Mývatns-Skotta III
Úr þjóðsögum Jóns Árnasonar

 

... Í Þingeyjarsýslum er sú sögn til um uppruna Skottu að bændur tveir hafi búið á Arnarvatni við Mývatn og væru galdramenn og mikill og illur kurr í milli þeirra. Einn vetur bar svo til að stúlka varð úti í hríðarbyl þar vestur á heiðinni fyrir vestan Helluvað. Annan bóndann grunaði hvað stúlkunni leið, fór um nóttina vestur á heiði og vakti hana upp áður en hún var orðin köld. Síðan fór hann með hana heim um morguninn, lét hana fara á undan sér inn í bæinn og sagði henni að drepa sambýlismann sinn. Hún fór inn og bóndi litlu síðar. En þegar hún kom inn settist hinn bóndinn snögglega upp í rekkjunni og skipaði henni að taka þann sem á eftir henni kæmi og það gerði hún. Greip hún þá þann bóndann sem hafði vakið hana upp og fleygði honum sem sopp innan um baðstofuna. En hinn sat kyrr í rekkjunni og hló að. Þó lét hann hana ekki gera út af við sambýlismann sinn, en ætt hans fylgdi hún eftir það.

Mynd af Mývatns-Skottu III


Á undan | Skottur | Á eftir

Gagnasmiðja Kennaraháskóla Íslands
1998