sem söfnunin krefst. Þetta gerir hann meðfram launuðum störfum og einkalífi með fjölskyldu og vinum. Þegar litið er á bág kjör Jóns og allar kringumstæður á Íslandi hlýtur vinna hans á þessum árum að teljast þrekvirki.

Konrad Maurer í Þýskalandi, Guðbrandur Vigfússon í Kaupmannahöfn og Hið íslenzka bókmenntafélag fyrir forgöngu Jóns Sigurðssonar leggjast á eitt um að koma út Íslenzkum þjóðsögum og ævintýrum Jóns Árnasonar í tveimur bindum hjá forleggjara Maurers í Leipzig. Fyrra bindið kemur út 1862 og hið síðara 1864.

Útgáfu þjóðsagnanna er tekið opnum örmum á Íslandi og sögurnar njóta mikilla vinsælda allt fram á þennan dag. Jón Árnason safnar þjóðsögum og kvæðum til æviloka en mest af því er ekki gefið út fyrr en komið er langt fram á næstu öld.

 

Tuttugasta öld

Seint á 19. öld og fram eftir 20. öld verða margir til að safna þjóðsögum enda verður smám saman ljóst að brunnur þjóðsagna mun seint þurrausinn.

Ríkisútvarpið tekur fljótlega eftir stofnun þess að safna þjóðsögum á segulband beint af munni heimildarmanna. Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi og þjóðháttadeild Þjóðminjasafns verða síðar mikilvirk á þessu sviði þjóðsagnasöfnunar.

Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson annast vandaða heildarútgáfu á þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar byggða á eftirlátnum handritum hans sjálfs og skrásetjara sem fengu honum efni. Verkið er í sex bindum og kom út á árunum 1954-1961.

Torfi Hjartarson
byggði á ýmsum heimildum
um íslenskar þjóðsögur.

| Skrípi |

Gagnasmiðja Kennaraháskóla Íslands
1998