Skrípi

MYNDVERK

Námskeiðið Myndgerð og tölvutækni er ætlað nemum í almennu kennaranámi til B.Ed.-gráðu með myndmennt sem kjörsvið. Einnig hafa sótt námskeiðið nokkrir starfandi kennarar í námsleyfi og kennaranemar frá öðrum löndum. Haustið 1997 sóttu námskeiðið sautján nemar í tveimur hópum og fengust meðal annars við eftirtalin verkefni sem öll tengjast þjóðsögum. Myndirnar sem urðu til á námskeiðinu eru allar birtar hér í vefnum ásamt völdum sögum og textum úr þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar. Torfi Hjartarson forstöðumaður gagnasmiðju hafði umsjón með námskeiðinu, valdi sögur og setti vefinn saman.

 

Fyrri hópur · Níu nemar

VÍTI · Hver nemi myndskreytti tvö víti í málningarforritinu KidPix. Í flestum tilvikum var um að ræða fyrstu kynni af myndgerð í tölvu. KidPix er líflegt forrit og vel til þess fallið að kveikja áhuga hjá byrjendum. Það ræður líka yfir mörgum verkfærum sem gefa einfalda mynd af verkfærum í viðameiri forritum.

SÆBÚAR OG VATNA · Nemarnir teiknuðu í málningar- og teikniforriti myndir af fjórum búum sjávar og vatna; margýgi, marbendli, sækú og nykri. Unnið var í Aldus SuperPaint, gömlu forriti en góðu til síns brúks. Seinna spreyttu nemarnir sig á að minnka myndirnar og setja þrjár myndir saman í eina til útstillingar á vefsíðum. Með því að smella á stakar verur á þeim síðum má komast að því hver teiknaði og hvað sá hinn sami teiknaði fleira af sæbúum og vatna. Einnig má kalla fram almenna kynningu og sögur af þessum kynjaverum.

SKOTTUR · Nemarnir tóku mynd hver af öðrum inn á tölvu í gegnum myndbandstökuvél og myndspjald í tölvunni. Þeim var svo falið að breyta ljósmynd af sér sjálfum í mynd af valinni skottu. Notast var við forritin Adobe PhotoShop og SuperPaint, einkum síur og málningarverkfæri. Sumir luku einni mynd, aðrir gerðu tvær eða þrjár. Myndunum fylgja sögubrot af nafnkunnum skottum.

ÁLFAR · Nemarnir máluðu í málningarforritinu Painter frá Fractal Design mynd af landslagi úr huldufólkssögu; hól, klettum eða steini. Jafnframt máluðu þeir myndir af hlutum sem koma við söguna og birtast ásamt texta hennar þegar farið er inn í hól, klett eða stein með músarsmelli. Í Painter forritinu er boðið upp á fjölda áhalda sem líkjast áhöldum þeirra sem fást við hefðbundna myndlist,svo sem olíu, vatnslitum og krít og landslagsmyndinni var ætlað að setja þá þætti forritsins í forgrunn.

UMSKIPTINGAR · Nemunum var falið að gera einfalda teiknimynd í málningarforritinu Painter. Þeir höfðu eina kennslustund til verksins. Fimm kyrrmyndir mynda stutta teiknimynd af umskiptingi, barni sem verður það sjálft, gamall og ljótur álfur, þegar aðrir sjá ekki til. Teiknimyndin úr Painter var svo vistuð sem aðgreindar kyrrmyndir, þær vistaðar með GIF-sniði í PhotoShop og settar upp í hreyfimynd fyrir vef í forritinu GifBuilder. Þessu fylgja kynningarorð og dæmigerð saga af umskiptingi.

GALDRASTAFIR · Nemarnir teiknuðu í ClarisWorks myndir af völdum galdrastöfum og fengu með því tækifæri til að bera saman teikniham og málningarham í því forriti, kosti beggja og galla. Einnig lærðu þeir að skanna og skönnuðu meðal annars ljósmyndir af Jóni Árnasyni og fjölskyldu.Ekki vannst tími til að vinna frekar með stafina í fyrri hópnum en síðari hópurinn felldi sína stafi að skönnuðum myndum.

 

Síðari hópur · Átta nemar

NÁTTÚRA · Flestir nemarnir voru að fást við myndgerð í tölvu í fyrsta skipti. Þeir teiknuðu tvær myndir í málningarforritinu KidPix, hvora um sig við eina náttúrusögu úr safni Jóns Árnasonar. Myndirnar birtast í hálfri stærð hver með sinni sögu. Á titilsíðu er notaður Java-ritlingur til að birta viðeigandi smámynd á miðri síðunni um leið og bendill fer yfir titil á sögu.

ÆVINTÝRI · Sex nemar fengu það verkefni að teikna í málningar- og teikniforriti fjórar til fimm sögupersónur, dýr eða hluti við textabrot úr gamalkunnu ævintýri, alls tuttugu og sjö myndir. Unnið var í Aldus SuperPaint með áherslu á málningarhluta forritsins.

GALDRAMENN · Nemarnir tóku mynd hver af öðrum inn á tölvu í gegnum myndbandstökuvél og myndspjald í tölvunni. Þeim var svo falið að breyta ljósmynd af sér sjálfum í tvær myndir, aðra af kölska og hina af Sæmundi fróða. Notast var við forritin Adobe PhotoShop og SuperPaint, einkum síur og málningarverkfæri.

KARLAR OG KERLINGAR · Nemarnir fengu það verkefni að mála í málningarforritinu Painter frá Fractal Design andlitsmynd af karli eða kerlingu með hliðsjón af kímnisögum. Á titilsíðu með þessum sögum er flettimynd búin til úr fjórum GIF myndum í forritinu GifBuilder. Á hverri mynd eru í einni röð fimm karlar og kerlingar.

NÁTTÚRUSTEINAR · Nemarnir teiknuðu myndir af völdum náttúrusteinum í Painter. Að því loknu tóku þeir myndir hver af öðrum í viðeigandi stellingum á stafræna ljósmyndavél í gagnasmiðju. Ljósmyndirnar löguðu þeir til í PhotoShop og fleiri forritum, hreinsuðu út bakgrunn og máluðu inn á myndirnar eftir atvikum. Þessar myndir eiga að skýra töframátt steina og birtast á þar til gerðum vefsíðum þegar smellt er á steinana.

GALDRASTAFIR · Nemarnir teiknuðu í ClarisWorks myndir af völdum galdrastöfum og fengu með því tækifæri til að bera saman teikniham og málningarham í því forriti, kosti beggja og galla. Þeir skönnuðu úr dagblöðum myndir og fyrirsagnir sem þeir völdu með hliðsjón af töframætti stafanna. Loks felldu þeir saman teiknaða stafi og skannaðar myndir í eitt myndskjal. Samsettu myndina útfærðu þeir á ýmsa vegu í forriti að eigin vali; ClarisWorks, Painter, PhotoShop eða SuperPaint.

| Skrípi |

Gagnasmiðja Kennaraháskóla Íslands
1998