Hítardals-Skotta
Úr þjóðsögum Jóns Árnasonar

 

... Í þeim dómi sat séra Vigfús og að dóminum afloknum átti að færa hinn dæmda klerk úr hempunni eins og siður var til. Þá er mælt að séra Vigfús, ör að lund og ef til vill af víni, hafi orðið fyrstur til að taka í ermi klerks. Klerki varð þá þungt í skapi við vin sinn og mælti: „Þú varðst þá, vinur, fyrstur til að færa mig af hempunni; vera má að þér þyki jafnmikið sem mér nú áður langt um líður.“ Nú ríða menn af þingi, en svo þykir bregða við að sér Vigfúsi verður ekki haldsamt á börnum sínum og deyja þau efnileg ung og verður fljótt um þau, enda þykjast menn verða varir við kvenlíki nokkurt með skaut á höfði og horfði aftur krókurinn. ... Einu sinni komu þær báðar nöfnurnar, Hítardals-Skotta og Hvítárvalla-Skotta, undireins í brúðkaup nokkurt. Sá einn af boðsmönnum sem þar var skyggn að þær tóku matinn af diskunum hjá gestunum meðan á veizlunni stóð án þess að þeir yrðu varir við. En með því maðurinn átti nokkuð hjá sér særði hann þær báðar út fyrir dyr og lét þær standa þar og á sjá, en ekkert fá unz samsætinu var lokið, og þar á ofan lét hann þær til spotts og aðhláturs fyrir gestina hrækja hvora framan í aðra. Í öðru sinni tókust þær nöfnur á í fangbrögðum, en ekki er þess getið hvernig þeim leik hafi lokið.

Mynd af Hítardals-Skottu


Á undan | Skottur | Á eftir

Gagnasmiðja Kennaraháskóla Íslands
1998