Móhúsa-Skotta
Úr þjóðsögum Jóns Árnasonar

Móhús er kot eitt í Stokkseyrarhverfi á Eyrarbakka, kallað Vestri-Móhús. Þar bjó lengi og mestallan búskap sinn Jón ríki Þórðarson sem var eins nafntogaður á Suðurlandi fyrir auðlegð sína eins og Böggustaða-Jón á Norðurlandi. Jón var bláfátækur með fyrsta, en efldist ótrúlega af litlum efnum og komst svo vel í tána að sagt var að hann keypti jörð með ári þegar á leið fyrir honum. Að sumum þeim jörðum komst hann með léttu verði. Jón bjó fyrst á Refstokki hjá Ferjunesi (Óseyrarnesi); er það kot nú í eyði; þar kom til hans unglingsstúlka og beiddist gistingar, en var úthýst. Varð hún svo úti um nóttina og gekk aftur og fylgdi Jóni lengi síðan og gjörði honum ýmsar skráveifur. Hún var kölluð Skotta og eftir að Jón flutti að Móhúsum vestri spillti hún öllu fyrir honum er hún gat og drap fénað bæði fyrir honum og öðrum með illum aðsóknum á undan Jóni. Þar með var hún honum sjálfum svo nærgöngul að hún nagaði sundur hverja sokkana eftir aðra á hásinunum á honum og þvengina í skóm hans og var það í mæli að þó hann færi í nýja sokka að morgni væru þeir í sundur að kvöldi. Jafnan hafði Jón spannarlangan spotta í skyrtukragaknöppum sínum og var sagt að hann gjörði það til þess að Skotta gæti því síður kyrkt hann, en til þess leitaði hún einatt. ...

Mynd af Móhúsa-Skottu


Á undan | Skottur | Á eftir

Gagnasmiðja Kennaraháskóla Íslands
1998