Lífssteinn
Úr þjóðsögum Jóns Árnasonar

Smelltu á steininn!

Lífsteinninn hefur verið mjög nafntogaður að fornu sem sjá má af Kórmaks sögu og fleiri fornsögum, og því er ekki kyn þó sögur hafi farið af honum síðan. Nafn sitt hefur af því að hann bæði lífgar það sem dautt er og dauðvona, lengir líf manns og græðir sár fljótar og betur en nokkur hlutur annar. Þegar maður nær lífsteini þarf því ekki annað en gjöra skinnsprett á sér undir vinstri handar síðu og geyma hann þar í, því hann græðir sjálfur benina fyrir utan sig; einnig má bera hann í gullhring á þriðja fingri frá þumalfingri.

Dæmi eru til þess að krummi hafi lífgað með honum unga sína ef maður drepur alla hrafnsungana í hreiðrinu og fleygir þeim burtu, en kreistir einn til dauðs og festir hann þar og lætur ginkefli í kjaft honum svo hálsinn sé opinn. Ef hrafninn er þá iðulega við hreiðrið sækir hann þenna stein og lætur í gin ungans. Skal svo vitja um hreiðrið að tveimur eða þremur dögum liðnum, er unginn þá endurlifnaður og rauður steinn lítill sem baun í kjafti hans. „Tak steininn, en gef ungann lausan.“

Mynd Guðbjargar Kristínar Bárðardóttur

Á undan | Steinar | Á eftir

Gagnasmiðja Kennaraháskóla Íslands
1998