Brekku-Skotta
(áður Hvítárvalla-Skotta og síðar Leirár-Skotta)

Úr þjóðsögum Jóns Árnasonar

... Eitt sinn var Þórður prestur í Hvammi á reið um sókn sína; hafði hann farið niður í dal að erindum sínum og lá leið hans um bakka þá er liggja milli bæjanna Brekku og Hraunsnefs og kallast Pálsengi. Prestur sér þá hvar Skotta kemur að honum. Hefur hún engar sveiflur á því nema sezt á bak fyrir aftan hann. Prestur var maður einbeittur og lét sér ekki bilt við verða. Rennir hann sér hið skjótasta af baki, sker á gjörðina og strýkur hnakkinn aftur af. Því næst fer prestur á bak aftur og reið berbakt heim til sín, en Skotta sást sitja í hnakknum lengi um daginn og barði fótastokkinn. ... Skotta var þá gömul orðin og gengin mjög að knjám sem von var því fáir höfðu orðið til að skæða hana. Bar þá saman fundum þeirra er Jón kom úr suðurferð og reið norður Arnarvatnsheiði. Hann spurði Skottu á hvaða ferð hún væri, en hún kvaðst ætla að finna konu hans. En með því að Skotta var orðin sárfætt, og Jón vildi verða laus við hana samdist svo með þeim að hún skyldi láta ætt hans í friði, en hann skyldi gefa henni á fæturna. Fór hann þá úr rammgjörvum reiðstígvélum járnuðum og kastaði þeim til hennar, en hún fór í þegar og hvarf síðan. ...

Mynd af Brekku-Skottu


Á undan | Skottur | Á eftir

Gagnasmiðja Kennaraháskóla Íslands
1998