Sögusteinn
Úr þjóðsögum Jóns Árnasonar

Smelltu á steininn!

Til er og sögusteinn. Um hann fer einnig nokkrum frásögnum. Purkeyjar-Ólafur segir að hann finnist í maríötluhreiðri í maí. Skal maður bera hann á sér í blóðugum hálsklút og láta hann í hægra eyra þegar maður vill verða einhvers vísari af honum; segir hann þá allt sem maður vill vita.

Aðrir segja svo af þessum steini: Þegar sumar kemur í páskaviku liggur krummi á eggjunum föstudaginn langa. Um messutímann á að fara til hreiðursins og þegar pínutextinn er lesinn liggur hrafninn eins og dauður á eggjunum. Drýpur þá steinn af hrafnshöfðinu ofan í hreiðrið svo að maður má taka hann ef vill. Síðan skal herða hann og bera næst sér í poka. Þegar hann er borinn undir tungurótum skilur maður hrafnamál.

Ef maður vill vita nokkuð skal binda hann beran undir hægri handkrika sinn þegar maður leggur sig út af og vefja vel að sér fötin. „Set það á þig sem þú vilt vita áður en þú sofnar og mundu það þegar þú vaknar hvers þú hefur vísari orðið.“

Einn steinn finnst í sjávarfroðu grár að lit. Hann skal láta í stöðuvatn; verður þá mor í vatninu og í morinu sést manns ásjána, „Spyr þá þess er þú vilt vita og vert stöðugur.“

Mynd Hafdísar Sigmarsdóttur

Á undan | Steinar | Á eftir

Gagnasmiðja Kennaraháskóla Íslands
1998