Mývatns-Skotta I
Úr þjóðsögum Jóns Árnasonar

 

... Á laugardag fyrir páska eða hvítasunnu kom flökkustúlka nokkur að Grímsstöðum. Bóndi tók vel við henni og fylgdi henni í eldahús; kona hans var þá að færa í trog hangikjöt upp úr potti sínum. Hann þrífur langlegg úr troginu, fær hann stúlkunni og segir henni að éta. Stúlkuauminginn tekur feginshendi móti kjötinu og etur með góðri lyst. Þegar hún er mett orðin býðst bóndi til að fylgja henni á leið til næsta bæjar og fer hann með henni. En er þau koma að á þeirri sem rennur milli bæjanna tekur hann stúlkuna, kastar henni á ána og heldur í fætur hennar meðan hún er að kafna. Hún hafði þá sem var títt skautskuplu á höfði og snaraðist skuplan á hnakkann meðan hann hélt henni í kafinu. Þegar hann vissi að stúlkan mundi dáin vera dró hann hana upp á bakkann og með fjölkynngi sinni magnaði hana í fullkominn draug og sendi til að drepa þann er hann vildi feigan. Dinglaði skuplan á hnakka hennar og er þaðan nafnið. Skotta fór sendiförina og vann það fyrir hana var lagt; kom aftur til bónda, kvaðst hafa banað manninum og spurði hvað nú skyldi vinna. Hann kvað hún skyldi fara og fylgja ættarskömminni og það gjörði hún og vann margt slys ættingjum þess er hún banaði. ...

Mynd af Mývatns-Skottu


Á undan | Skottur | Á eftir

Gagnasmiðja Kennaraháskóla Íslands
1998